Hollywood Reporter um „Hvítan, hvítan dag“: Áræðinn leikstjóri sem veita ætti athygli

Rammi úr Hvítum, hvítum degi eftir Hlyn Pálmason (Mynd: Join Motion Pictures).

Gagnrýnandi Hollywood Reporter er hrifinn af Hvítum, hvítum degi Hlyns Pálmasonar sem nú er sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Í dóminum segir að Hlynur sé áræðinn leikstjóri sem rétt sé að veita athygli.

RÚV segir frá:

Hollywood Reporter birti um liðna helgi dóm um myndina. Þar segir að Hvítur, hvítur dagur sé óhugnanleg kvikmynd og sumir gætu átt erfitt með að fylgjast með aðalpersónunni Ingimundi og vaxandi árásarhneigð hans. Gagnrýnandinn segir Hlyn vera áræðinn leikstjóra sem veigri sér ekki við að storka áhorfendum. „[Hlynur] Pálmason sýnir hér aðdáunarverða löngun til að sökkva sér í aðalpersónu myndarinnar og sársauka hennar. Sambærileg saga sem ætti sér stað í stórborg gæti varpað ljósi á einangrun og firringu. Í litlu samfélagi þar sem allir þekkja alla og allir eiga sín einkaerindi áratugum saman verður í staðinn til allt önnur dýnamík. Hér eru ekki mörg leyndarmál.“

Frammistaða Ingvars E. Sigurðssonar, sem fer með aðalhlutverkið í myndinni, hefur áður verið lofuð af gagnrýnendum. Gagnrýnandi Hollywood Reporter er sömuleiðis hrifinn og segir að Ingvar sé sterklega vaxinn og einkar tilkomumikill í hlutverki sínu.

Í lokaorðum dómsins segir að myndin sé áhrifamikil, og þá sérstaklega fyrri hluti hennar. „[Hlynur] Pálmason beitir frásagnaraðferð sem er bæði áhrifamikil og nýstárlega úthugsuð, sem gerir hann hann að hæfileikamanni sem veita ætti athygli.“

Sjá nánar hér: Áræðinn leikstjóri sem veita ætti athygli | RÚV

Hér er svo annað brot úr myndinni:

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR