Fréttablaðið um HVERNIG Á AÐ VERA KLASSA DRUSLA: Druslur spóla í staðalímyndir

„Hvernig á að vera klassa drusla er hressandi og skemmti­leg mynd sem gerir út á ærsla­gang og grín þar sem stelpurnar taka völdin, gefa staðal­í­myndum langt nef, og sýna svo ekki verður um villst að það er alveg hægt að vera klassa drusla,“ skrifar Edda Karitas Baldursdóttir í Fréttablaðið.

Í umsögn segir:

…hér er á ferðinni sannkölluð gleðisprengja úr smiðju Ólafar Birnu Torfadóttur sem stígur hér fram með sína fyrstu mynd í fullri lengd.

Myndin fjallar um tvær ólíkar vinkonur: Tönju og Karen. Tanja er hógvær borgarstelpa sem er nýhætt með kærastanum og bregður á það ráð að flýja í áhyggjuleysi sveitalífsins úr áreiti og ys borgarinnar. Karen er mun lífsreyndari og tekur vinkonu sína með sér út á land til að vinna á stórum sveitabæ um sumarið.

Sveitasælan reynist ekki jafn slakandi og Tanja hafði vonað og þótt hún hafi skipt um umhverfi er hún enn sama óörugga manneskjan sem er orðin þreytt á að vera aðhlátursefni. Hún biðlar því til Karenar, sem virðist óhrædd við að vera nákvæmlega sú sem hún er, að kenna sér að vera sjálfsörugg klassadrusla eins og hún. Þær stöllur lenda í framhaldinu í mörgum hlægilegum atvikum. Oftar en ekki á kostnað Tönju.

Út í óvissuna

Það er þekkt þema í kvikmyndum að söguhetjan fer út í hið óþekkta, lendir í ýmsum ævintýrum, dregur af þeim lærdóm og tekur út nokkurn þroska. Þetta minni tekur á sig skemmtilega mynd þegar það er fært í íslenskan búning með sveitina sem sögusvið.

Persónusköpunin er líka góð en Tanja og Karen eru heilsteyptar vel skapaðar persónur, þótt þær séu samt sem áður fremur hefðbundnar fyrir mynd af þessu tagi og hafa sést í ótal Hollywood-myndum.

Á móti kemur að lítið hefur farið fyrir slíkum kvenpersónum og stelpumyndum yfirleitt í íslenskri kvikmyndagerð.

Ylfa Marín Haraldsdóttir og Ásta Júlía Elíasdóttir eru góðar í hlutverkum sínum sem hin óörugga Tanja og klassadruslan Karen. Samleikur þeirra er einstaklega skemmtilegur og ljóst að þar fara færar grínleikkonur en góður gamanleikur er ekki á allra færi.

Hraði og grín

Framvinda myndarinnar er hröð og skemmtileg þar sem keyrt er á vel útfærðum grínatriðum sem kitla hláturtaugarnar. Mikill ærslagangur og grín einkenna myndina sem er töluvert ólíkt því sem við höfum átt að venjast í íslenskum kvikmyndum á síðustu árum.

Þá er myndin laus við allt volæði og drungalegan undirtón og aldrei er langt í húmorinn þannig að klassa druslan er hressandi tilbreyting. Sérstaklega á tímum sem þessum.

Hvernig á að vera klassa drusla kemur á óvart í nálgun á raunveruleikann í sínum gallsýrða óraunveruleika þar sem ekkert þykir til dæmis sjálfsagðara en að Íslendingur sé á leiðinni til Mars.

Persónur fá að vera þær sem þær eru og kynjahlutverkunum er gjarnan snúið á haus í myndinni og þannig kemur til dæmis vel í ljós að konur eru ekki einar um að vera ástsjúkar. Karen, sem er holdgervingur druslunnar, styðst við mörg karllæg gildi og eiginleika. Hún gengur um í leðurjakka, keyrir rallý-bíl og henni er skítsama um hvað öðrum finnst, þannig að það að vera drusla virðist vera til marks um sjálfsöryggi.

Góður druslugangur

Karlmenn hafa lengi átt einkarétt á því að mega sýna kynlífi virkan áhuga án þess að vera kallaðir druslur en hér er þessu öfugt farið og karllægt girndarglápið víkur fyrir löngunaraugum konunnar sem mælir karlmannslíkamann út með græðgisglampa.

Ólöf, leikstjóri og handritshöfundur, reynir að endurheimta orðið „drusla“ og leysa það undan þeirri neikvæðu merkingu sem hefur verið hengd á það í gegnum tíðina. Merking orðsins er enda orðin margræð og þarf ekkert frekar að eiga við um lauslátan einstakling en hrörlega bíldruslu eða luralegan klæðaburð enda er engin ein rétt leið til að vera klassa drusla.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR