Jón Viðar segir Hlyn ekki kunna að leikstýra – framleiðendur nota ummælin í kynningu

Jón Viðar Jónsson leikhúsgagnrýnandi finnur Hvítum, hvítum degi eftir Hlyn Pálmason flest til foráttu á fésbókarsíðu sinni. Framleiðendur myndarinnar hafa tekið sum ummæla Jóns Viðars og notað í kynningarherferð verksins.

Jón Viðar segir:

Hin nýja mynd Hlyns Pálmasonar, Hvítur hvítur dagur, staðfestir það sem mig grunaði eftir að hafa séð fyrri mynd hans Vinterbrödre: að hann kann ekki að búa til bíómyndir. Hann kann að finna mótíf handa myndavélinni og fanga þau í stökum áhrifaríkum myndum (sem hann notar fimm fyrstu mínútur myndarinar til að sanna fyrir áhorfendum), en hann kann ekki að raða útkomunni þannig saman að út úr því komi eitthvað sem vekur áhuga eða fangar hug manns. Hann kann ekki að skrifa leikræn samtöl. Hann kann ekki að skapa persónur. Hann kann ekki að segja dramatíska sögu. Hann kann ekki að leikstýra. Allt þetta mætti kannski fyrirgefa ef honum lægi sýnilega eitthvað mikið á hjarta. En um hvað fjallar þessi mynd eiginlega? Sorgarferli miðaldra manns sem botnar að endingu í einberum kynórum? Ef einhver getur útskýrt fyrir mér lokaatriði myndarinnar á annan hátt væri það vel þegið. Nei, það er leitt að þurfa að segja það: þessi mynd býður upp á fátt annað en yfirþyrmandi leiðindi og tilgerð. „Uppgjör“ þeirra Ingvars og Hilmis Snæs í gröfinni fer beint á topp fimm listann yfir misheppnuðustu atriði íslenskrar kvikmyndasögu. Þegar maður hefur slysast inn á svona leiðinlega mynd er besta ráðið til að jafna sig að setjast fyrir framan sjónvarpið og horfa á David Suchet leika Poirot. Og það skiptir mann nákvæmlega engu máli þó að það sé í hundraðasta skipti sem maður sér hann gera það.

Framleiðendur myndarinnar hafa tekið upp sum ummæli Jóns Viðars og notað í stutta klippu sem er hluti af kynningarherferð myndarinnar:

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR