Morgunblaðið um ÞORPIÐ Í BAKGARÐINUM: Hamingjan er Hveragerðiskrútt

„Fráhvarf frá fyrri verkum leikstjórans og færir tráma og fjölskylduharm inn í hlýjan yl Hveragerðiskrúttsins en vandasamt er ná slíkri blöndu réttri,“ skrifar Gunnar Ragnarsson meðal annars í Morgunblaðið um Þorpið í bakgarðinum eftir Martein Þórsson.

Gunnar skrifar:

Í skáldsögunni Skegg Raspútíns gerði Guðrún Eva Mínervudóttir eigið líf í Hveragerði að söguefni og var eiginmaður skáldsins, kvikmyndaleikstjórinn Marteinn Þórsson, meðal persóna bókarinnar. Í nýjustu kvikmynd sinni Þorpið í bakgarðinum tekur Marteinn í sama streng, ef svo má segja, og notar gistiheimili þeirra hjóna sem sögusvið. Sjálfsvísandi eiginleikar, sem framandgera söguheiminn með því að benda á samsetningu hans og höfund listaverksins, eru algengari í íslenskum bókmenntum en kvikmyndum (þó að þeir hafi verið fastur liður listrænnar kvikmyndagerðar frá sjötta áratugi 20. aldar), en eru eitt helsta einkenni umræddrar myndar.

Brynja (Laufey Elíasdóttir), kona á fertugsaldri, er stödd í Hveragerði eftir dvöl á heilsuhæli. Í upphafi ráfar hún um bæinn, með viðkomu á bensínstöð og strætóskýli en staðnæmist við útskorið skilti áningarstaðarsins Backyard Village, sem skartar nöfnum listamannahjónanna á útidyrahurðinni. Matti, leikinn af Helga Svarari Helgassyni, tekur á móti Brynju og fylgir henni í notalegan náttskála en söguhetjan sést taka inn þunglyndislyfið Sertral áður en hún leggst til hvílu. Friðurinn er skjótt úti er taktlausi Bretinn Mark (Tim Plester) bankar upp á og kveðst vanta paprikuduft í matseld og endurgeldur greiðann með kvöldverðarboði, sem Brynja þiggur. Skopleg samtalssena í rólegum takti yfir fiskibollum í bleikri sósu fylgir í kjölfarið. Í ljós kemur kemur að Mark er á Íslandi í erindagjörðum af persónulegum toga og Brynja er að glíma við óuppgerð áföll.

Morguninn eftir slæst Brynja í för með Mark í lautarferð á afskekktan stað. Dulúð kraumar undir slóðanum – hvert er þessi eilítið furðulegi fýr að leiða söguhetjuna? Brynja er við stýrið og hefur GPS hnit til að leiða sig í tvísýnni för. Við tekur sterkasta atriði myndarinnar þar sem harmræn tengsl Marks við áfangastaðinn koma í ljós. Myndræn útfærsla er virkilega flott– í víðmynd sjást persónurnar á gangi í snævi þöktu landslagi og sjónarspilið verður listilega órætt. Undir lok atriðisins er myndað ofan á leikarana á flísteppinu og dróni dregur sjónarhornið smám saman fjær og fjær þar til verurnar sjást aðeins í mýflugumynd en tónlist Jófríðar Ákadóttur færir andartakið á enn hærra svið. Formið styður vel við þematískt og frásagnarlegt vægi senunnar, sem er of sjaldan tilfellið í gegnum verkið.

Fyrsti kafli myndarinnar einkennist af samtölum og uppleggið er leikritalegt í eðli sínu. Unnið er markvisst með takmarkanir framleiðslunnar til reiða fram einfalt drama í ákveðinni frásagnarhefð. Þetta er undirstrikað með fyrrnefndum drónarskotum (en að vissu leyti er þeim beitt á annan hátt en oftast nær í íslenskri kvikmyndagerð) sem mynda þrábeint niður á viðföngin frá sjónarhóli æðri máttar á sköpunarverkið. Fyrsta tilvik þess sýnir Mark á gangi í átt að húsi Brynju, morguninn eftir fiskibolluveisluna. Myndskeiðið afbyggir blekkingu söguheimsins og leggur sjónarhorn áhorfandans að jöfnu við höfund þess (að leik við brúður sínar). Hugrenningartengsl við brechtíska framsetningu Hundaheims (2003) Lars Vons Triers vakna óneitalega. Endurtekin flugskot grafa þó undan áhrifunum – og er líkt og Marteinn og félagar standist ekki mátið (myndbrot úr kvikmyndinni XL í sjónvarpi bústaðarins blikkar til manns og er annað dæmi ofgnóttarinnar). Til að opna á sjálfsvísandi vídd væri nóg að takmarka sig við guðfræðilega augnsýn upphafskaflans en ítrekuð notkun dróna dregur einna helst fram stílískt ósamræmi heildarinnar – og er frekar ódýr leið til að sækja „framleiðsluvirði“ (e. production value).

Upphafsþáttur Þorpsins kynnir persónurnar og slær góðan samhljóm húmors og alvöru en í framhaldinu fatast örlítið flugið. Á köflum heldur frábær frammistaða enska leikarans Tim Plester myndinni uppi en hann ljær fíflinu tregafullan undirtón og gerir Mark að sannfærandi persónu. Aðalpersónan Brynja, á að drífa áfram frásögnina, en kviknar ekki til lífs á sama máta. Megingallinn liggur í handriti myndarinnar, þó samstarf leikara og leikstjóra spili líka inn í, en Brynja er einfaldlega of óskýr. Hegðun hennar – líkt og framvindan í heild sinni – er á köflum tilviljunum háð og göngutúrar að bæjarlæknum skila áhorfendum litlu. Dyggðir takmarkanna gleymast í seinni hálfleik handritsins sem einkennist af útúrdúrum. Dramatík og gleðilegri úrlausn er þröngvað upp á söguna og persónur hennar. Með réttu ber þó er að minnast á besta augnablik síðari hlutans er Brynja og systir hennar (Eygló Hilmarsdóttir) horfa úr glugga á móður sína og Mark spjalla saman og „talsetja“ samtal þeirra í gríni. Sprellið vindur upp á sig og skopraddirnar færast út í alvöru og sorg systranna kemur í ljós. Þetta er í senn frjó og fyndin útfærsla sem vinnur vel með eiginleika miðilsins – en fallegt tvenndarskotið af vöngum systranna minnir á arf Ingmars Bergmans.

Tónn Þorpsins er fráhvarf frá fyrri verkum leikstjórans Marteins Þórssonar leikstjóra og færir tráma og fjölskylduharm inn í hlýjan yl Hveragerðiskrúttsins en vandasamt er ná slíkri blöndu réttri. Þorpið í bakgarðinum er harla ójöfn en þó áhugaverð kvikmynd, sem gæti reynst stökkpallur fyrir næstu verk aðstandenda.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR