Gísli Darri og JÁ-FÓLKIÐ: Hjólin þegar farin að snúast eftir forval til Óskars

„Mér líður stórkostlega. Ég verð að viðurkenna að ég var svolítið svífandi í dag,“ segir Gísli Darri Halldórsson í viðtali við RÚV. Teiknimynd hans, Já-fólkið er á meðal 10 stuttmynda í forvali til Óskarsverðlauna.

Á vef RÚV segir:

Óskarsakademían tilkynnti í gær forval til verðlaunanna í ár í níu völdum flokkum. Þar á meðal í flokki styttri teiknimynda. Meðal tíu teiknimynda sem eru í forvali í þeim flokki er mynd Gísla Darra Halldórssonar, Já-fólkið.

„Þetta kom mér svakalega á óvart,“ segir Gísli Darri og bætir við að hann hafi ekki kynnt myndina að ráði með það í huga að vekja athygli Óskarsakademíunnar. „Myndin fór út á eigin verðleikum og ég var ekki einu sinni með teaser fyrir hana, þannig að ég braut svolítið mikið af bransareglum. Ég er mjög glaður að hún hafi verið valin á þessum forsendum.“

Gísli Darri fékk símtal frá almannatengslafyrirtæki samdægurs varðandi frekari kynningu á myndinni í kjölfar forvalsins. „Allt í einu er maður kominn á radarinn. Ég man að þegar ég var að segja fólki að ég væri að gera stuttmynd og þá ranghvolfdi það augunum.“

Röddin er ríkari en orðið

Rætt var við Gísla Darra í Lestinni á Rás 1 síðasta haust, skömmu eftir að myndin fékk áhorfendaverðlaun barna á Nordisk Panorama. Það var háfleygur frasi sem sáði fyrstu fræjum myndarinnar segir Gísli, fyrir heilum sjö árum.

„Þegar ég var að byrja á þessari mynd var ég með hóp af hugmyndum sem ég var heltekinn af. Ég upplifði þetta ferli eins og ég væri smali að reyna að koma rollum heim. Þær virtust á yfirborðinu ekki tengjast og eitt af því fyrsta sem kom upp á yfirborðið var sjálfskapaður frasi sem ég var óskaplega stoltur af,“ segir hann í kaldhæðni. „Röddin er ríkari en orðið. Það var byrjunin.“

Já-fólkið fjallar um íbúa í ónefndri blokk. Fólkinu er fylgt eftir í einn sólahring en þegar líða tekur á daginn fer lífsmunstur hvers og eins að kristalla persónurnar (dugnaður, leti, fíkn og ástríða). Myndinni er lýst sem gamansamri, hálf-þögulli teiknimynd um fjötra vanans. Einungis eitt orð kemur fyrir í henni, það er orðið „já“ sem er endurtekið í ýmsum blæbrigðum.

Meðal leikara í myndinni eru Siggi Sigurjóns, Jón Gnarr og Helga Braga Jónsdóttir. „Ég hugsaði raddirnar sem hljóðfæri og allir þessir leikarar sem ég valdi eru svo músíkalskir,“ segir Gísli Darri. Hann var himinlifandi með að fá þessa leikara í myndina enda hafi þau verið efst á blaði hjá honum við gerð hennar. „Að fá svona kanónur bara til að segja „já“, ég var pínu stressaður yfir því að þau yrðu eitthvað móðguð en það var ekkert til að hafa áhyggjur af.“

Gísli Darri lærði kvikun (e. animation) í Dublin, þar dvaldi hann í átta ár við nám og vinnu. Hann hefur unnið hjá Brown Bag Films og komið að gerð teiknimynda hjá Cartoon Network, meðal annars Undraveröld Gúnda (e. The Amazing World of Gumball) sem sýnd hefur verið á RÚV.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR