Fréttablaðið um DÝRIÐ: Stórundarleg og stórmerkileg

Dýrið er stór­undar­leg og stór­merki­leg lítil en samt svo stór kvik­mynd sem stendur auð­veld­lega undir allri já­kvæðu at­hyglinni með því að brenna sig svo seig­fljótandi hægt inn í vitund á­horf­andans að hann með­tekur möglunar­laust öll þau undur og stór­merki sem Valdimar og Sjón töfra fram, segir Þórarinn Þórarinsson meðal annars í Fréttablaðinu.

Þórarinn skrifar:

Dýrið er magnað verk sem leynir verulega á sér þar sem hryllingi, útúrspeisaðri fantasíu og kynngimögnuðum þjóðsagnaminnum er fléttað af mikilli list saman við lágstemmda sögu um harm og hamingju bændahjóna í íslenskri sveit.

Áhorfandinn er síðan ruglaður enn frekar í ríminu þar sem hárfín gríntaug liggur í gegnum myndina og feigð, lífsþorsti og þrúgandi annarleiki svífa yfir dalnum þar sem sauðfjárbændurnir María og Ingvar stunda búskap.

Myndin, sem er mjög svo rétt nefnd Lamb í útlöndum, hefur verið eyrnamerkt sem hryllingsmynd sem að ofansögðu er vitaskuld heldur mikil en eiginlega óhjákvæmileg einföldun. Myndin er nefnilega svo djúp og reynir á ótrúlega ísmeygilegan hátt á þolrif og taugar áhorfandans á meðan hún sækir á hann úr ólíklegustu áttum.

Hér kveður við svo mörg ólík stef að til enn frekari einföldunar má segja að í fjallasal Dýrsins bergmáli jafn fjarlæg verk og The Witch og Stúart litli. Klikkað? Já, algerlega snargalið en gengur svo fullkomlega upp í meðferð Valdimars Jóhannssonar að þau sem koma að myndinni með opnum huga og hæfilegri þolinmæði uppskera ríkulega.

Dýrið, eða Lambið, er þess eðlis að hér er úr vöndu að ráða og þótt undirritaður gefi lítið fyrir endalausar upphrópanir og væl yfir „spoilerum“ þá má í raun lítið sem ekkert segja án þess að eyðileggja fáránlegan söguþráðinn sem er ávísun á áhrifaríka upplifun og uppsprettu endalausra vangaveltna um samband manns og náttúru, fítonskraft móðureðlisins, hinstu rök tilverunnar og ýmislegt þar á milli fyrir þá sem koma að myndinni hóflega fávísir en með réttu hugarfari.

Þótt Dýrið sé ekki hryllingur í klassískum skilningi þá sækir þessi jarðnána fantasía heilmikinn lambakjötskraft og rótsterk krydd úr þeirri hillu og í kjarna hennar kraumar helsta frumefni hryllingsmyndanna: upplausn kjarnafjölskyldunnar með skelfilegum afleiðingum eftir að hún hleypir utanaðkomandi afli, veru eða efni inn á heimilið.

Óværan er þá oftar en ekki sveipuð einhvers konar eftirsóknarverðri eða heillandi dulu. Jafnvel einfaldlega sauðargæru eins og kristallast ef til vill í þessu samtali bræðranna Péturs og Ingvars í Dýrinu:

Hvað er þetta?

Hamingjan.

Við þessi orðaskipti er litlu að bæta öðru en því að þarna, eins og yfirleitt alltaf þegar fólk teygir sig of langt og út yfir ákveðin mörk, þá verður hamingjan sú ansi hreint hverful.

María átti lítið lamb

Hljóður harmur svífur yfir heimili og samskiptum hjónanna Maríu og Ingvars sem syrgja látna dóttur þar til hamingjan birtist í mjög svo óvæntri mynd í fjárhúsinu þeirra, tekur sér veigamikinn sess í hjörtum þeirra og ryður sér til rúms á bænum.

Hamingjan er framan af utan sjónmáls myndavélarinnar en tekur á meðan á sig ákaflega áþreifanlega mynd í hugum áhorfenda með svipbrigðum og augnaráði nýju „foreldranna“ þannig að þegar loksins kemur að geggjaðri afhjúpuninni er einhvern veginn eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Valdimar hefur þá löngu tekist að leiða áhorfandann áreynslulítið, með heillandi hægð, inn í þá fáránlegu furðuveröld sem þeir Sjón hafa skapað af mikilli íþrótt. Sjálfsögð og eðlileg gleðin í heimilislífinu verður síðan ekki undarleg fyrr en Pétur, bróðir Ingvars, ráfar inn í söguna og gerist fulltrúi áhorfenda þegar hann spyr í forundran hvað þetta sé. Illa til reika í svarta leðurjakkanum og sjálfsagt skelþunnur ofan á allt annað.

Heilög Noomi

Mennskar persónur myndarinnar eru þrjár; hjónin María og Ingvar sem Noomi Rapace og Hilmir Snær leika og utangarðsmaðurinn Pétur, sem Björn Hlynur Haraldsson leikur. Þau gefa sig öll í þetta og eiga drjúgan þátt í því hversu auðgleypt öll sýran er.

Björn Hlynur er í toppformi, er skemmtilega á skjön og lætur þriðja hjólið rúlla af léttleikandi öryggi. Þá er samleikur þremenninganna svo góður að spennan sem smám saman magnast milli persónanna verður á köflum þrúgandi auk þess sem Noomi og Hilmir Snær eru átakanlega sannfærandi sem fólk sem tekur galnar ákvarðanir og er tilbúið til þess að ganga eins langt og þarf til þess að láta drauminn um betra líf rætast.

Þá kafar Noomi svo djúp ofan í persónu Maríu og gerir henni svo undurfögur skil, eins og hennar er von og vísa, að hvergi er á hina tvo hallað þótt hún hljóti að teljast skærasta stjarna myndarinnar. Hún bókstaflega glansar þegar hún tekur nánast á sig helgimynd móðurímyndar eilífðarinnar.

Valdimar hefur traustatak á öllum þráðum og sýnir í raun óvenju mikla dirfsku með því að ráðast á jafn háan garð í sinni fyrstu bíómynd sem gefur stór fyrirheit um framtíð hans sem leikstjóra.

Hann er líka greinilega ekkert að grínast þótt efniviðurinn gæti oft bent einmitt til þess þannig að sjaldan hefur reynst jafn auðvelt að gangast fantasíunni á vald í bíó. Hér gengur einfaldlega allt upp í krafti geggjaðrar sögu, styrkrar leikstjórnar, einvala leikaraliðs og síðast en ekki alveg síst líklega vönduðustu tæknisjónhverfinga sem sést hafa í íslenskri kvikmynd.

Niðurstaða: Hvað er þetta? Stórundarleg og stórmerkileg lítil en samt svo stór kvikmynd sem stendur auðveldlega undir allri jákvæðu athyglinni með því að brenna sig svo seigfljótandi hægt inn í vitund áhorfandans að hann meðtekur möglunarlaust öll þau undur og stórmerki sem Valdimar og Sjón töfra fram.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR