Morgunblaðið um „Síðasta haustið“: Annar taktur

Karl Blöndal skrifar í Morgunblaðið um heimildamyndina Síðasta haustið eftir Yrsu Roca Fannberg, en myndin er nú sýnd í Bíó Paradís. Karl gefur myndinni fjórar stjörnur og segir hana fallegan og eftirminnilegan minnisvarða um líf á hjara veraldar.

Karl skrifar:

Það er annar taktur í lífinu í Árneshreppi á Ströndum en gengur og gerist, ótruflaður af skarkala og ati samtímans. Þeim fækkar jafnt og þétt, sem eru tilbúnir að helga sig búskap á þessum slóðum. Í myndinni Síðasta haustið fylgjumst við með Úlfari Eyjólfssyni og Oddnýju Þórðardóttur, bændum á Krossnesi og þeirra daglega lífi. Þau hafa ákveðið að bregða búi og eru að undirbúa að sækja fé af fjalli í síðasta skipti.

Myndin hefst á svarthvítum myndum af voldugum skýjabólstrum og hrjóstrugri náttúru og yfir er lesið ljóð, sem vísar til upphafs alls og hringrásar lífsins. Þetta upphaf gæti verið tilvísun til þess að frá upphafi vega hefur mannkynið verið upp á náttúruna komið eða þá að á þessum slóðum hefur verið búskapur við erfið skilyrði svo öldum skiptir.

Myndin er tekin á filmu í hlutföllunum 4:3 líkt og hún væri gerð fyrir lampasjónvarp á liðinni öld. Hér er hvorki háskerpa á ferðinni, né vænghaf breiðtjaldsins, hvorki loftmyndir úr drónum né aðrar æfingar og það skilar sérstakri áferð og hófstillingu, sem hentar efninu fullkomlega.

Náttúran verður ekki eins og á póstkorti eða í kynningarmyndbandi fyrir ferðamenn, heldur samtvinnuð viðfangsefninu, hluti af hversdagstilverunni.

Frásögnin í Síðasta haustinu er hæg, en um leið grípandi. Úlfar fer niður í fjöru að sækja rekavið, sem hann notar til að gera við fjárhúsin. Hann rær til fiskjar. Oddný reiðir fram siginn fisk í matinn og skyr með bláberjum. Þegar leitir nálgast koma barnabörnin í heimsókn og una sér hið besta í sveitinni.

Helstu vísbendingarnar um veröldina fyrir utan þeirra veröld eru samtöl barnanna um lífið á félagsmiðlum netheima og Rás 1 í Ríkisútvarpinu, sem hljómar í eldhúsinu og fjárhúsinu. Þar má heyra dánartilkynningar og viðtöl þar sem einn viðmælandi hefur meðal annars áhyggjur af því að það geti orðið afdrifaríkt fyrir íslenskuna haldi enska áfram að ryðja sér til rúms í daglegu tali, ekki síst í heimi netsins og snjalltækjanna. Þessi innrás enskunnar er víðs fjarri veruleikanum í eldhúsinu á Krossnesi.

Nokkur uppbrot eru í myndinni. Þegar féð er sótt á fjöll verður hraðaskipting. Tónlist er sparlega notuð, en undir atriðum þar sem fé rennur af fjalli og gangnamenn og smalahundar stökkva fimlega á eftir því yfir urð og grjót heyrist skruðningatónlist.

Einn helsti styrkleiki Síðasta haustsins er að sagan er sögð án þess að fara út fyrir efnið. Það er ekkert farið út í virkjanamál, sem örugglega hafa verið efst á baugi í hreppnum á þessum tíma, enda hefði þetta þá orðið allt önnur mynd. Ferðamennskan mætir einnig afgangi þótt þarna sé í túnfætinum Krossneslaug, sem dregur örugglega að flesta ferðalanga á þessum slóðum.

Fyrst og síðast sjá þó hjónin á Krossnesi til þess að myndin gangi upp. Þau ganga í sín daglegu störf án þess að láta myndavélar og tökulið hafa minnstu áhrif á sig og sú tilfinning vaknar aldrei að þau séu að leika fyrir myndavélina eða láti hana hrekja sig inn í skel. Það er rétt eins og þau hafi aldrei gert annað en að koma fram á hvíta tjaldinu.

Í Síðasta haustinu segir frá heimi á undanhaldi. Vorið áður en tökur hófust fyrir þremur árum birtist frétt í Morgunblaðinu um að bændum í Árneshreppi myndi að fækka um 30% við að bændur á þremur bæjum, Bæ, Finnbogastöðum og Krossnesi, myndu bregða búi þá um haustið. Í fréttinni Sagði Pálína Hjaltadóttir á Bæ að mikið þyrfti að breytast ætti enn að vera heilsársbyggð í Árneshreppi eftir tíu ár. Síðasta haustið er fallegur og eftirminnilegur minnisvarði um líf á hjara veraldar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR