Jón Viðar Jónsson um „Héraðið“: Spennandi og formúlukennd átakamynd

Jón Viðar Jónsson leikhúsgagnrýnandi tjáði sig á dögunum um kvikmyndina Héraðið eftir Grím Hákonarson. Hann segir Grími „takast býsna vel að búa um þetta spennandi og formúlukennda átakamynd um klassískt minni, baráttu einstaklings gegn voldugu og spilltu ofurefli.“

Jón Viðar skrifar:

Kona fer í stríð hét bíómynd sem hér var sýnd í fyrra. Nú hefur Grímur Hákonarson, höfundur Hrúta, sent frá sér mynd um aðra konu sem fer í annað stríð, að þessu sinni við kaupfélagið sem drottnar yfir sveitinni hennar. Þó að þessu stríði geti eiginlega bara lyktað á einn veg tekst Grími býsna vel að búa um þetta spennandi og formúlukennda átakamynd um klassískt minni, baráttu einstaklings gegn voldugu og spilltu ofurefli. Þetta er dægilegasta afþreying sem undir lokin rambar einhversstaðar á milli tragískrar ádeilu og „fílgúddmyndar“ (sem við eigum víst ekkert gott orð um); hvoru megin hún lendir eftirlæt ég öðrum að úttala sig um. Leikendur eru allmargir amatörar og leikur þeirra misjafn eftir því; Grímur virðist ekkert sérstaklega lunkinn persónuleikstjóri, enda býr hann víst ekki að þeirri leikhúsreynslu sem dugað hefur mörgum kvikmyndaleikstjóranum vel. Arndís Hrönn Egilsdóttir er mjög góð í burðarhlutverkinu og svo er reyndar um flesta atvinnuleikarana, ekki síst Sigga Sigurjóns (og kom fáum á óvart) í hlutverki vonda kallsins í Kaupfélaginu. Þó að myndin eigi sín góðu móment (einkum í fyrri hlutanum) er þetta ekki mynd á borð við snilldarverkið Hrúta, enda sjálfsagt til of mikils ætlast að höfundur toppi sig svo skömmu síðar.

Jón Viðar bætir svo við á öðrum þræði stuttu síðar:

PS Mig langar til að bæta því við stuttan pistil minn um myndina hér á þræðinum að Hinrik Ólafsson skilaði sérlega góðum leik í hlutverki bóndans. Einstaklega trúverðugur sem þessi þögli duli íslenski sveitakall sem birgir sterkar tilfinningar undir hrjónóttu ytrabyrði, útjaskaður af þrældómi, íþyngdur af vondri samvisku. Vel valið í hlutverkið af Grími og mjög vel gert hjá Hinrik sem ég er ekki frá því að hafi fallið um of í skuggann af stóra bróður. Er kannski að komast út úr honum nú.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR