Þáttaröðin VITJANIR og bíómyndin SUMARLJÓS OG SVO KEMUR NÓTTIN fá styrki frá Norræna sjóðnum

Teymið á bakvið Vitjanir: Eva Sigurðardóttiur leikstjóri og handritshöfundarnir Vala Þórsdóttir og Kolbrún Anna Björnsdóttir.

Þáttaröðin Vitjanir sem Glassriver framleiðir og Eva Sigurðardóttir leikstýrir hlaut á dögunum rúman 33 milljóna króna styrk frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum. Einnig hlaut bíómyndin Sumarljós og svo kemur nóttin sem Berserk Films framleiðir og Elfar Aðalsteins leikstýrir um 17 milljóna króna styrk.

Vitjanir er 8 þátta sería þar sem segir af lækninum Kristínu sem ásamt dóttur sinni flytur til móður sinnar í lítið sjávarþorp í kjölfar skilnaðar. Þar neyðist hún til að horfast í augu við skugga fortíðar.

Kolbrún Anna Björnsdóttir og Vala Þórsdóttir skrifa handrit, en framleiðendur fyrir Glassriver eru Hörður Rúnarsson, Arnbjörg Hafliðadóttir og Andri Ómarsson. Askja Films er meðframleiðandi ásamt Lunanime BV á Niðurlöndum. Verkið verður sýnt á RÚV, sem leggur til fjármagn ásamt norrænu almannastöðvunum. Kvikmyndamiðstöð Íslands styrkir einnig verkefnið ásamt Screen Flanders í Belgíu. Áætlað er að tökur hefjist í september.

Sumarljós og svo kemur nóttin er kvikmynd byggð á samnefndri skáldsögu Jóns Kalmans Stefánssonar, samsafn sagna úr litlu sjávarþorpi. Elfar skrifar einnig handrit, en frumraun hans var kvikmyndin End of Sentence sem kom út 2019.

Heather Millard, Lilja Snorradóttir, Elfar og Ólafur Darri Ólafsson framleiða. Polar Bear í Belgíu og Vilda Bomben Film í Svíþjóð samframleiða en verkið nýtur einnig stuðnings frá Kvikmyndamiðstöð Íslands, Screen Flanders Belgium, Sænsku kvikmyndastofnuninni og Stöð 2 ásamt Scanbox sem dreifir myndinni á Norðurlöndum. Tökur eru að hefjast en áætlað er að myndin verði frumsýnd haustið 2021. Sena dreifir á Íslandi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR