Hilmar Sigurðsson um Árna Óla: Gaf ekkert eftir í list sinni allt fram í það síðasta

Árni Ólafur Ásgeirsson lést í byrjun síðustu viku, 49 ára að aldri, eftir skammvinn veikindi. Hann fæddist árið 1972, nam kvikmyndagerð við hinn virta skóla Łódź í Póllandi og leikstýrði fjórum kvikmyndum í fullri lengd á ferli sínum.

Segir á vef RÚV:

Hilmar Sigurðsson kvikmyndaframleiðandi var samstarfsmaður og vinur Árna. Þeir kynntust á kvikmyndahátíð í Haugasundi í Noregi árið 2006. „Við áttum þar eftirminnilegt kvöld við hafið,“ segir hann í viðtali í Lestinni á Rás 1. Þeir sátu í stjórn Bíó Paradísar á tímabili og unnu fyrst saman þegar þeir gerðu teiknimyndina Lói þú flýgur aldrei einn.

Tók alls konar fólk upp á sína arma

Árni Ólafur hafði aldrei komið að gerð teiknimynda áður og varð sjálfur mjög undrandi þegar hann var beðinn um að leikstýra myndinni. „Við vorum búin að kynnast honum utan vinnu og fannst hann svo skemmtilegur,“ segir Hilmar. Árni var með frábæra kímnigáfu, mikinn drifkraft og hafði sýnt það að honum var annt um grundvallaratriði kvikmyndagerðar, óháð því hvort þær fjölluðu um manneskjur af holdi og blóði eða tölvuteiknaða fugla. „Við vorum nokkurn veginn viss um það að þótt hann hefði ekki gert þetta áður og kunni ekki aðferðarfræðina upp á 10, þá hefði hann það sem við þurftum. Hann gæti tekið utan um söguna og karakterana og passað þá alla leið.“

Kvikmyndaframleiðandi
Hilmar Sigurðsson framleiðandi | Mynd: Sagafilm.

Hilmar segir að Árni hafi verið þróttmikill kvikmyndagerðarmaður, en um leið næmur leikstjóri sem var annt um sögu og persónusköpun. „Hann var alltaf með hugann við söguna og framþróun karakteranna innan hennar. Það var hans styrkleiki, að vinna með þetta tvennt í fókus.“

Hann hafði áhrif víðar í íslensku kvikmyndaumhverfi og kom að kennslu í handritagerð. „Árni, eins góður maður og hann var, hann tók alls konar fólk upp á arma sína og hjálpaði því og ýtti því áfram. Hann las mikið fyrir vini sína og kollega og hafði sterkar skoðanir.“

Síðasta mynd Árna frumsýnd á árinu

Með sumrinu kemur út síðasta kvikmyndin sem Árni Ólafur vann að, pólsk-íslenska spennumyndin Wolka. Myndin segir frá Önnu sem setið hefur í pólsku fangelsi í 16 ár. Þegar hún losnar þaðan á hún sér aðeins eitt markmið; að finna konu að nafni Dorota. Til þess þarf Anna hins vegar að brjóta skilorð, brjóta lög og leggja allt undir þegar hún kemst að því að Dorotu sé líklega að finna á Íslandi.

Mynd með færslu
Árni Ólafur kom víða við og snerti marga, segir Hilmar Sigurðsson | Mynd: Sagafilm.

„Þetta er fyrsta íslenska kvikmyndin sem er tekin upp á pólsku, sem er ákveðin saga í sjálfu sér,“ segir Hilmar. „Þetta er handrit sem hann var að vinna í þegar hann kom til að gera Lóa. Þetta var langur ferill, á þriðja ár, og ég tók það að mér að framleiða þetta með honum. Við vorum að klára hana og því miður sá Árni hana ekki á tjaldinu.“

Myndin er íslensk-pólsk samframleiðsla og verður frumsýnd fyrst í Póllandi. „Það var skemmtileg upplifun að fara í gegnum, því hann var náttúrulega tvítyngdur, það var gaman að sjá Árna á settinu að tala tungum, eins og við sögðum stundum.“ Það myndaðist mikill hrærigrautur á settinu þar sem þrjú tungumál voru í gangi í einu. „Íslendingarnir skildu ekkert og Pólverjarnir skildu ekkert. En hann skildi allt. Það var mjög skemmtileg upplifun.“

Mætti veikindunum af æðruleysi

Árni hafði ekki verið lengi veikur þegar hann lést, aðeins í um tvo mánuði. „Við sem þekktum hann best vissum kannski betur af því að eitthvað var að gerast,“ segir Hilmar. „Þegar við vorum í tökum í fyrra kenndi hann sér meins, en það var ekkert rakið til krabbameins eins og síðar reyndist. Átta vikna tími frá því hann greinist og þangað til hann er farinn er ekki langt. Árni mætti þessum veikindum af æðruleysi og var alltaf á leiðinni aftur út af spítalanum síðustu vikurnar. Ég talaði við hann í síma viku áður en hann fór, þá var hann að plana að fara í bjór og það segir meira en margt annað um Árna. Svo er líka annað, sem ég hafði ekki áttað mig á, og það var hvað hann hefur komið víða við og snert marga, bæði innan og utan kvikmyndagreinarinnar. En það segir okkur líka hvaða mann hann hafði að geyma.“

Árni var með hugann við síðustu mynd hans fram á síðasta dag. „Þetta var hans mynd fram í það síðasta og hann barðist fyrir sínu klippi. Sem mér fannst mjög fallegt. Á því tímabili, þegar hann var ekki upp á sitt besta, þá gaf hann ekki eftir. Það er oft í svona stórum verkum að þá takast á mismunandi skoðanir og hann var mjög fylginn sér í því að hans verk færi þarna í gegn.“

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR