Haukur Már Helgason um LAST AND FIRST MEN: Þegar myndinni lýkur, lýkur öllu

Haukur Már Helgason skrifar um Last and First Men eftir Jóhann Jóhannsson á vef sinn Hús og skrifar meðal annars: „Þegar leið á verkið og endurtekningu grunnstefanna, þá leitaði á mig sorg, eða spurning um sorg: hvernig bregst maður við grun um að hafa, með nokkurri viðhöfn, verið dreginn í fjölmennan sal til að taka þar á móti einnar kvikmyndar löngu sjálfsvígsbréfi?“ Hann fjallar einnig um spurningar og svör eftir sýningu myndarinnar þar sem ýmislegt áhugavert kom fram um hvernig verkið varð til.

Í pistli Hauks segir:

Fyrstu myndrammar verksins Last and First Men – Hinstu menn og fyrstu – eftir Jóhann Jóhannsson, voru þeir sterkustu sem ég hef séð á hátíðinni hingað til. Sláandi fagrir og vildu mér eitthvað nýtt.

Svarthvítur myndrammi, steinsteypt form ber við himin fyrir miðjum ramma. Við bætist tónlist sem mig skortir forsendur til að greina af viti – minimalísk, mónótón, drónkennd, draumkennd – lúmskt margradda en stefnir á núll. Eða 1. Kannski stefnir hún á 1. Og loks kvenmannsrödd sem hefur mál sitt á að kynna sig, hún tali til okkar úr framtíðinni, nánar til tekið frá því 20 þúsund milljón jarðárum eftir okkar daga. Ef ég man rétt. Þúsundir milljóna ára voru það.

Fyrst hugsar maður: a, Kubrick! En þegar kvenröddin hefur mál sitt víkur Kubrick fyrir Chris Marker. Fasið og talandinn minnti í það minnsta mig mjög á röddina sem les yfir kvikmyndaða bréfið Sans Soleil. Og það er líka eitthvað skylt með viðfangsefnum þeirra. Kvenrödd þessarar myndar talar um framtíð mannkyns, kynbætur, þriðja augað sem nýja mannfólkið er með og vísar beint upp í himin, hún talar um endalok sólar, leit að öðrum sólum eða plánetum sem „beri hugsun“, hún segir að stærsta framfaraskref mannkyns, fyrir hennar tíð en eftir okkar, sé að yfirstíga tungumálið með beinum hugsanaflutningi, hóphug. Og hún talar um hnignun og yfirvofandi endalok, þráðlausa sambandið milli huga fólks sé að syngja sitt síðasta, þau hafi orðið að grípa til fornfálegra, hljóðrænna tákna á ný, nú sé merkið orðið óskaplega veikt, líka merkið milli hennar og okkar, varla að hún nái sambandi. Hún vildi biðja okkur um eitthvað, en ég man ekki hvað það var.

Á meðan halda steinsteyptu formin áfram að birtast, snúast og hverfa, tónlistin að dróna. Kvikmyndin er öll sett saman úr þessum þremur þáttum: steinsteyptu formunum, tónlist og kvenröddinni sem ávarpar okkur. Endrum og eins fær kvenröddin mynd, sem græn lína á sveiflusjá, eins og tækið heitir á íslensku, oscilloscope. Þessi innlit sveiflusjárinnar eru þó meira eins og greinarmerkjasetning en efnisleg viðbót.


Þetta er kvikmynd sem þarf sal. Þú þarft að sitja föst eða fastur –  ef þú reynir að horfa á þessa mynd við tölvuskjá í eldhúsinu muntu alltaf skyndilega muna eitthvað annað brýnt sem þú ættir að vera að gera. Að verk þarfnist tiltekins rýmis er ekki galli á því.


Titill verksins vísar til samnefndrar vísindaskáldsögu eftir Olaf Stapledon sem kom út árið 1930. Ef ég skil rétt er allur textinn sem kvenröddin les, erindi hennar við okkur, fenginn úr bókinni. Sú staðreynd breytir nokkru um þýðingu ákveðinna smáatriða, til dæmis áhrif þess að heyra orðið „climate“ í miðjum ljóðrænum átökum, orð sem nú er svo þvælt að það ljóð er vandfundið sem myndi ekki kikna undan nálægð við það. (Já, umræðan er sannarlega þörf en hún er líka eins og myglusveppur.) En Stapledon skrifaði um loftslagshörmungar löngu áður en þær áttu erindi við heiminn utan skáldskapar. Hér er orðið tímaferðalangur, hér er það nýtt.


Merkjasendingin slitnar, mannkyn líður undir lok, ég vildi biðja ykkur um eitt, hvað var það aftur? Þegar leið á verkið og endurtekningu grunnstefanna, þá leitaði á mig sorg, eða spurning um sorg: hvernig bregst maður við grun um að hafa, með nokkurri viðhöfn, verið dreginn í fjölmennan sal til að taka þar á móti einnar kvikmyndar löngu sjálfsvígsbréfi? Þegar myndinni lýkur, lýkur öllu. Ekki einföld sorg, nei, ég varð satt að segja svolítið reiður.


Að frumsýningunni lokinni voru haldnar pallborðsumræður. Þar sátu Þórir Snær Sigurjónsson, framleiðandi, Yair Elazar Glotman, sem lauk við tónsmíðina í verkinu, Sturla Brandth Grøvlen, kvikmyndatökumaður, og Mark Bukdahl, klippari, auk spyrils.

Spurningar úr sal beindust ítrekað að steinsteypunni sem fyllti næstum hvern einasta myndramma verksins. Hvers vegna var höfunda skúlptúranna ekki getið á kreditlistanum, spurði maður sem sessunautur minn bar kennsl á sem þekktan gagnrýnanda frá Balkanskaga. Góð spurning, já, góð hugmynd, svöruðu þátttakendur í pallborðinu. Höfum það í huga. Næst sagði ung kona: „Það er skrítið fyrir okkur, frá fyrrum Júgóslavíu, að horfa á þessa mynd því við vitum hvað skúlptúrarnir merkja“. Og þriðji aðili í sal bætti við: „Þetta eru ekki bara einhver fagurfræðileg form heldur vitnisburður um tiltekið líf, minnisvarði um þúsundir sem dóu á einum stað, um unnin afrek á öðrum.“

Ég fer með þetta eftir minni, en inntak allra þessara spurninga og athugasemda var þetta: Formin sem birtast í myndinni, og sem allt myndmál hennar grundvallast á, eru ekki ótilgreindar utanheimsfurður heldur tiltekin verk, tiltekinna höfunda, frá dögum Titos í fyrrverandi Júgóslavíu.

Þórir Snær, framleiðandi myndarinnar, tók þessum ábendingum vel en hann gat ekki svarað þeim efnislega, gat ekki tekið ábyrgð á verkinu fyrir hönd höfundarins. Jóhann var vel lesinn, sagði hann, og eldklár, og vissi áreiðanlega sjálfur vel hvað honum gekk til með þessu vali.


Tónlistarmaðurinn, Glotman, minntist á það snemma í pallborðsumræðunum hvernig þrír grunnþættir verksins, hljóð, mynd og orð, birtust þar sem jafnokar, fléttust saman og skiptust á að hafa yfirhöndina, en stæðu ekki í stigveldi eins og tíðkast í kvikmyndum, að myndefnið hafi forystu og aðrir þættir þjóni því. Þessi einfalda lýsing bætti nokkru við skilning minn á samsetningunni. Og ég held að samsetning sé mögulega nothæft hugtak hér, eða þá smíð, hvernig sem fólk vill þýða composition. Upphafsmaður verksins var tónskáld, hann kompósaði það. Valdi þættina og setti þá saman.

En þegar upp er staðið gerði hann það ekki, eða hvað? Jóhann Jóhannsson lést frá þessu verki, ókláruðu. Og raunar mátti skilja á þátttakendum í pallborðinu að nokkuð langt hafi verið í land: Jóhann hafði þegar leikstýrt og tekið upp lestur Tildu Swinton á texta verksins, valið myndefnið, sett saman styttri skissu úr grófum myndskeiðum, mælt fyrir um í hvaða hljóðbanka skyldi leita eftir umhverfishljóðum. Og tónsmíðunum til grundvallar lágu hugmyndir, stef og þættir sem Jóhann hafði deilt með samverkamanni sínum. Úr þessu verður hins vegar verkið til á klippiborði allt annars manns, án nærveru þess sem er sagður höfundur þess. Og klipparinn, Mark Bukdahl, sagði rammheiðarlega í pallborðsumræðunum að hráefnið hefði mátt setja saman á hundrað vegu, hann hafi farið í gegnum það með trial-and-error aðferð, ekkert annað hafi verið hægt: mátað saman skot við skot við orð við hljóð, eitt af öðru, þar til úr varð þessi tiltekna mynd, verkið eins og það var frumsýnt í Berlín á þriðjudag.

Þarna liggur kannski fínlegri nálgun á hvað hún er, þessi mynd. Kannski er hún sálumessa skáldsins. Veraldleg sálumessa, jarðbundin eins og steypuklumpar sem teygja sig til himins. Og kannski ber frekar að líta á þá messu sem ólokið verk – verk sem ólíkir höfundar gætu nálgast og lokið við með ólíkum hætti. Í dag var borin á borð ein nálgun á verkið. Og það er nokkur gjöf. En hugsanlega þráir sálumessan remix.

Sjá nánar hér: Brú, tal | Ritari: Haukur Már Helgason | Hús

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR