spot_img

Marta Luiza Macuga: Ljúfsárt að sjá WOLKA loksins á hvíta tjaldinu

Pólsk-íslenska kvikmyndin Wolka eftir Árna Ólaf Ásgeirsson heitinn kemur í bíó 15. október. Menningin á RÚV ræddi við Mörtu Luizu Macuga leikmyndahönnuð myndarinnar og eiginkonu Árna og leikkonuna Olga Bołądź sem fer með aðalhlutverkið.

Á vef RÚV segir:

Wolka fjallar um Önnu, 32 ára pólska konu sem er nýlaus úr fangelsi eftir fimmtán ára afplánun fyrir morð. Hún fórnar hins vegar öllu með því að rjúfa skilorð og ferðast til Íslands og leita þar konu fyrir óuppgerðar sakir.

Myndin er á pólsku en var mestmegnis tekin á Íslandi og skartar einni stærstu kvikmyndastjörnu Póllands í aðalhlutverki. Árni Ólafur rétt náði að ljúka við myndina áður en hann lést í vor.

Myndin hafði verið lengi í vinnslu og var sannkallað ástríðuverkefni fyrir Árna Ólaf, sem bjó áður í Póllandi ásamt eiginkonu sinni, Mörtu Luizu Macuga, leikmyndahönnuði.

„Árni hugsaði lengi um þetta verkefni. Þegar hann kom frá Póllandi langaði hann að gera kvikmynd um pólska samfélagið á Íslandi. Fyrir tilviljun komst hann að því að handritshöfundurinn sem hafði verið mælt með við hann í Póllandi var á Íslandi. Þeir hittust og fóru að skrifa handritið. Pólskur framleiðandi kom til sögunnar en svo bættist Hilmar Sigurðsson við sem fór með myndina til Saga Film. Þetta tók níu ár, frá því þeir hittust og þar til myndin var frumsýnd á RIFF í síðustu viku.“

Olga Bołądź mer með aðalhlutverkið í Wolka | Mynd: Sagafilm.

Með hlutverk Önnu fer Olga Bołądź ein skærasta kvikmyndastjarna Póllands nú um mundir.

„Ég hitti Árna Óla í Póllandi. Hann hringdi og spurði hvort ég vildi leika Önnu. Ég las handritið og féll fyrir því, þetta var svo fallegt hlutverk sem bauð upp á marga möguleika. Ég sagði já og takk fyrir mig. Hann var einn magnaðasti leikstjóri sem ég hef unnið með.“

Myndin var mestmegnis tekin í Vestmannaeyjum í fyrravetur, sem Olga segir að hafi tekið á.

„Það var erfitt út af veðrinu, það var ískalt. En Ísland er svo fallegt land og fólkið almennilegt, og sýndi mér vinsemd, sérstaklega Pólverjarnir því hvert sem ég fór hitti ég Pólverja. Þeir voru mjög hreyknir af því að gerð hafi verið kvikmynd um Pólverja sem búa á Íslandi. Ég vona að myndin verði þeim að skapi.“

Árni Ólafur Ásgeirsson | Mynd úr þáttaröðinni Ísland: bíóland.

Wolka er fjórða bíómynd Árna Ólafs í fullri lengd en áður hafði hann gert Blóðbönd, Brim og Lói: Þú flýgur aldrei einn. Í febrúar kom hins vegar reiðarslagið. Árni greindist með krabbamein og lést aðeins tæplega þremur mánuðum síðar, 49 ára aldri. Honum auðnaðist þó að ljúka við myndina af sjúkrabeði og sjá hana fullkláraða.

Myndin var opnunarmynd íslenskra bíódaga á RIFF-kvikmyndahátíðinni í síðustu viku, auk þess sem sérstök hátíðarsýning var haldin í Vestmannaeyjum

„Það var vissulega tilfinningaþrungið fyrir okkur mæðginin,“ segir Marta. „Það var stórskrýtið að vera þarna án Árna. Ég held ég fari aldrei aftur til Vestmannaeyja. Hvert sem ég fór fannst mér að Árni ætti að vera með okkur. Það var auðveldara hér í Reykjavík, teymið var með mér svo það var bærilegra. Ég gat notið þess betur og fagnað að myndin væri komin út. Hún er fullgerð og fólk kann að meta hana.“

Olga segir enn erfitt að trúa að Árni sé farinn.

„Að við hittumst ekki yfir bjór í Varsjá og spjöllum ekki um bíómyndir og framtíðarverkefni. En við getum haldið minningu hans á lofti, reynt að vera góðar manneskjur og minnast hans.“

Þótt myndin fjalli um pólska samfélagið á Íslandi, segir Marta hana alls ekki bara fyrir Pólverja.

„Nei, ég held að hún sé fyrir báðar þjóðir. Sagan fjallar vissulega um pólska samfélagið hér en sýnir það í nýju ljósi. Árni vildi sýna að Pólverjar eru ekki bara vinnuafl heldur fólk með tilfinningar, sem hlær og grætur. Við erum venjulegt fólk eins og aðrar þjóðir. Myndin er að hluta til ráðgáta og ævintýri en þetta er líka fjölskyldudrama. Ég held að allir geti tengt við dramatík í fjölskyldum.“

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR