Ásgeir H. Ingólfsson um DÝRIÐ: Lambið í barnaherberginu

„Myndina mætti kannski flokka í ákveðna hefð nýlegra íslenskra mynda, sem gerast í afskekktum sveitum eða smáþorpum, en snúa upp á hefðina með nýju og torkennilegu bragði í súpuna,“ segir Ásgeir H. Ingólfsson meðal annars um Dýrið eftir Valdimar Jóhannsson, sem hann sá nýverið á Karlovy Vary hátíðinni.

Ásgeir segir á vef RÚV:

Kvikmyndahátíðir heimsins eru loksins að komast aftur á hefðbundið ról eftir kófið – og þó, ekki alveg hefðbundið. Það voru örugglega um helmingi færri á Karlovy Vary en venjulega, maður þurfti úlnliðsband til að sanna annað hvort bólusetningu eða nýlegt próf – og á stöku stað var grímuskylda, meðal annars inni í bíósölunum, þótt menn hafi verið misstrangir á þeim reglum öllum saman.

Og eftir gláp vikunnar er maður strax farinn að hafa áhyggjur af jólunum. Já, jólunum. Í The Green Knight kemur titilpersónan, græni riddarinn, í óvænta heimsókn til Camelot-kastalans um jólanótt, með tilboð um einkennilegan samning um exi og afhöggvin höfuð, sem hann leggur fyrir Artúr konung og hirð hans.

Það er líka eitthvað einkennilegt í gangi í íslensku fjárhúsi í upphafi Dýrsins, kvikmynd Valdimars Jóhannssonar, sem hann skrifaði í kompaníi við Sjón.

Við sjáum óttaslegnar kindur að bíða síns eigin græna riddara, við sjáum óttann í augum þeirra á meðan jólaklukkurnar hringja inn jólin og jólalögin taka við, þetta er blíð og um leið óhugnanleg sena. En við sjáum samt ekkert óhugnanlegt gerast. Þess í stað koma bóndahjón nokkur inn í fjárhúsið og taka á móti nýfæddu lambi. Ærin virðist vissulega í uppnámi, en að öðru leyti virðist allt með feldu.

Enda er Dýrið alls ekki hrollvekja, þótt sumir hafi kallað hana það. Hér eru hrollvekjuminni til staðar, sannarlega – en þau eru það fá og lágstemmd að það eru í mesta lagi eitt-tvö atriði í myndinni þar sem viðkvæmir áhorfendur þurfa kannski að loka augunum.

En þótt hryllingurinn sé mest undirliggjandi þá er hið óvenjulega og óræða alltumlykjandi. Bóndahjónin bregðast nefnilega óvenjulega við sauðburðinum; þau taka gimbrið litla í fóstur og ala upp sem sína eigin dóttur.

Ástæðurnar eru framan af óræðar – hjónin eru allavega barnlaus og eiginkonan heitir María, og þið þekkið öll söguna um Maríu og fjárhúsið á jólanótt – en þessi saga endar ekki alveg eins. Enda heitir eiginmaðurinn hérna Ingvar en ekki Jósep og dóttirin heitir Ada, sem þýðir hin fyrsta dóttir í afrískum málum. Ada er líka tékkneskt heiti myndarinnar – þar er undirtitillinn „íslensk ballaða,“ en víðast hvar heitir myndin einfaldlega Lamb.

Spurningin er svo auðvitað þessi: er Ada bara venjulegt lamb, eða eitthvað meira? Svörin koma, hægt og rólega, sum þeirra það er að segja, alls ekki öll. Rétt eins og í sjónvarpsþáttaröðinni Kötlu er hér leikið með þjóðsagnaminni – en mun óræðari þó, í Kötlu er nokkuð skýrt tekið fram þegar á líður hvers konar umskiptinga er um að ræða; hvaðan þjóðsagnaminnin í Dýrinu eru sprottin er mun óræðara. Raunar minnir myndin ekki síður á Annette, opnunarmynd kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, að því leyti að þar er trébrúða alin upp eins og manneskja væri. Og í Annette kippir engin sér upp við útlit stelpunnar Annette – og það er líka tilfellið í Dýrinu – allavega þangað til Pétur, bróðir Ingvars, kemur í heimsókn. Við heyrum bút úr myndinni þar sem þeir bræður ræða saman:

Ingvar: Hún er ekki vön ókunnugum.

Pétur: Hvað er þetta???

Ingvar: Hamingjan.

Það er Björn Hlynur Haraldsson sem leikur Pétur bróður, ólansmann á vergangi sem eitt sinn var poppstjarna. Þau Hilmir Snær Guðnason og Noomi Rapace leika bóndahjónin. Og þar með eru í raun helstu mennsku hlutverk myndarinnar upptalinn. Þeir Hilmir Snær og Björn Hlynur eru sannfærandi bræður og skila sínu prýðilega – en stjarna myndarinnar er þó sannarlega hún Noomi, sem talar eins og við vissum prýðilega íslensku og fær í raun lang margbrotnasta og tilfinnigaríkasta hlutverkið. Rétt í byrjun hefur maður aðeins á tilfinningunni að hún sé að venjast því að leika á íslensku og orkan fari meira í framburðinn en leikinn – en það er fljótt að hverfa. Hér bregður hún upp flókinni og margbrotinni mynd af óvenjulegri móður, en þó merkilega einfaldri um leið, enda myndin lágstemmd og einföld á yfirborðinu, þótt ýmislegt mari undir.

Og þegar ég segi að Noomi sé stjarna myndarinnar þá meina ég hin mennska stjarna myndarinnar – hin eiginlega stjarna myndarinnar er vitaskuld titilpersónan Ada, lambið ljúfa. En það er ómögulegt að fjölyrða um ástæður þess – það er nefnilega örlítið snúið að skrifa um þessa mynd þar sem tveimur lykilatriðum er ómögulegt að segja frá án þess að skemma upplifunina.

Myndina mætti kannski flokka í ákveðna hefð nýlegra íslenskra mynda, sem gerast í afskekktum sveitum eða smáþorpum, en snúa upp á hefðina með nýju og torkennilegu bragði í súpuna. Með öðrum orðum, hún er hefðbundin sveitamynd, EN … og í þetta skiptið er þetta EN lambið og þjóðsagnaminnin sem undir krauma.

Sveitabýli hjónanna er við Hraun í Öxnadal og Ingvar kennir henni Ödu að rata út frá tindinum ógurlega. Það eru ægifalleg skot inná milli innan úr dalnum, myndskeið sem skapa þá tilfinningu að hér kunni sannarlega ýmsar furðuverur að búa.

Undirliggjandi eru svo mögulega spurningar um sorgina, samband manns og náttúru, jafnvel erfiðar spurningar um kjötát og lambaslátrun – en lykilorðið hér er mögulega, þessi mynd gefur ekki mikið upp um ætlun sína en leyfir áhorfendum að mestu að túlka torræðnina að vild.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR