Óvenju margar Íslandstengingar í Óskarnum í ár

Óskarsverðlaunin verða afhent annað kvöld og mun RÚV sýna frá útsendingunni sem hefst kl. 22:30 og stendur langt fram á nótt. Óvenju margir Íslendingar eru ýmist tilnefndir eða tengjast náið tilnefningum í ár.

Fyrst skal telja teiknimyndina Já-fólkið sem tilnefnd er til verðlaunanna í flokki styttri teiknimynda. Gísli Darri Halldórsson leikstýrði og skrifaði handritið að myndinni og framleiðendur eru Arnar Gunnarsson og Gísli Darri fyrir framleiðslufyrirtækið Caoz. Myndin hlaut verðlaun á síðustu Nordisk Panorama hátíð og er einnig tilnefnd til Edduverðlauna í ár.

Já-fólkið fjallar um íbúa í ónefndri blokk. Fólkinu er fylgt eftir í einn sólahring en þegar líða tekur á daginn fer lífsmunstur hvers og eins að kristalla persónurnar (dugnaður, leti, fíkn og ástríða). Myndinni er lýst sem gamansamri, hálf-þögulli teiknimynd um fjötra vanans. Einungis eitt orð kemur fyrir í henni, það er orðið „já“ sem er endurtekið í ýmsum blæbrigðum.

Hér er brot úr myndinni ásamt viðtali við Gísla Darra:

Þá er lagið Husavík (My Hometown) eftir Fat Max Gsus, Rickard Göransson og Savan Kotecha úr myndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga tilnefnt sem besta lag. Söngkonan, hin sænska Molly Sanden sem syngur lagið fyrir Rachel McAdams í myndinni, tók lagið upp á dögunum á Húsavík með þátttöku heimafólks og verður upptakan sýnd á hátíðinni.

Tenet eftir Christopher Nolan hlýtur tilnefningu fyrir leikmynd. Formlega tilnefningu fá leikmyndahönnuðurinn Nathan Crowley og Kathy Lucas sem sá um að klæða leikmyndina (Set Decoration). Alls unnu sjö Íslendingar við leikmyndagerðina í Tenet undir stjórn Eggerts Ketilssonar sem var listrænn stjórnandi leikmyndar (Supervising Art Director). Tökur fóru fram víðsvegar um Evrópu og í Asíu.

The Midnight Sky í leikstjórn George Clooney er tilnefnd fyrir bestu sjónrænu brellur. Formlega tilnefningu fá Matthew Kasmir, Christopher Lawrence, Max Solomon og David Watkins. Myndin var að verulegu leyti tekin upp hér á landi með þátttöku fjölda Íslendinga.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR