ÞORPIÐ Í BAKGARÐINUM frumsýnd

Þorpið í bakgarðinum eftir Martein Þórsson er frumsýnd í dag. Guðmundur Óskarsson skrifar handrit og framleiðir ásamt Marteini. Laufey Elíasdóttir og breski leikarinn Tim Plester fara með aðalhlutverk.

Menningin á RÚV fjallaði um verkið:

Myndin fjallar um Brynju, sem lýkur vist á Heilsuhælinu í Hveragerði og ákveður að framlengja dvölina í bænum. Hún flytur sig yfir á gistiheimilið Backyard village, þar sem hún kynnist Mark, sem er breskur ferðamaður.

Laufey Elíasdóttir fer með hlutverk Brynju, Tim Plester leikur Mark og önnur hlutverk eru á herðum Eyglóar Hilmarsdóttur, Sóleyjar Elíasdóttur, Söru Daggar Ásgeirsdóttur og Helga Svavars Helgasonar. Laufey segir verkefnið höfða til hins mannlega. „Þessi mynd fer inn á eiginlega bara allar tilfinningar, mannlegar tilfinningar sem við þurfum öll að kljást við. Einhvern veginn að feisa okkur sjálf.“

Skapandi takmarkanir
Myndin var nýverið valin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Santa Barbara. Handritið skrifuðu Marteinn og Guðmundur Óskarsson og báðir eru framleiðendur myndarinnar. Við gerð hennar settu þeir sér ákveðinn ramma. „Þegar við Guðmundur vorum að byrja að skrifa þessa mynd, við kokkuðum upp grunnsöguna saman, þá settum við okkur svona dogma: „Við ætlum að gera mynd sem við getum fjármagnað að mestu leyti sjálfir og þá þurfum við nokkra faktora. Við getum við ekki verið með mikið meira en tvo aðalleikara, nýtum okkur þá tökustaði sem við höfum aðgang að, höfum ákveðið margar senur, handritið má bara vera visst margar blaðsíður af því að eftir því sem handritið er lengra, því dýrari er myndin og allt á að vera að mestu leyti til staðar,“ segir Marteinn. „Það er rosalega gott fyrir mann að vera með svona takmarkanir og þurfa að vinna með þær. Þurfa að koma með sniðugar lausnir, maður lærir rosalega mikið á því.“

Mannlegar tilfinningar
Að mati Laufeyjar talar myndin til breiðs hóps. „Ég hugsa að þetta sé bara til svolítið mikið allra. En þetta er kannski meira fullorðið fólk en börn því hún fer inn á eiginlega bara tilfinningar, mannlegar tilfinningar sem við þurfum öll að kljást við. Einhvern veginn að feisa okkur sjálf,“ segir hún. „Þetta er bara ofsalega falleg saga, sem tekur mann svolítið í tilfinningalegt ferðalag.“ Persónur Brynju og Marks fást báðar við flóknar fjölskylduaðstæður og fortíðardrauga. „Það verður vinskapur með þeim og saman takast þau á við hvort sitt trámað, “ segir Marteinn.

Bókstaflega tekin í bakgarði
Tim Plester er breskur leikari sem á að baki litríkan feril, og hefur meðal annars farið með hlutverk í Game of Thrones, After Life og Bohemian Rapsody. Leikarar og aðstandendur myndarinnar dvöldust í tvær vikur í Hveragerði á meðan á tökum stóð í desember síðastliðnum. „Myndin er bókstaflega tekin hér í bakgarðinum, í Hveragerði og svo hérna aðeins fyrir utan bæinn, nálægt Kerinu, þegar Mark og Brynja fara í roadtrip,“ segir Marteinn.

Bergsteinn Björgúlfsson stýrir kvikmyndatöku og myndina klippa Marteinn og Valdís Óskarsdóttir. Tónlist er eftir Jófríði Ákadóttur og hljóðhönnun annaðist Nicolas Liebing, en Pétur Einarsson tók upp hljóð. Stígur Steinþórsson gerði leikmynd og Aleksandra Koluder búninga.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR