spot_img

Menningarsmygl um annan þátt VERBÚÐARINNAR: Survivor Verðbúð

„Virðist vera að þróast yfir í hálfgert Dallas útgerðamanna,“ segir Ásgeir H. Ingólfsson meðal annars um annan þátt Verbúðarinnar á vef sínum Menningarsmygl.

Ásgeir skrifar:

Frásagnarlögmál Verbúðarinnar eru hægt og rólega að skýrast. Hver þáttur er eitt ár og því útlit fyrir að þessu ljúki rétt fyrir Viðeyjarstjórn Davíðs og Jóns Baldvins. Svo missir einhver líkamspart í hverjum þætti og annar missir lífið – það síðara oftast vegna óhóflegrar fíknar í örvandi efni, þótt græðgin hjálpi í báðum tilfellum til. Og allavega einn sprelli birtist í byrjun hvers þáttar.

Nú erum við komin til ársins1984, þegar Steingrímur missti puttann og Ghostbusters kom í bíó, og þessi árapæling virkar ágætlega, leyfir okkur að geta í hæfilega langar eyður og tryggir að framvindan er ágætlega snörp, raunar of snörp oft – það mætti alveg stundum gefa sér betri tíma og huga betur að ákveðnum persónum.

En þetta virðist vera að þróast yfir í hálfgert Dallas útgerðamanna, hin saklausa Harpa orðin hákarl sem fær stóru ræðuna í þessum þætti, hún er kapítalíski femínistinn, allavega þegar hentar, tálkvendi sem ákveður að taka sér pláss í aðalhlutverki. Enn skerpast átök gömlu og nýju peninganna í orðaskaki hennar og Sólons – en nýjir peningar verða auðvitað fljótt gamlir.

Það sést líka á krísufundum moldríks fólks að vandinn er að vissu leyti sá að þau lifa í sínum míkróheimi, þar sem allt er ávallt undir, jafnvel þótt nægir peningar séu í raun til. Þessir míkróheimar eru líklega óhjákvæmilegir og oft nauðsynlegir – en um leið stórhættulegir, hvort sem sá heimur er Ísland, stök þörp, stakar fjölskyldur eða stakir einstaklingar. Hættan er alltaf að lokast inní míkróheimum – og ekki skánar það þegar fólki er skipað að loka sig inní búblum.

Íslenski draumurinn er svo ágætlega orðaður í bestu setningu þáttarins, þegar Ella Stína (Anna Svava Knútsdóttir) biður bólfélaga sinn: „Nennirðu að moka inn peningum og fara með mig héðan, í alvörunni?“

En fólk fer auðvitað aldrei neitt, allavega ekki mjög langt, af því það er alltaf hægt að moka inn meiri peningum.

Smælingjar í aukahlutverki

En af hverju er það vandamál að frásögnin sé óþarflega hröð? Jú, af því það bitnar fyrst og fremst á persónusköpun smælingjanna. Það er einn gaukur á verbúðinni með burði til að verða einhvers konar verkalýðsleiðtogi – en hann er kynntur til sögunnar sem ógnandi nærvera, alltaf með kassan úti, að slá menn út af laginu við öll tækifæri. Örlítil sena af tilhugalífi hans og kærusturnar og kviðmágkonu Hörpu hefði gert mikið til að gera þau aðeins mennskari, leyfa okkur að finna betur fyrir þeirra ströggli og þeirra kringumstæðum. Löggan tekur svo auðvitað málstað útgerðarinnar – en þegar smælingjarnir eru með kjaft þá eru þeir vitaskuld slegnir kaldir, en sett þannig upp að hann hafi nú verið svo mikill búllí gagnvart grey Pétri Jóhanni að hann ætti það skilið.

Sömuleiðis er daðrið í Hull klassískt sjómannaævintýri, án nokkurar rómantíkur – þannig að þegar sjóarinn fellur fyrir borð eftir að hafa hagað sér sem vitleysingur mestalla ferðina þá er harmurinn ekki mikill, bara enn einn vitleysingurinn sem hafið tók. Eða svo vitnað sé í skáld að vestan:

„Á meðan verkafólkið sem hefur komist í fókus er allt meira og minna heimskir rugludallar, sem má hafa samúð með en bara sem smælingjum, eru kapítalistarnir „töff og umhyggjusamar konur í karlaheimi“, þingmaðurinn er „breyskur en með gullhjarta“ og ráðamenn á Þorbjörginni eru … hvað eru þeir? Vinalegir lúðar? Leiksoppar?“

En það virðast enn töggur í Sveppa Walesa, þrátt fyrir allt það mótstreymi sem hann lendir sífellt í. Ég held áfram að binda vonir við að hann leiði byltinguna. Eða kannski er tesa þáttana einmitt þessi, að við höfum einfaldlega alltaf bara látið okkur hafa þetta rugl?

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR