spot_img

[Kitla] Heimildamyndin “Ljósmál” frumsýnd 9. nóvember

Við tökur á Langanesi, hjá vitanum Fonti.

Heimildamyndin Ljósmál eftir Einar Þór Gunnlaugsson verður frumsýnd í Bíó Paradís 9. nóvember, en almennar sýningar hefjast daginn eftir. Myndin er um sögu vita á Íslandi.

Í kynningu segir meðal annars:

Með tilkomu vitabygginga hófst iðnbyltingin á Íslandi, þær kröfðust tækniþekkingar og verkkunnáttu og fengu fyrstu íslensku hönnuðurnir, arkitektar og verkfræðingar tækifæri til að láta ljós sitt skína. Kvikmyndagerðarmenn heimsækja vita á Íslandi og er rakin vitasaga Íslands í fyrsta sinn í einstakri heimildarmynd. Íslenskir vitar laða að sér bæði heimamenn og ferðamenn en þeir eru margir í stórfenglegu umhverfi og geyma auk þess óvænta sögu um hvernig Ísland varð númtímasamfélag. Þeir fanga ímyndunaraflið og eru endalaus innblástur um fortíð, framtíð og sögu.

Saga íslenska vitans er líka ung, en það var ekki fyrr en árið 1878 sem fyrsti vitinn við strendur landsins var byggður. Það var á Reykjanesi, en uppbyggingu vitakerfisins lauk með byggingu Hrollaugseyjavita um miðja 20. öld og þá var ljósvitahringnum um landið lokað. Það voru viðskiptasjónarmið þeirra sem ráku verslunarskip sem sigldu milli Íslands og Evrópu sem kom vitavæðingunni á rekspöl en vissulega var dramatískur mannskaði íslenskra sjómanna við strendur landsins mikil hvati fyrir að bæta öryggi sjómanna. Árið 2003 var þess minnst að 125 ár voru liðin frá því fyrst blikkaði vitaljós á Íslandsströndum en við það tilefni voru fyrstu sjö vitar landsins friðaðir. Með vitavæðingunni má líka segja að iðnbyltingin hafi komið til Íslands, en bygging vita krafðist nýrra verkkunnáttu og notkun steinsteypu t.d. hófst þá hér á landi. Einnig fengu hönnuðir og arkitektar tækifæri til að láta ljós sitt skýna og ber fjöldi vita merki um áhrif þeirra á íslenska byggingalist. Nú eru ljósvitar á Íslandi alls 104 að tölu en þá er ótalinn fjöldi innsiglingar- og hafnarvitar í eigu og umsjá sveitarfélaga.

Einar Þór stýrir verkinu, Haraldur Sigurjónsson klippir og Gísli Galdur gerir músik.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR