spot_img

Ásgeir H. Ingólfsson skrifar frá Karlovy Vary um „Hvítan, hvítan dag“ og „Síðasta haustið“

Ásgeir H. Ingólfsson fjallar um Hvítan, hvítan dag eftir Hlyn Pálmason og Síðasta haustið eftir Yrsu Roca Fannberg í Tengivagninum á Rás 1, en báðar voru sýndar á nýafstaðinni Karlovy Vary hátíðinni í Tékklandi.

Ásgeir segir um Hvítan, hvítan dag:

Framan af lifir myndin á góðum leik og frábærri myndbyggingu Hlyns – þótt hann sé á kunnuglegum söguslóðum íslenskra bíómynda þá myndar hann þær allt öðruvísi en allir aðrir íslenskir leikstjórar. Senur eru rammaðar inn á sérstakan hátt og það er eitthvað magnþrungið að gerast í nánast hverjum einasta ramma. Rétt eins og í Vetrarbræðrum, fyrri mynd leikstjórans, þá er hvíti liturinn í aðalhlutverki – en allt öðruvísi hvítur. Í Vetrarbræðrum var kalklitaður hvítur litur námunnar í forgrunni, meginlandshvítur, hér er það hvítur himinn og þokukennt landslag – og þótt sumum myndi virðast þetta svipaðir litir þá fá þeir allir sinn sérstaka karakter í báðum myndum.

Ingimundur gæti vel að merkja ekki verið ólíkari Emil, aðalpersónu Vetrarbræðra. Emil er ungur væskill, Ingimundur er miðaldra rumur. En báðir eru birtingarmynd eitraðrar karlmennsku, sitt hvor hliðin á sama peningnum, fulltrúar sitt hvorrar kynslóðarinnar. Karlmennska Ingimundar er þó ekki nærri því jafn eitruð, það þarf mikil áföll til að skrímslið birtist – en það er nú þarna samt. Kannski er það í okkur öllum. Þetta er nánast eins og táknsaga um hvernig Ingimundur nær að sætta tröllið og manninn í sjálfum sér og á endanum er það barnabarnið Salka sem hjálpar honum mest í því verkefni. Kennir honum að það er í góðu lagi að öskra þegar maður þarf að öskra. Ída Mekkín er náttúrutalent og fer létt með að skapa skemmtilegan karakter – og á einhverjum tímapunkti vitrast manni hversu stór hluti myndarinnar fjallar um þetta sérstaka traust sem myndast á milli afans og barnabarnsins – og það hvernig það virðist líklegt til þess að lifa nánast hvað sem er af.

Ingvar E. hefur aldrei verið betri

Og jú, trúið mér þegar ég segi: Ingvar E. hefur grínlaust aldrei verið betri í bíómynd. Það sem meira er, Hilmir Snær er líka í myndinni, í litlu en mikilvægu hlutverki. Þegar Ingvar og Hilmir voru að hefja rúmlega áratugalangt skeið sitt sem helstu stjörnur íslenskra kvikmynda fyrir tæpum aldarfjórðungi sáust tvær miðaldra Hollywood-stjörnur í fyrsta sinn saman á hvíta tjaldinu. Þeir Robert DeNiro og Al Pacino höfðu verið tveir virtustu leikarar Hollywood á áttunda áratugnum og í byrjun þess níunda, en tjaldið hafði fram að þessu ekki rúmað þá báða í einu – þangað til þeir mættust í uppgjörssenu í hinni mögnuðu glæpamynd Heat. Þetta er ekki alveg jafn klippt og skorið með Ingvar E. og Hilmi Snæ, þeir hafa vissulega verið saman í mynd áður, jafnvel saman í senum – hópsenum í Englum alheimsins til dæmis. En samt, það hefur vantað stóru senuna. Þangað til núna, þegar hún birtist okkur hér í mögnuðu, drungalegu og harmþrungnu atriði aftur úr grárri forneskju, sem er um leið eins og boxbardagi tveggja stórleikara.

Og um Síðasta haustið skrifar Ásgeir:

Klisjukennd sveit og hinn langdregni dauði

Svo förum við yfir í næsta sal, úr smábænum í sveitina, yfir í Síðasta haustið, heimildarmynd Yrsu Rocu Fannberg sem er hér í aðalkeppninni. Yrsa vann Einarinn á Skjaldborg með frumraun sinni í fullri lengd, hinni frábæru mynd Salóme, mynd sem virtist fyrst fjalla um móður leikstjórans en fjallar í raun aðallega um flókið samband þeirra mæðgna og átök þess sem er bak við myndavélina og þess sem er fyrir framan hana.

En það vantar öll átök í Síðasta haustið, því miður. Íslensku myndirnar báðar, eins og flestar íslenskar myndir sem komast á stórar hátíðir þessi misserin, gerast í þorpinu og sveitinni, þótt yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar sé löngu fluttur á mölina. Þetta er hálfgert hvergiland oft á tíðum, veröld sem var eða veröld sem er alveg að hverfa, myndir fyrir Íslandsstofu og nostalgíuna í sjálfum okkur sem erum flest löngu flutt – ef foreldrar okkar eða afar og ömmur urðu ekki fyrri til. Þetta er lundamyndin sem sjálfstæð listgrein. Það er helst að við fáum að sjá Reykjavíkurmyndir ef þær eru um óforbetranlega dópista.

Saga sem hefur margoft verið sögð

En þótt sögusviðið sé orðið þreytt þá hafa myndirnar ósjaldan fundið nýjar leiðir til þess að gera eitthvað ferskt með formið. Síðasta haustið er hins vegar alveg óttaleg sveitaklisja. Hér er nánast ekkert nýtt. Jú, þetta er eins og nafnið gefur til kynna síðasta haust nokkurra bænda í búskap, en sú saga er eldri en íslenskar kvikmyndir, íslenska sveitin hefur verið að deyja í marga áratugi og er orðið þreyttasta viðfangsefni íslenskra bíómynda fyrir lifandis löngu. Meira að segja útvarpið er orðið klisjukennt, eilíft stagl um dauða íslenskunnar sem er nú samt nánast alls staðar á byggðu bóli meira lifandi en á þessum bóndabæ þar sem muldrið ræður ríkjum.

Afskekktur bóndabær og hverfandi heimur er einfaldlega ekki nóg, eitt og sér. Það er búið að segja þessa sögu margoft og það þarf eitthvað nýtt. Það gæti vel sloppið til ef hér væru forvitnilegar aðalpersónur, aðalpersónur sem maður kemst nálægt, nær einhverri tengingu við eða kveikja að minnsta kosti einhverja forvitni.

Hundurinn stelur senunni

En bændahjónin tvö sem eru aðalpersónur myndarinnar eru skelfing óáhugaverð – og ómögulegt fyrir okkur áhorfendurna að segja til um hvort það skrifast á þau sjálf eða leikstjórann að komast ekki nógu nálægt þeim, fá þau ekki til að opna sig örlítið og leyfa aðeins að glitta í smá persónuleika. Þess í stað er maður fastur í hinu eilífa hummi, þessu „já, já,“ íslensku sveitarinnar, málheltinu sem er vissulega til – ég man alveg eftir að hafa villst inn á svona muldurheimili og þráð það heitast að komast út sem fyrst. En þetta er ekki gott efni í bíó, til þess þarf smá karaktera, manneskjur sem hægt er að tengja við. Hundurinn á bænum, hún Loppa, stelur hins vegar senunni og nær aðeins að nálgast kviku bóndans í örfáar sekúndur. Hún er mennskasta persóna þessarar heimildarmyndar um heim sem ég myndi ekki sjá neitt sérstaklega eftir, ef ég vissi ekki að það sé hægt að finna í honum miklu áhugaverðari ranghala og mannlíf heldur en birtist okkur hér.

Sjá nánar hér: Köngulóarmaðurinn og íslensk tröll í Tékklandi | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR