Þegar Þorsteinn Jónsson lýsti yfir dauða íslensku heimildamyndarinnar

1996 skrifaði Þorsteinn Jónsson leikstjóri grein í Land & syni, málgagn kvikmyndagerðarmanna, þar sem hann fjallaði um það algera skilningsleysi sem honum fannst ríkja á Íslandi gagnvart fyrirbærinu heimildamynd.

Óhætt er að segja að þetta sé eldmessa hjá Þorsteini. Hann hafði lokið námi í gerð heimildamynda á fyrrihluta áttunda áratugsins, komið síðan heim og tekið góðan sprett í gerð slíkra mynda á næstu árum á eftir. Sumar þeirra, til dæmis Fiskur undir steini (1974) urðu gríðarlega umdeildar. Þegar þarna var komið sögu var hann í öðru, bíómyndum, leiknum sjónvarpsmyndum og þá hafði hann einnig verið framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs á árunum 1990-1992.

Víst er að ástandið var ekki gott á tíunda áratuginum. Hjá Kvikmyndasjóði ríkti afar takmarkaður skilningur og áhugi á heimildamyndum af því tagi sem Þorsteinn lýsir í grein sinni. Eitt árið á þessum tíma ákvað úthlutunarnefnd að fella niður alla styrki til heimildamynda. Hjá Sjónvarpinu ríkti samskonar skilningsleysi um fyrirbærið.

Þorsteinn tók aftur upp þráðinn í gerð heimildamynda um aldamótin. Alls eru heimildamyndir Þorsteins 23 talsins á tímabilinu 1967-2013. Fáir Íslendingar, ef nokkrir, hafa gert jafn margar heimildamyndir og hann.

Greinin skiptist í tvo hluta. Annarsvegar greinir hann fyrirbærið heimildamynd (í því er undirliggjandi sú skoðun hans að þetta sé flestum sem telji sig stunda gerð heimildamynda alls ókunnugt). Hinsvegar er umfjöllun um stöðu íslenskra heimildamynda eins og hún blasir við Þorsteini á þessum tíma.

Greinin birtist í 4. tölublaði Lands & sona 1996. Þorsteinn var á þessum tíma einn meðlima ritnefndar blaðsins. Ég var ritstjóri og Böðvar Bjarki Pétursson, þá formaður Félags kvikmyndagerðarmanna, var útgefandi. Í leiðara þessa heftis, sem aðallega snýst um vonda stöðu leikinna kvikmynda og ríkjandi skilningsleysi á mikilvægi handritaskrifa, segi ég í lokin:

Samkomulag um fúsk? Þorsteinn Jónsson kvikmyndagerðarmaður skrifar einnig afar athyglisverða grein í blaðið að þessu sinni þar sem hann fjallar um fyrirbærið heimildamyndir og stöðu þeirra hér á landi. Við mælum eindregið með því að lesendur blaðsins staldri við og hugleiði orð Þorsteins. Vegna sinnuleysis og einhverskonar almenns samkomulags um fúsk, þekkist þessi mikilvægi hluti kvikmynda vart í þeirri afskræmdu mynd sem hann birtist okkur nú um stundir. Hvað veldur?

Spurningin er hvort þetta hafi eitthvað breyst á 27 árum. Ég læt lesendum eftir að meta það.

Ásgrímur Sverrisson


Heimildamyndin óspjölluð

Eftir Þorstein Jónsson

Inngangur

Glötuð draumsýn

Ég hef lengi átt mér draum um sérstaka tegund kvikmynda, sem sjaldan bregður fyrir í dagskrá sjónvarpsrása og aldrei í sýningarsölum bíóhúsa. Þessar kvikmyndir voru einu sinni kallaðar heimildamyndir. Þær tengdust hugmyndinni um að uppgötva bæði hinn stóra heim og umhverfið næst sér, skilja og skilgreina. Nú getur maður varla látið slíkt orð eins og heimildamynd út úr sér. Gamla draumsýnin mín er brak úr gömlu fleyi á sjávarströnd, sem hefur skolað á land ásamt gömlu rusli. Að tala um heimildamyndina í dag hljómar eins og fara að syrgja gamlan tíæring, sem aldrei fer aftur á sjó, en væri kannski hægt að klastra saman og setja á safn. Og að kenna einhverjum um er eins og að kenna veðurstofunni um veðrið.

Samt sakna ég heimildamyndarinnar eins og hún átti að verða. Og enn finnst mér að heimildamyndin sé einmitt það sem vantar í nútímanum. Í skjóli sjónvarps hefur ýmislegt orðið til sem minnir á heimildamyndina, en hin hreina og óspillta heimildamynd (ef svo mætti að orði komast) hefur í raun og veru ekki fengið tækifæri enn. Þá er ég að tala um heimildamyndina, sem lifir sjálfstæðu lífi eftir að atburðirnir eru liðnir, eftir að tískan er breytt, eftir að hagsmunirnir eru gleymdir. Þrátt fyrir öll afkvæmin, fréttamyndir, ferðamyndir, viðtalsþætti, náttúrulífsmyndir, stjörnuportret og sölumyndir, getur hún varla talist hafa fengið að þroskast sjálf.

Hvað er heimildamynd?

Sýna hvernig aðrir lifa

Fyrst eftir að leiðir skildu með leiknu myndinni og heimildamyndinni mátti líta á hlutverk heimildamyndarinnar, að sýna fólki á einum stað, hvemig fólk á öðrum stað lifði. Leikna myndin tók við skemmtihlutverkinu en heimildamyndin fræðslunni.

Ólíkar tegundir heimildamynda

Leikna myndin skiptist svo upp í flokka, sorgarmyndir, gamanmyndir, spennumyndir o.s.frv., og festist í ákveðinni lengd og byggingu. Heimildamyndin greindist aftur á móti í allar mögulegar áttir og form. (Stöðlun á lengd kemur reyndar upp seinna en aðeins vegna tilbúinna þarfa siónvarpsdagskrárinnar).

Raunsæi

Aðferð heimildamyndarinnar er að forðast tilbúnar sögur og sviðsetningu. Efnistökin eru engum takmörkum háð meðan notað er efni úr raunveruleikanum. Menn sem létu tökuvélina ganga í þrjár mínútur án þess að líta í gluggann, framkölluðu og steiktu filmuna í bakaraofni í tuttugu mínútur, gátu með nokkrum rétti kallað sig höfunda heimildamyndar. Á hinum endanum voru menn að “endurskapa“ sögulega aburði með aðferðum leiknu myndarinnar og kölluðu afkvæmið leikna heimildamynd. Aðferðir heimildamyndarinnar eru þó alltaf með einhverjum hætti tengdar við raunsæi. Þegar menn hafa viljað gefa leiknu myndunum sínum meiri trúverðugleika hafa þeir farið út úr stúdíóinu og tekið myndir af fólki við dagleg störf eins og í heimildamynd. Ágætt dæmi Jörðin skelfur (La terra trema) eftir Vittorio de Sica.

Innbyggður trúverðugleiki

Meðan leikna myndin hefur verið gagnrýnd fyrir fals, hefur heimildamyndin haft yfir sér óspjallaðan svip sannleiksgyðjunnar. Til hennar hafa menn leitað í uppreisn gegn lygavef leiknu myndanna til að nálgast sannleikann. Sannleikurinn er hins vegar sá, að einmitt þetta flekkleysi heimildamyndarinnar, hefur miskunnarlaust verið notað til að lagfæra raunveruleikann í áróðursskyni. Í seinni heimstyrjöldinni voru heimildamyndir stórkostleg pótemkintjöld. Leikna myndin var gagnslaus í því stríði.

Heimildamyndin og sannleikurinn

Mynd segir meira ein þúsund orð. Myndin lýgur ekki. Hversu oft heyrast ekki þessir frasar? Og þar komum við að því skrýtna. Heimildamyndin lýgur meira en nokkur önnur tegund kvikmynda. Leiknu myndirnar eru lygi sem verður sannleikur. Heimildamyndir eru sannleikur, sem verður lygi. Þó þær séu búnar til úr sannleikskornum. Ekkert form gefur eins mikil færi á því að beita hálfsannleik og skrumskæla sannleikann.

Akkilesarhæll heimildamyndarinnar

Vandamál heimildamyndarinnar er að hún virðist vera sönn. Ég gerði einu sinni heimildamynd ásamt Ólafi Hauki Símonarsyni, sem hét “Fiskur undir steini.” Allt ætlaði vitlaust að verða við sýningu myndarinnar, og margir tóku efni hennar nærri sér. Það fréttist af manni suður með sjó, sem var laminn í klessu vegna þess að hann líktist öðrum höfunda. Þessi mynd sýndi dæmigert sjávarpláss á íslandi og varpaði fram spurningum um það hvemig hlúð væri að menningarlífinu (í víðum skilningi) á staðnum. Við gerðum fjórar eða fimm myndir af þessu tagi og í hvert skipti var umræðuþáttur á eftir þar sem mætir menn út- skýrðu fyrir fólki að myndin segði ekki allan sannleikann (frá sjónarmiði stöðvarinnar (RÚV)). Endirinn varð sá, að þessi starfsemi var stöðvuð. Sannleiksgildið er akkilesarhæll heimildamyndarinnar.

Sjónvarpið hafði breytt merkingu orðsins

Annað var athyglisvert við umræðuna um Fisk undir steini. Að fram kom óvenjuleg skoðun gerði hana að minni heimildamynd í augum einhverra. Sjónvarpið var búið að helga sér orðið, sem átti við um fréttamynd, sem sýndi almennt viðurkenndan “sannleika.” Annað sem einhverjum fannst gera hana að minni heimildamynd var, að hún sýndi ekki gamalt efni. Að heimildamynd sýni eitthvað gamalt efni er ríkjandi hugsunarháttur, líklega vegna nafnsins. Sú hugmynd styrkist ennfremur með því, að í sjónvarpinu er “núið”, en heimildamyndirnar, sem hafa verið teknar á löngum tíma og unnar á löngum tíma, eru “gamlar.”

Sjónvarpið tekur við hlutverki heimildamyndarinnar

Áður var heimildamyndin sýnd í bíói eða í sýningarsölum, þar sem fólk naut fróðleiks um það hvernig aðrir lifðu. Sjónvarpið tók við þessu hlutverki, þ.e.a.s. að líta út um gluggann. Og þegar maður lítur út um glugga, vill maður ekki endilega sjá matreiddan þátt um það sem ber fyrir augu. Maður vill fá að sjá það sem er fyrir utan núna og sjá það eins og það er. Aðferð heimildamyndarinnar er að fara út um allt og setja saman verk um veruleikann. Barn sleppur út um hlið á garðinum. Kemst það út á götu? Móðirin leitar á vitlausum stað. Drukkinn ökumaður beygir inn götuna. Spennandi sýn með skoðun, sögu og jafnvel pólitík. En sjónvarpið er meira gefið fyrir að stinga tökuvél út um gluggann og sjá “það sem ber fyrir augu.” Matreiðslan á ekki eins vel við sjónvarpið. Bæði tekur hún tíma og er eldfimari. Sannleiksgildið kemur til umræðu. Fælni sjónvarpsins við heimildamyndina er þannig séð ótti við sannleikann – eða ótti við að beita sannleiksvopninu.

Heimildamyndin: útigangsmaður eða niðursetningur?

Þó sjónvarpið hafi orðið eina heimili heimildamyndarinnar er hún enginn aufúsugestur þar. Að sýna heimildamynd með skoðun og lífssýn kallar á deilur. Var þetta rétt túlkun á veruleikanum? Sjónvarpið hefur tilhneigingu til að víkja sér undan slíkum deilum og losna við að túlka of mikið eða skilgreina. En á meðan heimildamyndin hefur ekki eignast annan farveg hefur hún verið útigangsmaður eða í besta falli eins konar niðursetningur hjá sjónvarpinu.

Áhugavekjandi efni

Frumskilyrði í öllu heimildaefni er að verkið veki áhuga þeirra sem hvorki hafa áhuga á miðlinum né efninu. Ef það tekst ekki er enginn tilgangur með því að gefa það út. Það þarf að vera skiljanlegt og aðgengilegt fyrir aðra en innvígða.

Bygging sem leiðir til einingar og heildar

Blaðagrein þarf að vera heild með upphafi og endi. Og hún þarf að hafa einhverskonar byggingu. Efniviðurinn getur verið skrifaður texti, tilvitnanir, dæmi, sögur, brandarar, skýringar, forsendur o.s.frv. Nákvæmlega sama krafa er gerð til heimildamyndarinnar. Hún er að því leiti skyld grein eða ritgerð í bókmenntum.

Persóna í baráttu

Það sem vekur áhuga lesandans eða áhorfandans er það mannlega. Að sjá einhverja persónu, sem á við vanda að etja – að sjá persónuna leysa vandann eða mistakast. Það er svo einfalt. Það verður að vera aðalpersóna og lesandinn (eða áhorfandinn) gerir hennar til- finningar að sínum á meðan hann kannast við aðstæður hennar og/eða tilfinningar. Til þess að myndin veki tilfinningar, þarf að vera fyrir hendi barátta. Án baráttu engin spenna. Án hennar er myndin eins og bíll án mótors. Aðalpersóna heimildamyndar getur verið maður eða dýr, hópur eða jafnvel þjóð. En það er einhver mannleg tilfinningavera, sem áhorfandinn getur líkað við eða hatað. Í Borgarsymfóníu Ruttmans reynir hann að gera Berlín að aðalpersónu. Það er ekki hægt. Að minnsta kosti hafa slíkar myndir ekki þann slagkraft, sem kvikmyndin getur haft, ásamt systrum hennar bókmenntum og leiklist. Kjarninn er sá, að þar sem ekki er hægt að ná persónulegum vinkil vantar sjónhomið fyrir áhorfandann.

Heimildamyndir eru ekki um staði. Þær eru um fólk. Hugsanlegt er að mynd um fólk á ákveðnum stað lýsi umhverfinu svo skemmtilega að hún geti talist fjalla um staðinn. En staðurinn er eftir sem áður fyrst og fremst umhverfi. Mikið af myndum, sem sagt er um að fjalli um staði, eru ekkert annað en safn sýnishorna af mismunandi umhverfi. Þar væri kannski einmitt hægt væri að gera heimildamyndir um fólk. Sama er að segja um ýmis fyrirbæri. Heimildamynd er ekki um íþróttir eða menntun, svo dæmi sé tekið. Slíkum myndum hættir til að vera samsafn af umhverfi og breytir þá engu þó persóna þular birtist öðru hvoru í mynd.

Heimildamyndin hefur skoðun

Heimildamynd er gerð í einhverjum ákveðnum tilgangi. Hún rökstyður fullyrðingu (skoðun, boðskap) sem höfundur vill skilja eftir í huga áhorfanda. í mörgum sjónvarpsþáttum er látið í það skína að þátturinn hafi ekki boðskap. En ef efnið virkar með einhverjum hætti á áhorfanda kemur fram skoðun. Og það er betra að hún sé meðvituð. Ef svo er ekki, virkar myndin eins og mistök. Að ímynda sér, að um enga skoðun geti verið að ræða er eins og að halda því fram að almannarómur sé sama og skoðanaleysi. Samsetningurinn “Þjóð í hlekkjum hugarfarsins” nálgast það að teljast heimildamynd hvað þetta varðar.

Persónuleg sýn

Heimildamyndin er persónuleg sýn höfundar. Hún er list og hefur persónuleika höfundar í sér. Hún þekkist af handbragði höfundarins. sem getur komið fram á svo ótal vegu, í kvikmyndatökunni, klippingunni, frásögninni os.frv. Ferðaþættir Ómars Ragnarssonar um ótrúlega óskyld og margvísleg málefni í sömu andránni nálgast sýn heimildamyndar vegna þess að persóna hans er svo mikilvægur hluti. Hann kannar lítt troðnar slóðir og setur fólk og aðstæður í mjög svo persónulegt samhengi.

Niðurstaða

Heimildamynd uppfyllir eftirfarandi skilyrði: Hún notar aðallega efni úr raunveruleikanum. Hún hefur ákveðna byggingu og höfundareinkenni. Hún segir frá baráttu persónu og rökstyður skoðun.

Heimildamyndin á Íslandi í dag

Elítan

Það hringdi í mig maður. Hann vildi fá að vita hvað kostaði að gera heimildamynd – það er að segja takan og klippingin. Ég skyldi ekki hafa áhyggjur af efninu, því hann væri með “elítuna”. Ég skildi hann ekki fyrst. En svo rann upp fyrir mér ljós. Hann hafði fylgst mjög vel með sjónvarpi og séð hvernig á að gera heimildamynd. Málið var að taka viðtöl við nokkra einstaklinga, sem málið varðaði, og stinga inn í það myndum af götuhornum, sem auðvitað þurfti ekkert að taka sérstaklega fyrir þessa mynd. Þau voru til. Málið var að filma viðtölin og henda þessu saman. Hann var með elítuna, hópinn, sem málið varðaði. Þar með var handritið og allt saman komið.

Fréttir versus heimildamyndir

Fréttir eru skemmtiefni kvöldverðarborðsins á heimilunum. Engin önnur skýring getur verið á því, að tvær sjónvarpsstöðvar í harðri samkeppni skuli sýna sömu erlendu fréttir með hálftíma millibili. CNN sýnir nýjar fréttir allan daginn alla daga. Áhorfandandum finnst hann vera á staðnum. Hann þarf ekki að láta segja sér neitt meira um raunveruleikann. Fréttirnar hafa þannig slökkt þorstann í heimildamyndir.

Hraðsuða sjónvarps

Meirihlutinn af efninu, sem sjónvarpið sýnir og tengist veruleikanum eru afsprengi heimildamyndarinnar, þó sjónvarpið velji því oft annað nafn. Í vetrardagskrá RÚV var þátturinn Dagsljós fullur af efni af þessu tagi. Sumt var heimildamyndir, eða að minnsta kosti efni í heimildamyndir. Efnið var sent út frá draumkenndu stúdíósviði, þar sem huggulegir gest- gjafar fylgdu því úr hlaði. Þannig var það sett í rétt samhengi, afsakað eða lyft á stall eftir atvikum. Hvern einstakan kafla þurfti því ekki að fullvinna. Líkt og honum væri ekki treystandi til að standa sjálfstætt. Innanum voru þó ágætar myndir.

Byrjun sjónvarps

Þegar RÚV hóf starfsemi 1966 var ekkert reynt að nýta þá reynslu sem komin var í landinu af gerð heimildamynda. Ráðnir voru blaðamenn til dagskrárgerðar og aðallega sím- og rafeindavirkjar til vinnu við upptöku. Þar er kannski skýringin á orðinu tæknimenn um aðra aðra en stjórnendur. Kvikmyndagerðarmenn komu lítið eða ekkert nærri fyrstu skrefum sjónvarps hér á landi. Sjónvarpið varð reyndar ágætur sandkassi og skóli, þar sem menn lærðu fyrstu handtökin við töku og klippingu. En stjórn dagskrárefnis (þar með talinna heimildamynda) var í höndum blaðamanna.

Í upphafi var notuð filma og sem betur fer var upptakan og klippingin í filmuvinnu tiltölulega einföld rútína. Málið var að snúa linsunni í rétta átt og kveikja og slökkva. Og klipping var að klippa í sundur og tengja saman. Það var svo augljóst að stjórnandinn varð að hugsa. T.d. ákveða fyrirfram af hverju myndin átti að vera og hvernig hægt væri að setja myndskeiðin saman. Með þeirri tækni hefði þetta líklega endað með því að blaðamönnunum og “tæknimönnunum” tækist að sjóða saman boðlegar myndir. Reyndar varð svolítil afturför, þegar notkun á hljóðlausum tökuvélum og samfelldri hljóðupptöku varð almenn. Þá hófst mikið blómaskeið viðtala með tilheyrandi fátækt myndar og hljóðs.

Vídeó

Önnur og verri sorgarsagan hefst með myndbandinu. En með því kom upp sú hugmynd, að hver sem er gæti notað þessa nýju tækni með frábærum árangri. Tökuvélin gerði allt sjálf og því gat hver sem er tekið myndina. Hljóðið fylgdi með svo hljóðmaður var ónauðsynlegur, hvað þá hljóðhugsun. Í myndverinu var svo hægt að fikta í ótal tökkum og breyta upphaflegu myndinni í hvaða afskræmingu sem var og í stað þess að klippa. Allt var hægt að laga í vinnslunni.

Takkamenn og hrærimeistarar

Stór hluti af framleiðslu sjónvarpstöðvanna á undanförnum árum hefur því miður verið í skugga þessarar dýrkunar á fúski. Áhugamönnum hefur verið boðið að gera heimildamyndir án þess að kunna það. Úrvinnslan verður eins konar leikur með öllum hugsanIegum effektum og takkafylliríi og á að koma í staðinn fyrir undirbúning og raunverulega myndsköpun. Þannig hefur maður kannski fengið heilu dagskrárliðina í formi effektasafns.

Kvikmyndatakan

Listgreinin kvikmyndataka breytist ekki þó linsurnar séu breiðari. Með víðri mynd sem bjagar og gerir viðfangsefnið yfirþyrmandi koma ekki meiri áhrif. Það verður afkáralegt og missir marks strax í annað skipti. Því meiri tilfæringar tökumannsins, því minni hæfileikar og því minni tilfinning fyrir efninu. Síðasta uppfinningin í RÚV er t.d. að halla vélinni, sem er gott og gilt í einstaka tilvikum, en gerir áhorfandann bara taugaveiklaðan, þegar það gengur yfir heilu dagskrárnar allan veturinn. Þegar menn eru hallir undir tískur í myndatöku bendir það til vantrúar á viðfangsefninu. Og það er kannski einmitt einn af verstu ókostunum við framleiðslu heimildaefnis í sjónvarpsstöð, að ekkert er talið nógu merkilegt til að mynda það, nema stjörnur – hvort sem það eru stjörnur heimsfréttanna eða heimatilbúnar.

Klipping

Klipping er eftir sem áður listin að tengja saman og búa til nýja merkingu eins og Eisenstein skrifaði um forðum. Skapa rytma og rennsli. Skapa uppteknu efni besta umgerð. Maður lagar ekki vonda klippingu með blöndun eða effektum. Hún er jafnvond, þó reynt sé að fela hana. Getuleysið verður bara meira áberandi.

Vald hins skrifaða orðs

Hin hliðin á heimildamyndagerð í dag er arfur lélegrar blaðamennsku. Myndirnar þekkjast oft af textanum: “Sagt hefur verið…”, “oft er talað um að…”, “margir segja að oft hafi verið…“ Blaðamaðurinn reynir að endursegja almannaróm og klippir tilviljanakennt myndefni (götuhorn) inn í prenttextann. Hending ræður hvort mynd fylgir texta og áhrifin geta orðið kjánaleg – t.d. verið að tala um forsetann og mynd af hundi.

Fjölmiðlun

Orðið “fjöl“miðlun hefur haft sín áhrif á heimildamyndina. Starfsmaður í fjölmiðlun þarf að vita lítið um margt. Vera heima á öllum sviðum. Ráða við marga miðla. Hann á að vera jafnvígur á penna og myndavél. Tækjaframleiðendur gera sitt til að sannfæra fólk um að myndavélin sé ekki erfiðari en penni. Auðvitað er hún það ekki. En það er ekki nóg að kunna á takkana. Að kunna á lyklaborðið er ekki nóg til að geta skrifað. Fjölmiðlaheimurinn fæst við fólk sem er í sviðsljósinu. Flest af þessu fólki hefur lagt mikið á sig til að ná fullkomnun í sínu fagi. Fjölmiðlaheimurinn er fullur af fólki, sem hefur það helst til að bera að vera einhverskonar hitamælar á frægð og persónuleika annarra. En gleymir að fullkomna sig í sínu eigin fagi. Þegar talað er um heimildamynd, dettur þessu fólki helst í hug að láta tökulið elta fræga stjörnu.

Born twice

Ég hafði verið að bíða eftir einhverju bitastæðu heimildaefni í dagskrá sjónvarps um nokkurt skeið, þegar þáttur í þáttaröðinni Horizon var sýndur í RÚV, “Born Twice”. Tvær mæður sögðu frá reynslu sinni af fósturaðgerð, þar sem annað fóstrið lifði, hitt dó. Læknar af ýmsu tagi, t.d. úr rannsóknum, stofnunum og lýtalækningum, komu fram með sín viðhorf, Og það var meira að segja dregin fram kvenmaður sem óttaðist að konan yrði óþörf. Dæmigert efni sem venjuleg sjónvarpsstöð hefði gert að flatneskju. Í þessum þætti var aðferðum heimildamyndarinnar beitt á einkar fagmannlegan hátt. Þátturinn var samsettur úr nokkrum heimildamyndabútum, hver með sinni aðalpersónu. Hver persóna var fulltrúi fyrir sitt sjónarmið og um leið þjónaði hver persóna sem kafli í þessum samsetta þætti.

Þarna var heimildaþátturinn orðinn að sérstakri listgrein, því hver myndþáttur var í sterku sambandi (kontrapunkti) við hina þættina. Viðtölin voru hluti af ævisögu hverrar persónu, full af tilflnningu og upplýsingum. Þau spegluðu viðhorf þeirra, vanda og markmið um leið og þau komu áleiðis nauðsynlegum staðreyndum. Með þessum myndbrotum (heimildamyndum) var dregin upp ný sýn af heiminum, sem er framundan, þar sem togast á grundvallarspurningar í vísindasiðfræði. Hvað gerist þegar hægt verður að framleiða menn eins og hverja aðra vöru? Þessi mynd yrði seint boðin fram á kvikmyndahátíðum sem framúrskarandi heimildamynd eða hornsteinn í þróun kvikmyndalistar, en hún er glæsilegt dæmi um það, hvað hægt er að gera, þegar vönduð blaðamennska sjónvarps mætir frásagnarlist heimildamyndagerðarmanna (hvílíkt orð).

Framboð sjónvarpsstöðvanna

Meirihlutinn af íslensku efni sjónvarpsstöðvanna er tekið upp í raunveruleikanum og er því skylt heimildamyndinni. Sama er að segja um margt af því efni sem sjónvarpsstöðvarnar “kaupa“ og sýna í áróðursskyni fyrir félög og stofnanir. En gæðin á þessu efni eru svo fátækleg að maður veigrar sér við að nota orðið heimildamynd um afurðina.

Íhaldssemi eða hrærigrautur

Nú eru nýjir tímar sem kalla á nýjar aðferðir. En aðferðir sem byggja ekki á því besta úr fortíðinni eru til lítils. Þegar ég var að byrja fannst manni eldri kynslóðin þjást af íhaldssemi. Það mátti ekki klippa á hreyfingu. Það mátti ekki blanda saman ólíku efni. Heildarstíll og snurðulaust rennsli var aðalatriði. Nú er í tísku að klippa hvar sem mönnum dettur í hug. Blanda öllu saman í einn hrærigraut. Þessi ruglingur á lítið skylt við kvikmyndalist. Þá er list að setja allt sem maður finnur í einn pott og hræra í. Nú heita heimildamyndir gjarnan ekki því nafni, heldur þættir, dagskrár, samantektir, efni, dagskrárliðir. Þannig má líka komast hjá því að áhorfendur geri kröfur. Þetta er bara efni.

Heimildamyndin sem fulltrúi vandvirkni

Stemningin nú er yfirborðinu í hag. Það er ekki fínt að kafa ofan í hlutina, rannsaka, mynda sér rökstudda skoðun, skapa rétta stemningu, heild, samræmi. Síðustu árin hefur þótt meira varið í að vera kaldur, harður, ófyrirleitinn, fleyta kerlingar á yfirborðinu, daðra við hugmyndir, komast létt frá verkefnum. Viss tegund af fúski, sem enginn tekur eftir. Yfirflæðið er svo mikið að menn týnast í ringulreiðinni. Upplýsingar flóa út úr öllum gáttum og enginn tími til að vanda sig í leitinni að sannleikanum. Enda engin ástæða til eftir að búið er að breyta sjónvarpsdagskránni úr sjálfstæðri menningarafurð í auglýsingapláss. Að láta efnið njóta sín hefur glatast. Að leita að hinum rétta tóni hefur týnst. Að finna samræmi er hallærislegt. Gamla hugsjónin um heimildamyndina er fulltrúi vandvirkni, sem nú um skeið hefur ekki verið í tísku. Að minnsta kosti ekki í fjölmiðlun. En eins og um alla strauma í samfélaginu verða yfirflæði og óðagot lítils metin þegar þeirra tími er liðinn. Þá kemur kannski tími heimildamyndarinnar aftur. Hver veit?

Höfundur útskrifaðist 1971 sem stjómandi heimildamynda frá Kvikmyndaskólanum í Prag.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR