Friðrik Þór gerir mynd um forboðið samband Steins Steinarrs og Louisu Matthíasdóttur

Friðrik Þór Friðriksson stefnir á tökur á nýrri mynd sinni Drepum skáldið (Kill the Poet) á haustmánuðum. Myndin fjallar um forboðið samband skáldsins Steins Steinarrs og málarans Louisu Matthíasdóttur á fimmta áratug síðustu aldar.

Sagan gerist í New York og Reykjavík og byggir á sönnum atburðum. Guðrún Edda Þórhannesdóttir framleiðandi lýsir verkefninu svo í viðtali við vef Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins:

“Þetta er rómantískt drama í anda Rómeo og Júlíu. Louisa var af efnafjölskyldu í Reykjavík og fór til New York að nema myndlist, meðan Steinn var sárfátækur og áreittur af yfirvöldum vegna róttækra skoðana sinna og meinað að ferðast til Bandaríkjanna.”

Guðrún Edda og Friðrik Þór framleiða fyrir Hughrif ásamt Margréti Hrafnsdóttur og Jóni Óttari Ragnarssyni sem jafnframt skrifar handritið.

Þorvaldur Kristjánsson (Svanurinn) og Anita Briem (Journey to the Center of the Earth) fara með hlutverk listamannanna, en hinn víðkunni leikari Christopher Plummer mun einnig fara með hlutverk í myndinni.

Áætlað er að kostnaður nemi rúmum hálfum milljarði króna og vonast framleiðendur til að klára fjármögnun í Cannes síðar í maí.

Sjá nánar hér: A-list cast to Icelandic projects from Gudrún Edda Thórhannesdóttir

Sjá einnig viðtal við Friðrik Þór um verkefnið og fleira hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR