Lestin um ÖLMU: Sálin og hrunið, sveitin og geðveikrahælið

„Hér er einhver samruni ljóða og kvikmynda með nýjum meðulum sem maður hefur varla séð áður í íslensku bíói,“ segir Ásgeir H. Ingólfsson um Ölmu Kristínar Jóhannesdóttur í umsögn sinni fyrir Lestina á Rás 1.

Ásgeir skrifar:

Alma. Alma þýðir Sálin. Eða Heimurinn. Eftir því í hvaða tungumál þú sækir orðsifjarnar. Alma er mynd um manneskju í leit að rótum, rótum sem aðrir reyna að slíta hana frá. Alma er brotin sál, tvístruð sál á réttargeðdeild.

Þessi fyrsta mynd Kristínar Jóhannesdóttur í 29 ár byrjar á ólíklegum stað fyrir íslenska mynd – í stríðshrjáðri erlendri borg. Við sjáum samt ekki átökin, við heyrum bara í þeim – en sjáum þennan arkítektúr eyðileggingarnar sem einkennir stríðshrjáðar borgir – þessi einkennilegu minnismerki sem eru þar oft enn þá löngu eftir að stríðinu lýkur. Þar sem burðarbitar og snúrur skaga fram úr hálfhrundum húsum.

Þarna hittum við svo Ölmu fyrir, sem barn í fangi móður. Og tíminn frýs og svo erum við komin út í himingeiminn. Stjörnuþokuna. Nafn Snæfríðar Ingvarsdóttur birtist á skjánum – og svo Snæfríður sjálf, sem hin fullorðna Alma, í örskotsstund, áður en við erum komin aftur út í himingeim þar sem önnur leikaranöfn og titill birtast okkur og svo loksins minning um eiginmann leikstýrunnar, skáldið Sigurð Pálsson, sem á ljóð í myndinni.

Alma er sem fyrr segir á réttargeðdeild og virðist mállaus. Og þó, það er ekki alveg nákvæmt; hún talar ekki. En hún skrifar og skrifar, krotar á veggi og á sjálfa sig. Þegar hún hefur þakið sjálfa sig bókstöfum er hún þögguð, blekið er þvegið af henni í sturtunni. Undir öllu þessu fer barnsrödd með ljóð sem er þó greinilega fullorðinskveðskapur. Hún talar um hvernig þær eru margar – við skiljum fljótt að þetta eru raddirnar í hausnum á Ölmu, sem eru einfaldlega mismunandi birtingarmyndir tvístraðrar undirmeðvitundar, hún er bernskan sem hún reynir að gleyma. Við áttum okkur fljótt á að þessi geðdeild er Gaukshreiður myndarinnar; myndlíking um sjúkt samfélag. Við upplifum Ölmu sjaldnast beint sem veika, frekar sem brotna manneskju í brotnum heimi – að púsla saman sjálfinu.

Allar þessar konur virðast eiga merkilega svipaða sögu; þær myrtu í sjálfsvörn. Ofbeldisfulla maka, oftast nær. Ein þeirra biður aðra að segja sér aftur söguna um það hvernig hún endaði á geðdeild; þær hugga aðra með svipuðum sögum. Af vistmönnum má ég svo til með að nefna Ólafíu Hrönn Jónsdóttur, sem leikur Pálínu, vistkonu sem finnur ljóðskáldið í sjálfri sér með hjálp Ölmu. Ólafía sýnir þarna magnaðar nýjar víddir í sínum leik sem ég hef ekki séð áður, hún er vissulega kómísk að venju en það er tregi og harmur sem blandast við og yfirgnæfa kómíkina.

Alma virðist hafa verið í rokkbandi í sínu fyrra lífi, lífinu utan geðdeildar. Hér birtist okkur fyrst og fremst fyrrum rokkstjarnan sem ljóðskáld, sískrifandi, yrkjandi. Myndin veltir fyrir sér geðveiki og list, andi Focault svífur yfir vötnum – og líka hrunið, konurnar sjá forsætisráðherra biðja Guð að blessa Ísland og ærast úr hlátri.

Þær sjá kallana að öllu klúðra, kallana með allt niðrum sig, kallana sem þóttust vita allt. Kallana sem þær drápu á endanum. Yfir vofar svo geðlæknirinn, eini kallinn sem við sjáum í þessum fyrsta hluta myndar; Hilmir Snær leikur Ingvar, sem er annar snúningur á Gaukshreiðrið – Ratched hjúkrunarkona er hér orðin glysgjarn karlpungur af góðum ættum sem vill fyrst og fremst drottna yfir þessum konum. En hann er líka Neró-sögunnar; sá sem spilar á fiðlu á meðan spilaborg kapítalismans hrynur.

En Alma er ekki alveg eins og hinar konurnar. Hún er saklaus – enda gamli kærastinn einfaldlega ekki dauður. Hann hefur einfaldlega farið huldu höfði í áratug, týndur úti í heimi. Við þessar fréttir öðlast Alma málið á ný og strýkur áður en henni er veitt lausn; endar aftur í gamla smábænum þar sem hún ólst upp. Þar hittum við fyrir frystihúsastjórann sem hún hálfpartinn hótar til að fá vinnu, hann er pabbi Ara, kærastans sem er á leiðinni aftur til landsins. Þar hittum við líka fyrir þær Kristbjörgu Kjeld og Emmanuelle Riva, tvær aldraðar stórleikkonur hvor frá sínu landinu sem eru kostulegar saman. Tvær kvótaekkjur, fornar og kúnstugar í fari – en óðar í ís. Og þessi mynd reyndist svanasöngur Riva, þessarar frönsku stórleikkonu sem lést skömmu síðar, mánuði fyrir níræðisafmælið.

Þegar á líður minnir margt á lykilmyndir íslenskar upp úr aldamótunum; Nóa albínóa og 101 Reykjavík helst. Alma er skuggahliðin á þeim, harmleikurinn við hlið þessara gamanleikja. Alma er kvenkyns Nói, hún er mögulega langþreytt kærasta auðnuleysingjans Hlyns Björns. En þrátt fyrir þessar vísanir er rétt að árétta hversu einstök bíómynd Alma er, eins og höfundarverk Kristínar allt, allavega í minninu, frönsk í hjartanu jafnt og íslensk. Nói albínói væri til dæmis kölluð listabíó í öllu öðru samhengi – en hún er eins og Hollywood-mynd við hlið Ölmu. Það er helst að maður hugsi aðeins um Terence Malick – sem gerði tvær myndir og lét okkur svo bíða í áratugi eftir næstu, en hefur verið ofvirkur síðan. Við skulum vona að það verði eins með Kristínu, við þurfum miklu fleiri bíómyndir frá henni.

Hér er einhver samruni ljóða og kvikmynda með nýjum meðulum sem maður hefur varla séð áður í íslensku bíói; hún leikur sér með að smygla esseyjumynd inn í leikna mynd – og útkoman? Maður finnur strax í byrjun að þessi mynd mun feta torfæra slóð, myndin misstígur sig margoft – en nánast hver einasta hrösun er áhugaverð, þetta er margfalt áhugaverðari mynd en margar hnökralausar myndir. Þetta er mögnuð mynd og mistæk, hugrökk og falleg – og lokasenan er sú allra fallegasta.

Hér er raunar rétt að árétta að gestsaugað getur verið glöggt og íslenskt bíó hefur verið ótrúlega heppið með glögg gestsaugu upp á síðkastið. Sturla Brandth Grøvlen þekkja margir, einhver besti tökumaður samtímans sem gefur sér samt líka tíma til að skjóta Hjartastein, Hrúta og Last and First Man. Og svo er það hún Ita Zbroniec-Zajt. Hún er sænsk-pólsk, ég heyrði fyrst af henni þegar ég tók viðtal við sænska leikstjórann Måns Månsson um þá mögnuðu mynd Yarden – og núna er hún orðin sérfræðingur í að kvikmynda Suðurnesin; hún var myndatökumaður Ísoldar Uggadóttur í Andið eðlilega og í Ölmu er hún á nálægum slóðum, en dularfullt sveitaþorp Ölmu, sem landafræðin segir manni að sé á Suðurnesjunum (þetta virðist ekki það langt frá borginni) reynist einmitt vera hvergiland samsett úr Grindavík, Vogum á Vatnsleysuströnd og fjarlægum Djúpavoginum.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR