Umsagnir um VITJANIR

Sýningum á þáttaröðinni Vitjanir í leikstjórn Evu Sigurðardóttur er lokið á RÚV. Af einhverjum ástæðum hefur enginn fjölmiðill enn séð ástæðu til að birta umsögn um þættina en leiklistargagnrýnandinn kunni, Jón Viðar Jónsson, skrifar um þá á Facebook síðu sinni.

Reyndar er sama uppá teningnum með flestar aðrar íslenskar þáttaraðir, umsagnir um þær birtast mjög sjaldan í fjölmiðlum, sem verður að teljast einkennilegt.

Strangt til tekið eru skrif Jóns Viðars ekki formleg gagnrýni en sökum skorts á henni er vísað til þeirra. Áður en vikið er að Jóni Viðari skal gripið niður í aðra Facebook umsögn frá Jóni Özuri Snorrasyni kennara, en hann gerir skort á umræðu um þættina meðal annars að umtalsefni. (Tekið skal fram að þessi skrif tengjast ekki Klapptré á nokkurn hátt).

Ég sé (eða heyri) enga umræðu um VITJANIR. Þáttaröðina á RÚV á sunnudagskvöldum. Frábærlega vel gerðir þættir. Leikurinn og nándin alls staðar. Rammarnir. VERBÚÐIN fékk svo mikla athygli. En svo birtist þessi þáttaröð um lækni sem er að skilja við glataðan eiginmann og fer til Hólmafjarðar. Sem er kannski Grundarfjörður eða Hólmavík eða Stykkishólmur. Skiptir ekki máli frekar en þegar HKL eða Heinesen bjuggu til sín þorp.

Og hittir fortíðina og nútíðina og framtíðina. Ást og heimilisofbeldi. Náttúrulækningar og bros í ljósu hári og einstaklega fallegum augum. Gömul kona sem býr yfir djúpri þekkingu og gleymsku aldanna. Alkahólisminn í lok síðasta þáttar var stórkostlega vel gerður. Vá. Andstæðurnar milli sonar og móður og það sem var svo tæpitungulaust við þetta atriði var algerlega tæpt. Allt á tæpasta vaði. Gengið úr einu horni heimilisins í annað að safna flöskum. Og yfirborðið svo fínt.

Ég dreg aðeins fram viðbrögð af handahófi. Frábært sjónvarpsefni. Takk fyrir. Leikurinn, leikstjórnin, hugmyndin (svo einföld á yfirborðinu) en verður svo djúp í leiknum og túlkuninni. Faflan yrði (úr íslenskudeild Hí) – Kona (læknir) flytur til heimabæjar síns eftir skilnað við eiginmann sinn og horfist í augu við…

Gaman og takk fyrir aðstandendur þessarar þáttaraðar. Alger gæði.

Og hér er umsögn Jóns Viðars Jónssonar:

Það er nú meira hvað landsbyggðin er allt í einu orðin íslenskum sjónvarpsmönnum mikil efnisuppspretta. Fyrst kemur Ófærð (sem er nú vonandi loksins orðin fær), svo gýs Katla (en við tölum nú ekki meir um það enda vantaði þar sérskaftfellska ráðgjöf sem hefði örugglega bætt verkið jafnvel þótt hún kæmi bara úr heitum potti), og nú í vetur hin umtalaða Verbúð sem mér finnst satt að segja nóg talað um að sinni.

Og ekki nóg með það: á Stöð 2 var í vetur sýndur hörkufínn krimmi, Svartir sandar eftir Baldvin Z, Ragnar Jónsson og Aldísi Amah Hamilton, mjög spennandi (svoldið teygður kannski í miðbikið) en ekki verður sagt að hann hafi vakið með manni mikla löngun til að flytja út á land. Það er svosem ekki heldur hægt að segja um Vitjanir sem hafa verið að birtast í Ríkissjónvarpinu síðustu vikur og eiga nú, föstudag fyrir Hvítasunnu, einn þátt í land.

Nú má hver dæma fyrir sig, en ég, fyrir mína parta, hef haft langmest gaman af Vitjunum. Ég þekki því miður ekki til þess kvennateymis sem stendur að baki þeim, en það leynir sér ekki að þetta er alvörufólk sem bæði kann að segja sögu í þessu listformi, kann til verka í sviðsetningu, myndvinnslu oþh og vandar sig í hvívetna. Hefur þar á ofan ágætan húmor. Formúlur og fyrirmyndir eru vissulega margar kunnar, en hvað gerir það til ef heildarmyndin er þokkalega trúverðug og leikurunum tekst að blása lífi í persónurnar? Þeir eru hér mjög vel valdir, sýnist mér og frammistaða þeirra heilt á litið til fyrirmyndar.

Einhverjir verulega betri en aðrir? Eiginlega ekki – og þó. Jói Jóhannson (hét hann ekki einhverntíma Jóhann G. Jóhannsson?) brillerar sem Raggi lögga, hann hefur aldrei fyrr sýnt slíka takta, en ég hef ugglaust ekki séð allt sem hann hefur gert). Virðist í fyrstu heldur vonlaus lúði, fastur í lífi sem hann er alls ekki sáttur við, en sækir svo í sig veðrið þegar á líður, enda tólfsporamaður undir traustri handleiðslu Þrastar Leós sem er auðsæilega pottþéttur AA trúnaðarmaður. Hann, ásamt Kolbrúnu Önnur Björnsdóttur (+ fjölskyldu) eiga einna mestan þátt í að lyfta leiknum þegar fram í sækir uns hann nær að verða beinlínis áhrifamikill í hörmungum sjötta og sjöunda þáttar.

En fleiri gera það gott. Vala Þórsdóttir er dásamlega fyndin sem grasalæknirinn sem lifir að hálfu leyti í álfheimum – hver þekkir ekki svona eilífðarhippa og kuklara? Eða hina sjúklega stjórnsömu systur sem Steinunn Ólína teiknar upp af fullkomnu öryggi, sama öryggi og hún sýndi í hlutverki hinnar alkóhóliseruðu móður í Svörtum söndum. Katla Njálsdóttir er líka mjög góð sem dóttirin og ekki verra að sjá rosknar stórleikkonur blómstra eins og þær gera Helga Jónsdóttir og Ragnheiður Steindórsdóttir. Er annars nokkuð fallegra í leiklistinni en rosknir leikarar og jafnvel aldraðir sem allt í einu fá að skina? Sara Dögg gerir Kristínu líka góð skil, en persónan nær einhvern veginn ekki að fanga áhuga manns eða samúð, eins þótt hún sé í óttalegri tilvistarkrísu og viti varla hvaða sambandi hún er að fara úr eða koma í. Getur annars hugsast að persónan eigi sér fyrirmynd í bandarískri sápu á Netflix, Virgin River, sem fjallar einmitt um hjúkrunarkonu í svipaðri aðstöðu? Ekki svo að skilja, konan er ekkert verri fyrir það, það er bara svo erfitt að þola til lengdar fólk sem aldrei getur ákveðið sig (sbr Hamlet sem ég hef aldrei fílað almennilega, ekki frekar en TS Eliot og fleiri góðir menn).

Það verður forvitnillegt að sjá hvernig Eva Sigurðardóttir og félagar landa dramanu í síðasta þætti. Og mér kæmi mjög á óvart yrði þar ekki opnað á amk aðra röð í viðbót. Þó víða sé komið við er naumast nokkur skortur á nýtilegum söguefnum á Hólmafirði eða nágrannabyggðum (ég sé að fólk nefnir hér eldgos eða einhverjar náttúruhamfarir, það gæti eflaust bjargað einni seríu í bland við annað). Aðalatriðið er að þetta kvennateymi stillir sér nú með sóma upp við hliðina á þeim „stórveldum“ sem fyrir eru í bransanum og vekur vonir um enn meiri grósku í listinni.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR