spot_img

Menningin um SÍÐUSTU VEIÐIFERÐINA: Litlir hrútar á lækjarbakka

„Taumlaus galsagangur og skemmtileg gróteska,“ segir Brynhildur Björnsdóttir gagnrýnandi Menningarinnar um Síðustu veiðiferðina eftir Örn Marinó Arnarson og Þorkel Harðarson.

Brynhildur skrifar:

Laxveiði leikur fjölbreytt hlutverk í íslenskri þjóðarsál, hún er bæði stöðutákn og til marks um stéttskiptingu, í henni felst að sögn í senn slökun og spenna og hún er kannski fyrst og fremst leið til að komast í snertingu við náttúruna, í umhverfinu og okkur sjálfum. Kannski er laxveiði þó helst notuð sem afsökun til að skvetta úr klaufunum, sleppa fram af sér beislinu og ganga af göflunum.

Síðasta veiðiferðin minnir um margt á íslenskar myndir frá níunda áratugnum þar sem veiði, sumarhús, íslensk náttúra og karlahópar koma við sögu. Kinkað er kolli til kvikmynda eins og Stella í orlofi, Veiðiferðin, og stundum Með allt á hreinu. Söguþráðurinn er einfaldur: sex karlar fara saman í árlega veiðiferð í veiðikofa. Þeir eru ólíkir og ekki ljóst hvað tengir þá alla saman þó tengsl sumra séu ljós. Við fylgjumst með þeim hlaða bílana, aðallega af áfengi en líka veislumat, þeir kveðja konurnar sínar sem eru þar með úr sögunni og halda af stað tveir og tveir stangarfélagar í bílunum sínum sem hver um sig bera vott um þjóðfélagsstöðu þeirra. Þeir veiða einnig í sömu pörum en hittast og borða saman (og drekka aðallega samt) á kvöldin. Veiðin og viðhorf þeirra til hennar verður einskonar birtingarmynd ólíks lífsviðhorfs félaganna, stöðu þeirra og stéttar og þess hversu alvarlega þeir taka lífið og tilveruna.

Það er ekkert gaman fyrir neinn að ég fari að rekja söguþráðinn eitthvað meira hér, bæði er hann frekar losaralegur, samsettur af farandsögum (mín vegna flestum sönnum) úr veiðiferðum og svo í raun mjög dæmigerður fyrir þessa tegund af félagaferðalögum bæði karla og kvenna sem farnar eru undir helgum eiðum um að það sem gerist í ferðinni fari aldrei út fyrir hópinn. Og svo er sjón líka sögu ríkari. Það má hinsvegar alveg segja frá því að Síðasta veiðiferðin er bráðfyndin og skemmtileg mynd sem tekur sjálfa sig nákvæmlega ekkert alvarlega. Aðalleikararnir standa sig hver öðrum betur, Þorsteinn Bachmann er sannfærandi sem fjárfestirinn Valur sem tekur veiðina eins og allt í lífinu, á samkeppninni, réttu græjunum og hroka ásamt því að setja leikreglurnar og reyna að stjórna hvernig allt fer fram. Halldór Gylfason leikur undirskipaðan mág hans afar vel á lágstemmdari nótum og ég hefði alveg viljað fá að sjá hann vinna meira úr sinni lífsumbreytandi reynslu. Þröstur Leó er yndislega mannlegur sem drykkfelldur ruslagramsari sem greinilega má muna sinn fífil fegri og þeir stangafélagarnir Hjálmar Hjálmarsson sem fer að tala klingjandi norðlensku um leið og hann fer út fyrir bæinn eiga góðan samleik. Hilmir Snær er hlýr og viðfelldinn sem Jónsi sem má kannski kalla meðalmanninn eða Everyman í þessari mynd, einskonar kompás sem stilla má skekkju hinna út frá og Jóhann Sigurðarson er stórkostlegur sem óvænti gestur ferðarinnar, blíðlyndur fyrrum fjárfestingaverkfræðingur og kraftakall sem kallar afskaplega fátt ömmu sína.

Taumlaus galsagangur og skemmtileg gróteska ágerist þegar líður á myndina, bæði hvað varðar atburði og atgervi og verður sérstaklega að minnast á hispurslausa karlmannlega gleðinektarsenu sem er gersamlega laus við alla kynferðislega undirtóna, ólíkt kvenlegri nekt sem nánast alltaf er kynferðisleg í kvikmyndum.

Þrátt fyrir mikið skemmtigildi er myndin langt frá því að vera gallalaus. Þræðir eru skildir eftir blaktandi um alla mynd, mikið af gríni er án nokkurs tilgangs fyrir söguþráðinn, konur eru nánast ekki til í heimi myndarinnar og í eina skiptið þegar tvær konur tala saman (Halldóra Geirharðsdóttir og Ylfa Marín Haraldsdóttir sem voru bráðskemmtilegar í hlutverkum lögreglukvenna) rétt slefa þær yfir Bechdelprófið, í miðri lofræðu um kynþokka Vals fjárfestis nefnir önnur að hún hafi líka farið í veiðiferð. Senan virðist ekki gegna neinu öðru hlutverki en að tikka í Bechdelprófsboxið en rétt skal vera rétt og Síðasta veiðiferðin stenst prófið. Einnig má að geta þess að myndin er gerð án opinberra styrkja og því eru efnistök Markellsbræðra algerlega á þeirra ábyrgð og þeir standa og falla með sínu verki. Þetta er hrútaleg mynd og á að vera hrútaleg mynd enda leikur hrútur nokkuð stórt hlutverk í einum af fjölmörgum söguþráðum.

Talandi um Markelsbræður, Þorkel Harðarson og Örn Marinó, þá eiga þeir langan og farsælan feril að baki við gerð heimildamynda og því er allt handbragð mjög fagmannlegt enda valið fólk í hverju rúmi, Bergsteinn Björgúlfsson kvikmyndatökumaður hefur löngu sannað frábæra hæfni sína, hann hefur næmt auga fyrir því fallega í íslenskri náttúru og má hrósa honum sérstaklega fyrir atriði þar sem Þröstur Leó leikur á móti hestastóði. Svo má, og þarf reyndar að taka fram að hljóðvinnsla og upptaka Árna Þorbjarnar Gústafssonar er sérstaklega góð, hvert einasta orð og hljóð skýrt og skiljanlegt sem er ekki alltaf raunin í íslenskum kvimyndum og sjónvarpsefni.

Síðasta veiðiferðin er afskaplega fyndin mynd og skemmtileg áhorfs, langt frá því að vera gallalaus en það er mikilvægt að hlæja á vorum tímum, að ógleymdri þeirri nautn sem felst í áminningunni um skærgrænt og sólbjart íslenskt sumar sem virðist svo ógnar fjarri þessa dagana.

Sjá nánar hér: Litlir hrútar á lækjarbakka

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR