Rætt um „Ófærð 2“ í Lestarklefanum

Ingvar E. Sigurðsson í Ófærð 2 (Mynd: Lilja Jónsdóttir/RVK Studios).

Erla Björg Gunnarsdóttir, Oddný Eir Ævarsdóttir og Hrafn Jónsson ræddu um nýafstaðna aðra syrpu Ófærðar í Lestarklefanum á Rás 1.

Úr spjallinu:

Almenn ánægja með nýafstaðna Ófærð ríkti meðal þeirra Erlu Bjargar Gunnarsdóttur, Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur og Hrafns Jónssonar í síðasta Lestarklefa en sá síðastnefndi taldi að handritshöfundar hefðu leyst úr öllum þráðum nema einum. Morðinu á Ásgeiri.

„Ég hef verið að melta þetta með mér síðan í lokaþættinum og í raun og veru í gegnum alla seríuna, mögulega fyrstu seríuna líka, hvernig maður nálgast Ófærð? Hverjar eru væntingarnar? Hvernig manni fannst takast til,“ segir Hrafn Jónsson kvikmyndagerðarmaður. Hrafn segir að hér sé ekki framleitt það mikið af leiknu sjónvarpsefni, því síður þáttaraðir af þessari stærðargráðu og það fylgi því sá baggi að hálf þjóðin setjist fyrir framan skjáinn.

„Það fylgja því þær óraunhæfu væntingar að vera rosalega mikið fyrir rosalega marga. Maður fær því tilfinninguna í Ófærð 2 að það hafi þurft að snerta á mjög mörgum flötum,“ segir Hrafn og nefnir að víða hafi verið farið í stórum málefnum í þáttunum. Komið var inn á stóriðju, náttúruvernd, öfgahægristefnu, spillingu og rasisma en þau málefni hafi svo ekki endilega spilað stórt hlutverk í lokaplottinu. „Hvað varðar væntingarnar, ef þú tekur Ófærð sem fínni glæpaseríu, þá tókst hún bara vel upp. Mér leið eins og að það væri verið að leysa úr einhverju þarna. Það er kannski það sem beðið er um í sams konar seríum, að það komi einhver lausn á einhverju. Hvort leiðin að lausninni hafi verið fullkomin, við getum rætt það frekar en serían svona kláraði allt nema einn hlut. Það er morðið á vini okkar og sálufélaga, honum Ásgeiri,“ segir Hrafn Jónsson.

Rithöfundurinn Oddný Eir Ævarsdóttir greip orðið varðandi stóru málefnin sem komið var inn á í þáttunum. „Ég var mjög gagnrýnin til að byrja með á handritið, það var svona pólítískt atriði, ekki beinlínis listrænt. Einhver minntist á hið listræna frelsi. Það fór sem sagt í taugarnar á mér að náttúruverndarsinnar skyldu vera gerðir að nýnasistum í leiðinni,“ segir Oddný Eir sem segist sjálf hafa lent í því að fá á sig álíka stimpil, þegar hún starfaði hve mest við umhverfisvernd fyrir nokkrum árum. „Þetta var svolítið púkalegt en ekkert svo skýrt í lokin. Það er kannski ekki hægt að krefjast samfélagslegrar ábyrgðar hjá handritshöfundum, þeir eiga að hafa listrænt frelsi, en mér fannst eins og þeir hefðu mátt hugsa þetta betur. Landsbyggðin var ansi þunglyndisleg. Minnti mann á myndina Skammdegi. Þetta var ansi nöturlegt allt saman, krakkarnir í sjoppunni og ekkert skapandi starf. Ekki beint neitt skemmtilegt í gangi,“ segir Oddný Eir sem naut þess að horfa á Ófærð 2 og lofaði frammistöðu Sólveigar Arnardóttur auk annarra leikara. „Ég horfði á þetta í litlum skjá og mér fannst eins og myndatakan hafi verið flott en get kannski ekki dæmt um það.“

„Það hefur verið máluð upp sú mynd að landsbyggðarfólk sé alltaf til í stóriðju til að halda uppi lífi og störfum, þannig að þetta var svolítið skemmtilegt tvist,“ segir Erla Björg Gunnarsdóttir fréttastjóri Stöðvar 2 um bændurna sem reyndust miklir umhverfisverndarsinnar. „Ég verð að viðurkenna með kröfurnar, að ég er svo lítið kröfuhörð. Ég er svo þakklát fyrir íslenskt sjónvarpsefni, svo þakklát fyrir línulega dagskrá sem fjölskyldan horfir á saman. Ég verð svo nostalgísk þegar maður mætir í vinnuna daginn eftir og allir horfðu á það sama, það gerist varla lengur. Þetta er samfélagslega svo mikilvægt að hafa svona dagskrárlið sem að allir eru að tala um daginn eftir. Við færum það meira að segja í nútímann, með því að fólk er að tísta og tala saman á Facebook með heilu þræðina að tala um söguþráðinn um leið og það gerist. Það hittir nútíminn línulega dagskrá,“ segir Erla Björg sem segist jafnframt hafa horft á Ófærð með opnum huga og hafi ekki verið sérlega gagnrýnin. Hún hafi notið þess að sjá íslenska leikara gera vel á skjánum í faðmi íslensks landslags.

Fjölmargir áhangendur Ófærðar syrgðu persónu Ingvars E. Sigurðssonar, lögreglumannsins Ásgeirs og vildu þónokkrir meina að örlög hans hafi ekki verið nægilega útskýrð. „Það er svolítið skilið eftir í lausu lofti hvort Stefán hafi myrt Ásgeir, hann kemur aðeins inn á það en handritshöfundar vilja greinilega halda öllu opnu. Það má alveg tala um Ásgeir í víðara samhengi, því að Ingvar E. gerir honum það góð skil. Hann verður svona költfígúra úr þessum þáttum og ef hann deyr bara svona þá er það leiðinlegur missir. Þó að hann fái ekki alltaf eins mikið að gera þá er hann eiginlega dýpsti karakterinn. Breyskasta persónan,“ segir Hrafn um karakterinn Ásgeir sem er sárt saknað af áhorfendum Ófærðar 2.

Sjá nánar hér: Ófærð leysti úr öllum þráðum nema einum

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR