spot_img

Fjöldi íslenskra verka á Nordisk Panorama

12 íslensk verkefni, útkomin og væntanleg, taka þátt í stutt- og heimildamyndahátíðinni Nordisk Panorama sem fer fram í 32. skipti dagana 16.-21. september í Malmö í Svíþjóð. Hátíðin er helsta hátíð sinnar tegundar á Norðurlöndum og sýnir eingöngu myndir eftir norræna kvikmyndagerðarmenn.

Veitt eru verðlaun fyrir bestu heimildamyndina, stuttmyndina og björtustu vonina (Best New Nordic Voice), auk áhorfendaverðlauna. Hliðarkeppni af stutt- og heimildamyndakeppnunum er svo Young Nordics þar sem myndir sérstaklega ætlaðar börnum eru í keppni. Tilkynnt hefur verið um þær myndir sem valdar hafa verið í aðalkeppni hátíðarinnar, ásamt þeim verkefnum sem taka þátt í Nordisk Panorama Forum og Nordic Short Film Pitch.

Besta norræna heimildamyndin

Í ár munu myndirnar A Song Called Hate eftir Önnu Hildi Hildibrandsdóttur og Góði hirðirinn eftir Helgu Rakel Rafnsdóttur keppa um bestu norrænu heimildamyndina og eru alls 14 norrænar heimildamyndir sem keppa um titilinn og 11.000€ verðlaunafé.

A Song Called Hate: Tvö hundruð milljón manns eru að horfa! Raunveruleiki sem blasti við íslensku Eurovisonförunum árið 2019 sem voru ákveðnir í að gera hina ópólitísku söngvakeppni pólitíska. Söngur um hatur kortleggur ferðalag hljómsveitarinnar Hatara er þeir reyna að breyta heiminum og sýnir hvernig ferðalagið breytir þeim.

Góði hirðirinn: Á landi Þorbjörns Steingrímssonar við Ísafjarðardjúp eru hátt í 600 bílhræ. Góði hirðirinn veltir upp spurningum um manneskjuna, umhverfi og fagurfræði. Myndin er sería af lifandi póstkortum frá afskekktum stað sem sumir sjá sem ævintýraland á meðan aðrir býsnast yfir draslinu.

Best Nordic Short Film

Stuttmyndirnar Dalía eftir Brúsa Ólason og Eggið eftir Hauk Björgvinsson keppa um bestu norrænu stuttmyndina og eru þær á meðal 19 norrænna stuttmynda sem keppa um 5.000€ verðlaunafé. Auk þess er sigurmyndin gjaldgeng í tilnefningu á stuttmyndahluta Óskarsverðlaunahátíðarinnar.

Dalía: Ungur strákur þarf að eyða helginni í sveitinni með pabba sínum. Þegar þeir finna meri sem hefur flækst í vír og þarf að aflífa þá byrjar samband feðgana að þróast til hins betra.

Eggið: Gunnar og Anna búa í litlu samfélagi sem hverfist um að útrýma ástarsorg með því að allir fái úthlutað nýjum maka á 7 ára fresti í Ástarlottóinu. Líf án ástarsorgar virðist sem himnaríki á jörðu en dystópískur raunveruleikinn blasir við þegar Gunnar og Anna verða ástfanginn upp fyrir haus og standa frammi fyrir úthlutun á nýjum maka.

New Nordic Voice

Stuttmyndin Allir hundar deyja var valin til keppni um björtustu vonina (Best New Nordic Voice).Allir hundar deyja er á meðal 20 stutt- og heimildamynda sem keppa um 5.000€ verðlaunafé.

Um þokukennda helgi takast aldraður bóndi og hundurinn hans á upp á líf og dauða.

Young Nordic – Children’s Choice Award

Þá tekur stuttmyndin Milli tungls og jarðar eftir Heklu Egilsdóttur og Önnu Karín Lárusdóttur þátt í Young Nordics hluta hátíðarinnar, þar sem yngstu áhorfendurnir sjá um að velja eina af ellefu myndum sem vinningsmynd flokksins.

Tvö ár eru liðin frá dularfullu hvarfi elsta sonar í pólskri fjölskyldu búsett á Íslandi. Myndin skoðar hvernig fjölskyldan tekst á við missinn á mismunandi hátt og hvernig þau fjarlægjast hvort frá öðru í kjölfarið.

Nordisk Panorama Forum

Alls munu fjögur íslensk verkefni í vinnslu taka þátt í Nordisk Panorama Forum, sem fer fram sem hluti af Nordisk Panorama hátíðinni frá 18. – 23. september. Það eru heimildamyndirnar Dancing Lines eftir Friðrik Þór Friðriksson, Hanging Outeftir Ragnar Agnarsson og The Ground Beneath Our Feet eftir Yrsu Roca Fannberg, sem tekur þátt undir formerkjum Wildcard Iceland. Þá mun verkefnið Atomy eftir Loga Hilmarsson taka þátt sem Observer+.

Nordisk Forum er vettvangur fyrir heimildamyndagerðarfólk sem vill komast í samband við fjölda norrænna og alþjóðlegra aðila frá sjónvarpsstöðvum, kvikmyndastofnunum og ýmsum sjóðum með það fyrir augum að verða heimildamyndum sínum úti um fjármagn.

Nordic Short Film Pitch

Tvö íslensk verkefni í vinnslu taka þátt í Nordic Short Film Pitch sem fer fram þann 18. september samliða hátíðinni. Það eru verkefnin Innrás náttúrunnar eftir Gunnur Martinsdóttir Schlüter og Zoo-I-Side eftir Önnu Ólafsdóttir.

Markmiðið með Nordic Short Film Pitch er að tengja Norræna stuttmyndagerðarmenn saman og að gera þeim kleift að styrkja tengslanet sitt fyrir framtíðar samvinnu og samframleiðslu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR