Fréttablaðið um SYSTRABÖND: Kvenlegur harmleikur

„Öflugar leik­konur fara á kostum í sér­lega bita­stæðum hlut­verkum í þátta­röðinni Systra­bönd sem kallar á hám­horf þar sem for­vitni um af­drif per­sóna vegur þyngra en undir­liggjandi spennan í kringum glæpinn sem keyrir at­burða­rásina á­fram,“ skrifar Þórarinn Þórarinsson meðal annars í Fréttablaðið.

Þórarinn skrifar ennfremur:

Eins og flest fólk sem fylgist með fréttum veit, liggja jafnan mannlegir harmleikir að baki glæpum. Stórum sem smáum og í Systraböndum er glæpurinn stór, en atburðarásin hverfist um óupplýst morðmál þar sem áherslan er þó fyrst og fremst á harmleikinn sem voðaverkið er og þá skelfingu sem það kallar yfir fjölda persóna og heilt samfélag.

Fjórtán ára stúlka hverfur sporlaust í Ólafsvík á tíunda áratug síðustu aldar, en þegar mannabein finnast í nágrenninu 25 árum síðar hriktir í stoðum tilveru þriggja æskuvinkvenna sem hafa engst í skugga fortíðar en geta tæpast flúið sannleikann öllu lengur.

Hjúkrunarfræðingurinn Karlotta, kokkurinn Anna Sigga og presturinn Elísabet hafa valið þrjár ólíkar en nokkuð sígildar leiðir til þess að takast ekki á við áfall. Ein er alkóhólisti, önnur vinnufíkill með ríka sjálfseyðingarhvöt en sú þriðja virðist á áferðarfögru yfirborðinu lifa fullkomnu lífi.

Sterkar kvenpersónur

Ilmur Kristjánsdóttir, Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir og Lilja Nótt Þórarinsdóttir túlka þessar ólíku konur af stakri snilld og virðast njóta þess í botn að sökkva sér ofan í marglaga og sérlega vel skrifaðar kvenpersónur.

Ilmur skilar alkanum óaðfinnanlega og vekur ríka samúð með Karlottu, rétt eins og Jóhanna sem fer með himinskautum sem tilvistarkrepptur kokkurinn. Lilja Nótt slær síðan öll met með Elísabetu þegar hún sveiflast fyrirhafnarlaust að því er virðist milli þess að vera innileg, kómísk, drottnandi og beinlínis ógnvekjandi. Algerlega frábær.

Leikurinn í þáttunum er gegnumsneitt til fyrirmyndar og ungu leikkonurnar, Auður Aradóttir, Iðunn Ragnarsdóttir, Thea Snæfríður Kristjánsdóttir og Sóley Ásta Andreudóttir, sem leika stelpurnar í fortíðinni gefa þeim eldri og reyndari ekkert eftir.

Háskalegur kvennaheimur

Allt leikur þetta svo í höndum leikstjórans, Silju Hauksdóttur, sem rétt eins og í þeirri stórgóðu mynd Agnesi Joy, laðar fram það besta úr leikurunum sínum fyrir utan vitaskuld hversu næm hún er þegar kemur að því að draga fram djúpar tilfinningar í samböndum og samskiptum persóna.

Þættirnir gerast, líkt og Agnes Joy, í kvennaheimi. Eða reynsluheimi kvenna, öllu heldur, sem gefur Systraböndum ferskan og kærkominn blæ. Konur eru hér allt í öllu. Þær eru gerendurnir og þolendurnir á meðan passífir karlarnir kúldrast á hliðarlínunni, meira til ógagns en gagns, en eru þó brúklegir sem frásagnartól til þess að varpa ljósi á kvenpersónurnar. Og bara ekkert að því, þar sem þetta er þvert á móti bæði bráðsniðugt og hugvekjandi á ýmsan hátt.

Stöðumunur kynjanna kristallast ágætlega í sambandi lögregluparsins sem rannsakar líkfundinn. Halldóra Geirharðsdóttir leikur Veru, sem leiðir rannsóknina, af sínum fítonskrafti á meðan Jónmundur Grétarsson gerir Einari, félaga hennar hógvær skil, og hefur fátt til málanna að leggja annað en: „Manstu eftir einhverju fleiru sem gerðist þessa nótt?“ eða eitthvað álíka.

Veikasti hlekkurinn

Systrabönd falla óhjákvæmilega í flokk glæpaþátta en mannlega dramað er miklu fyrirferðarmeira, þannig að þættirnir hvíla fyrst og fremst á vel sköpuðum persónum í túlkun leikkvenna sem eru hver annarri betri.

Enda eins gott, þar sem glæpurinn sjálfur er veikasti hlekkurinn í sögunni og þótt hann keyri undirliggjandi spennuna áfram hefði að ósekju mátt undirbyggja hann miklu betur. Hér er glæpurinn í raun lítið annað en það sem Hitchcock kallaði „McGuffin“. Þetta „bara eitthvað“ sem keyrir atburðarásina áfram.

Ofbeldisglæpir eru vissulega oft sorglega handahófskenndir í raunveruleikanum, en brotið er alveg á mörkum þess að vera of tilviljanakennt þannig að Systrabönd hefðu hæglega geta orðið ys og þys út af engu ef allt annað væri ekki gert af svo miklu næmi og stakri fagmennsku að þættirnir ríghalda.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR