spot_img

RÁÐHERRANN tilnefnd til PRIX Europa verðlaunanna

Úr Ráðherranum (mynd: Lilja Jónsdóttir).

Þáttaröðin Ráðherrann sem framleidd er af Sagafilm er tilnefnd til evrópsku ljósvakaverðlaunanna PRIX Europa sem besta leikna sjónvarpsefnið.

Tilkynnt var um tilnefningar til PRIX Europa verðlaunanna í gær, 10. september. Verðlaunin verða afhent í Potsdam í október. RÚV hefur sýningar á þáttaröðinni sunnudaginn 20. september.

Ráðherrann fjallar um Benedikt Ríkarðsson, óhefðbundinn stjórnmálamann sem kemur eins og stormsveipur inn í íslensk stjórnmál með óvenjulegri nálgun í kosningabaráttu flokks síns. Eftir að hann kemst til valda fara einkenni geðhvarfa að koma fram í fari hans og hegðun.

Ólafur Darri Ólafsson fer með hlutverk ráðherrans en með önnur stór hlutverk í þáttunum fara Aníta Briem, Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson.

Leikstjórn var í höndum Nönnu Kristínar Magnúsdóttur og Arnórs Pálma Arnarsonar en handrit skrifuðu Birkir Blær Ingólfsson, Björg Magnúsdóttir og Jónas Margeir Ingólfsson. Ásgrímur Guðbjartsson stýrði kvikmyndatökunni og Kjartan Holm samdi tónlistina í þáttunum. Framleiðendur eru Anna Vigdís Gísladóttir, Hilmar Sigurðsson og Kjartan Þór Þórðarson.

Þáttaröðin er framleidd í samstarfi við RÚV, Cineflix Rights sem dreifir þáttunum á heimsvísu, DR, NRK, SVT, YLE, Lumiere, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Nordisk Film and TV Fund og MEDIA Creative Europe og nýtur endurgreiðslu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR