TENET og THE MIDNIGHT SKY tilnefndar til Óskarsverðlauna fyrir leikmynd og sjónrænar brellur, fjöldi Íslendinga kom að þessum verkum

Tenet eftir Christopher Nolan hlýtur tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir leikmynd í ár og The Midnight Sky eftir George Clooney er einnig tilnefnd fyrir sjónrænar brellur. Fjöldi íslenskra kvikmyndagerðarmanna kom að þessum verkum.

Alls unnu sjö Íslendingar við leikmyndagerðina í Tenet undir stjórn Eggerts Ketilssonar sem var listrænn stjórnandi leikmyndar (Supervising Art Director). Tökur fóru fram víðsvegar um Evrópu og í Asíu.

Formlega tilnefningu fá leikmyndahönnuðurinn Nathan Crowley og Kathy Lucas sem sá um að klæða leikmyndina (Set Decoration).

Auk Eggerts (sem einnig hefur unnið við aðrar myndir Nolan, Interstellar og Dunkirk) eru Íslendingarnir þeir Hallur Karl Hinriksson og Steingrímur Þorvaldsson (áferðarmálun/Scenic Artist) og Gunnar Kvaran, Freyr Ásgeirsson, Stígur Steinþórsson og Jón Andri Guðmundsson sem sáu um leikmunasmíði.

Hluti þessa hóps kom einnig að leikmynd og brellum í The Midnight Sky sem tilnefnd er fyrir bestu sjónrænu brellur (formlega tilnefningu fá Matthew Kasmir, Christopher Lawrence, Max Solomon og David Watkins). Myndin var að verulegu leyti tekin upp hér á landi.

Auk Halls Karls Hinrikssonar komu Kristinn Halldórsson, Haukur M. Hrafnsson, Ásgeir Líndal, Marta Luiza Macuga, Árni Magnússon, Pétur Axelsson Ottesen, Emil Pétursson, Björgvin Már Pálsson, Gunnar Pálsson og Rögnvaldur Skúli Árnason að leikmynd.

Að brellum á tökustað komu Eggert Ketilsson, Gunnar Kvaran og Freyr Ásgeirsson.

Fjöldi annarra Íslendinga var einnig í starfsliði myndarinnar sem og nokkrir leikarar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR