Heimildamyndin „Síðasta haustið“ valin á Karlovy Vary

Yrsa Roca Fannberg.

Heimildamyndin Síðasta haustið eftir Yrsu Rocu Fannberg hefur verið valinn til þátttöku í keppni um bestu heimildamyndina á Karlovy Vary hátíðinni í Tékklandi. Þetta er önnur heimildamynd Yrsu, sem hlaut Nordisk Panorama verðlaunin fyrir frumraun sína Salóme.

Hátíðin fer fram dagana 28. júní til 6. júlí.

Rammi úr Síðasta haustinu.

Síðasta haustinu er svo lýst:

Þar sem vegurinn endar lengst norður á Ströndum stendur bærinn Krossnes. Þar hefur fjárbúskapur verið stundaður kynslóð fram af kynslóð í hundruðir ára. Úlfar bóndi er jafn mikill hluti af landslaginu eins og Krossnesfjallið sjálft. Þetta er síðasta haustið sem hann og Oddný kona hans smala fé sínu í réttir og þar með endar búskapur í Krossnesi á Ströndum. Enn eimir eftir af gamla Íslandi en síðustu bændurnir sem stunda búskaparhætti að gömlum sið munu brátt heyra sögunni til.

Yrsa Roca stýrir og skrifar handrit ásamt Elínu Öglu Bríem. Hanna Björk Valsdóttir er framleiðandi fyrir hönd Akkeri Films. Carlos Vásquez Méndez annast töku og Federico Delpero Bejar klippir. Björn Vikorsson er hljóðmeistari og Gyða Valtýsdóttir semur tónlist.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR