Bókarkafli: Vordagar í Prag eftir Þorstein Jónsson

Bók Þorsteins Jónssonar kvikmyndaleikstjóra, Vordagar í Prag, kemur út á morgun á vegum bókaútgáfunnar Benedikt. Klapptré fékk leyfi til að birta upphaf bókarinnar. Útgáfunni verður fagnað í Eymundsson Austurstræti á morgun, 21. september kl. 17 og eru öll velkomin.

Í Vordögum í Prag segir Þorsteinn frá námsárum sínum í Tékkóslóvakíu 1968-1972, en hann stundaði þar nám við hinn kunna kvikmyndaskóla FAMU og upplifði vægast sagt sögulega tíma. 1968 eru Tékkar í fararbroddi evrópskrar kvikmyndagerðar, sem hafði átt einstakt blómaskeið um margra ára skeið og haft gífurleg áhrif. Þegar Þorsteinn kemur til Prag stendur heimurinn á öndinni: munu Rússar ráðast inn í landið og kæfa þá bylgju frelsis sem farið hafði um landið um nokkurt skeið og kallað var Vorið í Prag?

Hér er upphaf bókarinnar:

Ekki allt sem sýnist

Ég hélt lengi þeim vana mínum að vinna ljósmyndir á pappír þótt allir væru komnir í stafrænt. Ég naut þess að sjá mynd verða til í björtum litum á pappírnum og kalla fram í hugann ánægjulegar minningar. Þegar ég var að stækka ljósmynd frá sólríkum degi á Vaclavstorgi í Prag og hrærði varlega í baðinu, eins og til að sjá betur alla fegurðina, kom upp í hugann lykt af eldsneyti, illa hreinsuðu bensíni.

Ég virti ljósmyndina ánægður fyrir mér undir ljósinu. Hún var í hrópandi mótsögn við það sem flestir fyrir vestan voru sannfærðir um: Að fyrir austan hefði flest verið ljótt, kommúnistar illmenni og að allir hefðu verið kommúnistar. Kalda stríðið hafði staðið í tuttugu ár þegar ég hélt til náms í Tékkóslóvakíu árið 1968 og margir heima á Íslandi undruðust fyrirætlan mína, töldu hana hreint glapræði. Hvernig ætlaði vestrænn maður að þrauka kommúnisma í heil fjögur ár?
–Hvað ertu að hugsa? spurði fólk.
Kannski var ég bara svona mikið barn.

Á ljósmyndinni sjást eldrauðir sporvagnar liðast um torg undir blómstrandi trjákrónum og úti um allt iðandi mannlíf. Fólk að spóka sig á breiðstrætum, létt í lund að njóta sólarinnar sem ætlaði mig Íslendinginn lifandi að drepa. Ég var í þykkum ullarfrakka sem hafði ekki komist í ferðatöskuna. Á götunum þóttist ég strax finna í ríkum mæli þetta manneskjulega í tékknesku kvikmyndabylgjunni sem hafði heillað mig og leitt á þennan stað. Fólkið var góðlegt á svip, blómlegar stúlkur og viðkunnanlegir strákar eins og í kvikmyndum Milos Forman. Ég var lentur í framandi en kærkomnu ævintýri. Þarna var eitthvað á ferðinni sem ég hafði aldrei áður séð, og þótt ég væri langt að kominn leið mér eins og heima.

Í hliðargötu stóð yfir borgarafundur. Ólgandi deigla fólks ræddi af einlægum ákafa eitthvað sem snerti alla menn, pólitík. Hvernig þjóðskipulagið ætti að vera. Hvernig réttindum borgaranna ætti að vera fyrir komið. Hvaða ríki væru hugsanlegar fyrirmyndir. Norðurlöndin voru nefnd.

Þetta var Vorið í Prag, hugmyndir sprottnar úr hugarfylgsnum stúdenta og menntamanna um Socialismus s lidskou tváře eða manneskjulega félagshyggju, bornar fram af geðfelldum manni sem hafði verið kosinn aðalritari flokks kommúnista sem öllu réði í Tékkóslóvakíu, Alexander Dubček.

Umferðin hafði stöðvast og Íslendingur á leið í nám sat fastur vegna þess að þjóðin var að ráða ráðum sínum.

Af hverju kviknaði minning um lykt af eldsneyti? Var það vegna þess að í myndina vantaði sótandi rútur og skröltandi trukka, svo ekki sé minnst á svarta Tatra–bíla með brúnaþunga kommúnista í aftursætinu?

Ég reyni að halda í sólríku myndina þó að ég ætti eftir að sjá og skilja ýmislegt betur.

Njósnari frá Havana

Í flugvélinni til Prag vakti athygli mína maður sem var nákvæmlega eins og Alec Guinness í hlutverki njósnara bresku leyniþjónustunnar M16 í gamanmynd Carol Reed, Okkar maður í Havana. Auk hans hafði sex manna hópur kínverskra karla gengið um borð í Kaupmannahöfn, augsýnilega sendimenn stjórnarinnar í Peking eða flokks kommúnista þar. Eru þá upp taldir farþegar í þessu 106 sæta flugi SAS 25. júlí 1968 til Prag.

Guinness og Kínverjarnir grófu sig ofan í pappíra og skýrslur en ég, komandi frá landi þar sem veikasta tegund áfengis var bönnuð, gat vel hugsað mér slíkan drykk þar sem ég sat einn í miðri vél.

Flugfreyjurnar fjórar birtust fyrr en varði. Þær höfðu ekkert að gera svo við tókum tal saman. Þær voru forvitnar og spurðu hvað ég væri að vilja til Prag eins og þá var ástatt. Allir vissu að Rússar sátu með tvö hundruð þúsund manna lið Rauða hersins við landamærin, albúnir til árásar. Í fjölmiðlum hafði verið rifjuð upp sagan af því þegar Krúsjef sendi skriðdreka Rauða hersins út á götur Búdapest árið 1956 til að berja niður mótmæli og uppreisn gegn kommúnistunum þar og drápu að minnsta kosti tvö þúsund manneskjur. Þeir handtóku Imre Nagy, sem hafði leitt uppreisnina til lýðræðis og frelsis undan Rússum, og afhentu hann kommúnistunum með því skilyrði að þeir réttuðu yfir honum með leynd – og hengdu. Myndu þeir ekki allt eins senda skriðdreka á götur Pragborgar til að drepa saklausa vegfarendur á Vaclavstorgi og fara eins með leiðtoga Vorsins, Alexander Dubček?

Þeir gætu ráðist inn á hverri stundu. Það vissi allur heimurinn. Var ekki augljóst að barist yrði á götunum? Var ég ekki hræddur?

Nei, ég var ekki hræddur. Ég ætlaði ekki að láta hernað eða annað valdabrölt stöðva mig. Ég var harðákveðinn í að fara í nám í Prag og vildi komast þangað sem fyrst, einmitt áður en Rússar gerðu alvöru úr hótunum sínum, því þá myndi allt lokast. Ótti var satt að segja það síðasta sem mér datt í hug. Ég átti mér draum.

Kvikmyndir voru minn heimur. Á þessum tíma voru í Evrópu að koma fram kvikmyndir með ferskar hugmyndir, sprottnar upp í menningu ólíkra þjóða. Myndirnar voru persónulegar með sterkum höfundareinkennum og fjölluðu um venjulegt fólk. Markmiðið var að sýna raunveruleikann fremur en að búa til hetjur. Þessar myndir voru ólíkar draumaveröld Norður– Ameríku þar sem markaðurinn hafði gleypt höfundana. Reyndar voru þar einnig sjálfstæðir framleiðendur og leikstjórar sem fjölluðu um raunveruleikann, jafnvel undirmálsfólk. Menn eins og Cassavetes og fleiri.

Í Frakklandi var ný bylgja með andblæ uppreisnar sem litaðist af afstöðunni til bandarískra kvikmynda. Á meðan sumir dáðu stúdíó–leikstjóra, fasta í heimi kúrekasagna, meistara frásagnar án mikils innihalds, til dæmis John Ford, fóru frönsku höfund­arnir út á götu og notfærðu sér frelsi léttra tökuvéla og ljósa og komust þannig nær deiglunni, bæði á götunni og í umræðunni. Mynd Godard, Á öndinni, sameinaði á sérstakan hátt aðdáunina á Bandaríkjunum í stíl og fasi og uppreisnina gegn henni. Hún hafði átakanlegan endi, þar sem franski smáglæpamaðurinn Belmondo, hetjan, er skilinn eftir dauðvona í göturæsinu og ástin hans, hin bandaríska Seberg, gengur burt. Eins og henni sé sama.

Deilan snerist um hvort ætti að ráða, sköpun eða vinsældir. Í Þýskalandi hafði hópur gefið út Oberhausen–yfirlýsinguna sem sagði, „Gamla kvikmyndin er dauð, við trúum á hina nýju.“ Dreyer hafði í Danmörku gert sína síðustu mynd, Gertrud, mikla formsmíð líkt og aðrar myndir hans, og Ítalía var með flottan stíl. Á þessum árum var það mynd Antonionis, Ævintýrið, sem ég horfði á með glýju. Í tékknesku bylgjunni var viðkunnanleg tilfinning, maður fann til með persónunum. Þar höfðu höfundar eins og Forman með Ástir ljóshærðrar stúlku og Menzel með Lestir undir smásjá, svo einhverjir séu nefndir, komið fram með tragikómískan hversdagsleika, sem maður átti ekki að venjast í bandarískum myndum sem fylltu salina heima.

1968, árið sem ég fór til Prag, var ár uppreisna. Tékkneska kvikmyndabylgjan og hreyfingin um manneskjulega félagshyggju voru báðar uppreisn gegn stöðnuðu valdakerfi. Þetta voru skref í átt til aukins lýðræðis og borgaralegra réttinda.

Var ég uppreisnarmaður? Ég hefði ekki getað svarað því. Ég var með kvikmyndadellu og langaði til að læra galdurinn. Fyrsta skrefið var að komast í hinn fræga kvikmyndaskóla, FAMU.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR