spot_img

Frá KMÍ vegna COVID-19

Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur sent frá sér tilkynningu vegna kórórnaveirufaraldursins og þeirra áhrifa sem hann hefur á kvikmyndagerðina.

Í tilkynningunni sem birtist á vef KMÍ segir:

Þessir óvenjulegu tímar sem Covid-19 veldur snerta kvikmyndagerðina eins samfélagið í heild sinni. Starfsemi kvikmyndahúsa og annarra menningarstofnana raskast verulega og kvikmyndahátíðin Stockfish hefur þurft að aflýsa nánast öllum viðburðum hátíðarinnar og frumsýningum nýrra mynda er frestað.

Kvikmyndahátíð og markaði í Cannes hefur verið frestað fram á sumar. Mörgum íslenskum myndum og aðstandendum þeirra hafði verið boðin þátttaka á öðrum alþjóðlegum kvikmynda- og sjónvarpshátíðum sem átti að halda núna á vormánuðum en hefur verið frestað eða aflýst. Þar með riðlast allar áætlanir um sölu og dreifingu sem kemur niður á þeim framleiðendum og leikstjórum sem eiga í hlut fjárhagslega og einnig varðandi þróun og fjármögnun annarra verkefna.

Í ljósi tilmæla sóttvarnalæknis og almannavarna verður erfitt að vinna við tökur á viðamiklum verkefnum og munu kvikmyndagerðarmenn í mörgum tilvikum tilneyddir að hætta við eða fresta verkefnum. Sama á við þjónustu við erlend tökulið sem höfðu boðað komu sína til landsins.

Sérstaða kvikmyndagreinarinnar er m.a. sú að hún byggir að mestu á vinnu sérhæfðra verktaka og sjálf framleiðslufyrirtækin eru oftast lítil með afar fáa fasta starfsmenn, flest aðeins 1 til 3. Auk þess á kvikmyndagreinin sér ekki heimili sem byggir á föstum starfsmönnum eins og aðrar lykillistgreinar, t.d. leikhús, söfn og sinfónían.

Það er því ljóst að flestir sem hafa sérhæft sig í kvikmyndagerð verða fyrir verulegum tekjumissi. Á það hefur verið bent og stjórnvöld muni skoða stöðu þeirra sem starfa í listgreinum sérstaklega og eru nú þegar undirbúnar aðgerðir á vinnumarkaði til að milda mestu höggin. Mennta- og menningarmálaráðuneytið skoðar ýmsar lausnir og möguleika í samvinnu við önnur ráðuneyti. Aðgerðir munu verða kynntar á næstunni um leið og þær liggja fyrir.

Kvikmyndamiðstöð

Við hjá KMÍ munum leita allra leiða til að koma til móts við þau sem eru með styrkvilyrði og tilneydd að breyta fyrri áætlunum vegna ástandsins sem ríkir þessar vikurnar. Sama á við erlenda sjóði sem Ísland er aðili að, þar eru einnig skoðaðar útfærslur til að sveigja tímaáætlanir með hag framleiðenda í huga og minnka fjárhagslegan skaða sem fyrirtækin kunna að verða fyrir vegna veirunnar.

Opið er fyrir umsóknir í Kvikmyndasjóð og fjallað um þær. Áhersla verður lögð á handrit og þróunarstyrki á næstunni en ætla má að allar framvindu- og tökuáætlanir verði óljósar þar til við sjáum fyrir endann á núverandi ástandi. Einstök mál verða skoðuð og metin út frá hvað nýtist þeim og allri greininni sem best á meðan óværan gengur yfir. Við vonumst til að vera í nánu sambandi við forsvarsmenn félaganna í kvikmyndagerð um áherslur og að hlera góðar hugmyndir. Mál hafa þróast mjög hratt og rétt er að taka á málum jafnóðum og skýr mynd fæst af stöðunni hverju sinni.

Starfsfólk KMÍ vinnur að mestu heima en við vonumst til að starfsemin raskist sem minnst þótt einhverra truflana megi vænta t.d. vegna áhrifa af lokun skóla og leikskóla á vinnutíma.

Núverandi staða er óvænt og nokkuð sem engan hefði órað fyrir. Vonandi tekst okkur að taka þannig á málum að skaðinn verði sem minnstur.

Sjá nánar hér: Frá KMÍ vegna COVID-19

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR