Viðtal við Árna Óla frá 1999: Fyrst og fremst ævintýramennska

Eitt fyrsta viðtalið við Árna Ólaf Ásgeirsson birtist í Landi & sonum, málgagni kvikmyndagerðarmanna, haustið 1999. Þá var Árni að ljúka námi sínu í leikstjórn við Kvikmyndaskólann í Lodz í Póllandi. Viðtalið tók Skarphéðinn Guðmundsson, núverandi dagskrárstjóri RÚV. Viðtalið fer hér á eftir, en það má einnig skoða í blaðinu sjálfu með því að smella hér.

Árni Ólafur Ásgeirsson lýkur á næstunni námi í kvikmyndaleikstjórn frá kvikmyndaháskólanum í Lódz í Póllandi en þar hefur hann verið undanfarin fimm ár. Árni sker sig auðvitað nokkuð úr þeim fjölda kvikmyndagerðarmanna sem stundað hafa nám við erlenda kvikmyndaháskóla á undanförnum árum enda hefur straumurinn legið vestur um haf eða til nágrannalandanna.

“Ég er búinn að svara þessari spurningu svo ofboðslega oft,” sagði Árni þegar blaðamaður Lands og sona spurði hann hvernig það hefði komið til, að hann hélt til Póllands í nám. “Fyrst langaði mig auðvitað til Ameríku en svo hætti ég við það þegar ég var kominn að þeirri niðurstöðu að ég hefði meiri áhuga á evrópskri kvikmyndagerð.” Kveðst Árni aukinheldur hafa heyrt misjafnar sögur af kvikmyndaskólunum í Bandaríkjunum.

“Fyrst ætlaði ég til Ítalíu, síðan til Frakklands, svo Englands, Kaupmannahafnar og svo framvegis og framvegis og framvegis. í kjölfarið horfði ég alltaf á fleiri og fleiri kvikmyndir og svo einhvern veginn ákvað ég bara að “fara alla leið”. Það er nefnilega þannig að maður er uppalinn við þessa vestrænu kvikmyndahefð og mig langaði bara að kynna mér eitthvað annað,” segir Árni. “En auðvitað er þetta fyrst og fremst ævintýramennska.”

Lódz er næst stærsta borgin í Póllandi og þar býr um milljón manns. Borgin er í miðju Póllandi og að sögn Árna er þetta iðnaðarborg. Kvikmyndaskólinn þar ku hins vegar njóta mikillar virðingar.

Fór út einmitt þegar frægðarsól Kieslowskis reis hæst

Aðspurður viðurkennir Árni að það hafi vissulega haft áhrif á sig, þegar hann valdi um hvort hann sækti um inngöngu í kvikmyndaháskólana í Lódz, Búdapest, Prag eða Moskvu að pólski kvikmyndagerðarmaðurinn Krystof Kieslowski hafði þá einmitt nýlega slegið í gegn með mynd sína “Tvöfalt líf Veroniku”. Í kjölfarið kom litatrílógía Kieslowskis. “Mig minnir að fyrsta myndin, “Blár” hafi einmitt komið út árið sem ég fór út. Auðvitað hafði þetta áhrif á mig, Kieslowski var eina stjarnan frá Austur- Evrópu.”

Um þær mundir sem Árni hóf nám í Lódz var í bígerð að Kieslowski hæfi þar kennslu og Árna hefði því gefist tæki- færi til læra undir hans stjórn hefði Kieslowski ekki skyndilega fallið frá. “Því miður rétt missti ég af tækifærinu til að stunda nám undir hans stjórn,” segir Árni.

Eftir að hafa fengið inngöngu í skólann þurfti Árni að eyða einu skólaári í tungumálanám en að því loknu tók við hið eiginlega kvikmyndagerðarnám. Strax í upphafi hafði hann valið sér að nema leikstjórn, en reglur skólans geri einmitt kröfu til þess að menn velji snemma hvaða hlið kvikmyndagerðarinnar þeir hyggjast leggja fyrir sig, kvikmyndatöku, leikstjórn, framleiðslu eða handritagerð.

Árni segir það einn stærsta kost skólans í Lódz að menn fái raunverulega að prófa sig áfram. Gerð sé krafa um að menn geri tvær myndir strax á fyrsta ári, eina leikna mynd á vídeó og eina heimildarmynd á filmu. Á öðru ári geri menn aftur tvær myndir en nú sé heim- ildamyndin gerð á vídeó og leikna myndin á filmu. Á þriðja ári sé mönnum hins vegar gefnar frjálsar hendur. “Fyrstu tvö árin eru rosalega stíf. Sífelldur lærdómur alveg frá morgni til kvölds, ég held ég hafi verið í fjórtan fögum og það var allt frá kvikmyndasögu til kvikmyndakenninga, handritagerð, kvikmyndatöku, vinnu með leikurum og svo framvegis.”

Á þriðja ári geti menn hins vegar valið, gert aftur eina heimildarmynd og eina leikna eða þá tekið einhvern annan kost. “Og það sem ég ákvað að gera var að taka allt “budgetið” sem ég fæ frá skólanum á tveimur skólaárum, og setja það saman í eitt. Það verður lokaverkefnið mitt.”

Árni segir allt tilbúið fyrir gerð loka- verkefnisins og að hann muni hefjast handa við kvikmyndatökur er hann heldur aftur út til Póllands í september. “Ég er búinn að skrifa handritið. Það er búið að redda leikurum og gera alla undirbúningsvinnu.” Myndin verður stuttmynd upp á um tuttugu mínútur, hefðbundin ástarsaga, “söguþráður úr brasilískri sápuóperu,” segir Árni. “Ég er svo sentimental, maður!”

Pólsk kvikmyndagerð á villigötum

Þeir Roman Polanski, Kieslowski og Andrejz Wadja er sjálfsagt þekktastir allra pólskra kvikmyndagerðarmanna en Árni segir litla grósku vera í kvikmyndagerðinni þar í landi um þessar mundir. Hann segir að á tímum kommúnista í Póllandi hafi sennilega verið frábært að stunda þar kvikmyndagerð. Landið hafi verið tiltölulega frjálst og opið, miðað við önnur austantjaldsríki, og kvikmyndagerðarmenn hafi nokkurn veginn fengið að gera það sem þeir vildu. Og ríkið hafi styrkt listir svo um munaði.

Annað sé uppi á teningnum núna, gróðasjónarmið ráði öllu og því séu að- eins gerðar kvikmyndir fyrir tiltekna markhópa, myndir sem vitað er að skili gróða. Sköpunargleðinni sé í hóf stillt vegna þessa. “Á tímum kommúnistanna þurftu kvikmyndagerðarmenn ekkert að gera myndir sem skiluðu hagnaði, þeir gerðu bara það sem þeir vildu. Með falli kommúnismans hrundi þetta allt. Allir opinberir sjóðir voru fyrir bí og menn þurftu að fara taka þetta öðrum tökum.”

Að mati Árna snýst því pólsk kvikmyndagerð um það nú um stundir að búa til grín- eða hasarmyndir í anda bandarískrar kvikmyndagerðar, allt í einu eigi Pólverjar sér sinn “pólska Bruce Willis”. “Það eru einhverjir tveir eða þrír ungir kvikmyndagerðarmenn sem eru að reyna að gera eitthvað öðruvísi. En þeir fá bara engan séns.” Ekki bætir úr skák, að sögn Árna, að klíkuskapur við úthlutun þess fjármagns sem þó er veitt til kvikmyndagerðar er allsráðandi. Hann kveðst þó vona að pólsk kvikmyndagerð taki við sér, menn séu um þessar mundir kannski örlítið villtir, viti ekki alveg hver viðfangsefni pólskra bíómynda eigi að vera, hvað felist eiginlega í hugtakinu “pólskar bíómyndir”; en ekki sé útilokað að þessi leit skili árangri og að mönnum takist að sameina gróðaþörfina og listrænan metnað.

Hyggst reyna fyrir sér í Kaupmannahöfn

Árni hefur á sumrin starfað við ýmis verkefni hér heima, m.a. við gerð sjónvarpsþáttanna Sporðaköst. “Ég hef yfirleitt bara verið á launaskrá hjá vinum mínum, sem er alveg ágætt,” segir hann. í sumar var hann aðstoðarleikstjóri við gerð myndarinnar “Íslenski draumur- inn”, sem tekin var í júlí og ágúst en Róbert Douglas leikstjóri leitaðist þar við að vinna mynd í fullri lengd upp úr stuttmynd sem hann hefur áður hlotið verðlaun fyrir á stuttmyndahátíðum hér heima. Júlíus Kemp framleiðir en myndin er að fullu fjármögnuð af einkaaðilum.

Hvað tekur við að náminu loknu kveðst Árni hins vegar ekki getað sagt til um. “Ég hef verið að borga talsvert há skólagjöld og ég þarf því auðvitað að borga skuldir og svona. Maður verður því bara að finna sér einhverja vinnu.” Hann kveðst hafa uppi áform um að halda til Kaupmannahafnar í þessu skyni.

“Ég nenni ekki að vera í Póllandi, þótt ég vilji kannski hafa þar annan fótinn af því ég er nú búinn að vera þar í fimm ári og á mína vini og svo framvegis. Mig langar svolítið heim en ég er voða smeykur að hér bíði mín ekki mikil tækifæri. Kaupmannahöfn er þá kannski svona málamiðlun að svo stöddu. Kannski tekst mér þar að borga einhverja reikninga og lifa af kvikmyndagerð. Svo getur maður verið að skrifa einhver draumaverkefni í frístundum.”

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR