Gamanmyndahátíð Flateyrar heldur gamanmyndakeppni á netinu

Gamanmyndahátíð Flateyrar hefur ákveðið að setja af stað keppni þar sem keppendur fá 48 klukkustundir til að fullklára gamanmynd. Keppnin er öllum opin og hægt er að skrá sig til leiks nú þegar.

Keppnin gengur út á það að gera gamanmynd á aðeins 48 klukkustundum. Árið 2019 hélt Gamanmyndahátíð Flateyrar slíka keppni á Flateyri með gamansömum árangri og er ætlunin að endurtaka leikinn, en nú í gegnum vefsíðu hátíðarinnar sökum þess ástands sem ríkir í heiminum.

Klukkan 20:00 þann 27. mars fá skráð lið send til sín nákvæmari upplýsingar um keppnina og þurfa liðin að skila inn tilbúnni gamanmynd fyrir klukkan 20:00 þann 29. mars. Dómnefnd mun velja fyndnustu stuttmyndirnar sem verða birtar opinberlega þar sem landsmenn fá að kjósa fyndnustu 48 stunda gamanmyndina.

„Það hefur sjaldan eða aldrei verið betri tími til að reyna að sjá það skemmtilega og spaugilega í lífi okkar og deila með náunganum. Við vonumst til að þátttaka verði góð, bæði á meðal þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref í kvikmyndagerð, sem og hjá þeim sem starfa við fagið. Enda fá önnur verkefni í gangi þessa stundina og því kærkomið að leyfa sköpunarkraftinum að njóta sín með því að setja saman stutta og skemmtilega gamanmynd.“

Fyndnasta gamanmyndin að mati landsmanna fær að launum Canon EOS M50 4k myndavél ásamt 15-45mm linsu frá Reykjavík Foto. Þá fá öll lið sem komast í úrslit í 48 stunda gamanmyndakeppnina tvö hátíðararmbönd á Gamanmyndahátíð Flateyrar sem fer fram dagana 13-16 ágúst 2020.

Nánari upplýsingar um keppnina og skráningu má finna hér.

Sjá nánar hér: Gamanmyndahátíð Flateyrar heldur gamanmyndakeppni á netinu

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR