Mia Hansen-Løve og Joachim Trier heiðursgestir RIFF í ár

Joachim Trier frá Noregi og Mia Hansen-Løve frá Frakklandi hljóta heiðursverðlaun RIFF í ár fyrir framúrskarandi listræna sýn. Verðlaunin verða afhent af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum á setningardegi RIFF þann 30. september. Sama dag verða þau með meistaraspjall í Gamla bíói við Ásu Helgu Hjörleifsdóttur og Hafstein Gunnar Sigurðsson, sem er öllum opið.

Trier og Hansen-Løve eru í hópi áhugaverðustu leikstjóra samtímans af yngri kynslóð. Þau voru bæði með nýjar myndir í Cannes í sumar sem fengu afbragðs dóma og verða þær sýndar á RIFF ásamt eldri myndum þeirra. Mynd Trier er Versta manneskja í heimi (Verdens verste menneske), en mynd Hansen-Löve kallast Bergman eyja (Bergman Island). Sú fyrrnefnda verður opnunarmynd RIFF í ár.

RIFF mun einnig sýna tvær aðrar myndir eftir báða leikstjórana. Annarsvegar Osló 31. ágúst (2011) og Louder Than Bombs (2015) eftir Trier og hinsvegar Það sem verður (L’Avenir, 2016) og Eden (2014) eftir Hansen-Løve.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR