Ingvar Sigurðsson valinn besti leikarinn á Critics’ Week í Cannes

Ingvar Sigurðsson aðalleikari kvikmyndarinnar Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason hlaut leikaraverðlaunin á Critics’ Week, hliðardagskrá hinnar virtu kvikmyndahátíðar í Cannes. Verðlaunin eru kennd við Louis Roederer Foundation (Louis Roederer Foundation Rising Star Award) og eru önnur aðalverðlaunanna á Critics’ Week sem veitt eru fyrir mynd í fullri lengd.

Hvítur, hvítur dagur verður frumsýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi 6. september 2019.

Hlynur Pálmason leikstýrir og skrifar handritið að Hvítum, hvítum degi en myndin var heimsfrumsýnd þann 16. maí síðastliðinn. Myndin fjallar um lögreglustjórann Ingimund sem hefur verið í starfsleyfi frá því að eiginkona hans lést óvænt af slysförum. Hann einbeitir sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og afastelpu, þar til athygli hans beinist að manni sem hann grunar að hafi átt í ástarsambandi við konu sína. Fljótlega breytist grunur Ingimundar í þráhyggju og leiðir hann til róttækra gjörða sem óhjákvæmilega bitnar einnig á þeim sem standa honum næst.

Myndin hefur hlotið mikið lof og fengið frábæra dóma hjá hinum ýmsu virtu kvikmyndatímaritum á borð við CineuropaScreen International og The Hollywood Reporter. Þá hafa gagnrýnendur farið fögrum orðum um leik Ingvars: „Ingimundur er heillandi og áhugaverður karakter, meistaralega dreginn upp af Ingvari Sigurðssyni“ segir í Screen International.

Sjá nánar hér: Ingvar Sigurðsson valinn besti leikarinn á Critics’ Week í Cannes

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR