[Stikla] Lestin um HVUNNDAGSHETJUR: Velkomin til Íslands

„Dýrmæt svipmynd af fjórum lífum og það er óskandi að við fáum fleiri slíkar sögur,“ segir Ásgeir H. Ingólfsson meðal annars í Lestinni um heimildamyndina Hvunndagshetjur eftir Magneu B. Valdimarsdóttur, sem sýnd var á RIFF.

Ásgeir skrifar:

Heimildamyndin Hvunndagshetjur er fyrsta mynd Magneu B. Valdimarsdóttur í fullri lengd, en hún gerði ansi göldrótta stutta heimildamynd fyrir fáeinum árum, Helgi á Prikinu, um aldraðan fastagest á einu elsta kaffihúsi Reykjavíkur.

Núna er umfjöllunarefnið fjórar konur sem eiga það sameiginlegt að hafa allar komið hingað snemma á öldinni þegar innflytjendur voru enn fámennur hópur, eða jafnvel fyrir aldamót. Þetta eru þær Zineta, Ebru, Karolina og Maria Victoria. Allar tala þær ágætis íslensku – með mjög mismiklum hreim vissulega, en eins og Ebru orðar það á einum stað, ef fólk skilur hana er sigurinn unninn.

Þetta eru skemmtilegar og lífsglaðar konur og mjög ólíkir karakterar. Hin bosníska Zineta er harðjaxlinn í hópnum, hin pólska Karolina fílósóferinn, hinn jamaíska Maria Victoria sú glysgjarna, alltaf með nýja hárkollu, og hin tyrkneska Ebru eins og amma þeir allra, byrjuð að láta sig dreyma um elliárin á tyrkneskri strönd. Þær Maria Victoria og Ebru vinna báðar á leikskóla og gera í upphafi myndar grín að atriði í áramótaskaupinu um erlenda hreiminn sem börnin læra á leikskólunum.

Þær eru allar búnar að koma sér ágætlega fyrir og það eru ekki mikil átök í myndinni, hér eru engar dramatískar senur af Útlendingastofnun og engar sögur um þá stofnun, allavega ekki nema mögulega á milli línanna á stöku stað. Þannig stendur myndin undir nafni, þetta eru konur sem hafa fundið sér sinn hvunndag á Íslandi, tilveru sem er ágætlega hversdagsleg og í sumum tilfellum er það eitt og sér sigur.

Átökin eru mest í fortíðinni og við fáum nasasjón af þeim á köflum. Zineta segir okkur frá Bosníustríðinu og Maria Victoria frá því þegar hún missti foreldra sína ung. Karolina rifjar upp þegar Evrópa var að opnast fyrir íbúum austursins þegar hún var enn á barnsaldri. Það glittir aðeins í átök þegar kófið skellur á, en það verður lúmskt fljótt hluti af hvunndeginum líka.

Sögur kvennanna fjögurra eru hins vegar missterkar. Maður fær ansi magnaða svipmynd af þeim Zinetu og Karolinu en maður kemst aldrei alveg jafn nálægt hinum tveimur, þar er harmurinn faldari, þær eru dulari á sinn hátt, hafa lært þann íslenska sið að sveipa harm sinn íslenskum hressleika. Þannig er veikleiki myndarinnar að vissu leyti innbyggður, þessar svipmyndir af fjórum konum verða mjög misáhugaverðar, stundum saknar maður sterkari þráðs í gegnum myndina.

Allar eru þær þó þrælskemmtilegar, þetta er dýrmæt svipmynd af fjórum lífum og það er óskandi að við fáum fleiri slíkar sögur. Um þá sem eru nýkomnir, um aðra kynslóð innflytjenda og svo framvegis og svo framvegis.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR