Viðmælendur Lestarklefans um SÍÐUSTU VEIÐIFERÐINA: Aldrei séð svona nekt í íslenskri kvikmynd

Það vakti athygli viðmælenda Lestarklefans á Rás 1 hve langt er gengið í nektarsenum karla í Síðustu veiðiferðinni, nýrri íslenskri gamanmynd, en myndin er margbrotnari en í fyrstu blasir við.

Þetta kemur fram á vef RÚV og þar segir einnig:

Síðasta veiðiferðin er ný íslensk gamanmynd eftir Örn Marinó Arnarson og Þorkel Harðarson, sem leikstýra og skrifa handrit. Myndin segir frá veiðiferð sex karla á miðjum aldri sem fljótlega fer úr böndunum og fer landslið íslenskra karlleikara með aðalhlutverk í myndinni.

Rætt var um Síðustu veiðiferðina í Lestarklefanum, umræðuþætti um listir og menningu, þar sem tveir viðmælendanna, Sigurður Árni Sigurðsson listmálari og Áslaug Hulda Jónsdóttir bæjarfulltrúi voru kunnug heimi íslenskrar veiðimennsku. Þriðji viðmælandi þáttarins, Lovísa Rut Kristjánsdóttir dagskrárgerðarkona á Rás 2, var ekki svo heppin og játaði að hún hefði að öllum líkindum ekki farið á myndina ef hún hefði ekki verið beðin um það. Myndin kom henni skemmtilega á óvart og blessunarlega ekki skilyrði að vera innvígð í afmarkaðan heim miðaldra karlmanna í veiðiklúbbum til að hafa gaman af henni. „Ég skemmti mér bara reglulega og hló mikið. Salurinn hló svakalega mikið og oft. Það litaði upplifun mína líka, það skemmtu sér allir mjög vel.“

Gestir Lestarklefans eru sammála um að myndin minni um margt á rassaköst danska tvíeykisins í Klovn en í Síðustu veiðiferðinni er gengið óvenju langt í nektarsenum karlanna. „Það er varla til íslensk kvikmynd án þess að það séu naktir karlmenn,“ segir Áslaug Hulda, „en maður hefur samt aldrei séð þetta svona – svona lengi og svona mikið.“ Nektarsenurnar geti meira að segja boðið upp á femínískar vangaveltur bætir hún við. „Það eru allir að tala um hvernig birtingarmynd kvenna í bíómyndum sé bara ákveðin gerð kvenna. Ég fór að hugsa um það í þessari mynd að þetta á kannski ekki bara við um konur.“

Sigurður Árni segist vissulega hafa farið í margar veiðiferðir og upplifað ýmislegt í þeim. Myndin fjalli vitanlega um veiðiferð, eðli málsins samkvæmt, en hún leyni á sér. „Þetta er ekki veiðimynd,“ segir hann, „mér finnst alveg eins hægt að líta á þessa mynd sem mynd um vináttu og lokaðan vináttuhóp. Það er hægt að fara í ferð til Manchester á fótboltaleik og alveg sömu hlutir gerast.“ Gestir Lestarklefans eru sama sinnis um að myndin snúist á vissan hátt um stéttaskiptingu. „Þetta er mynd um vinahópinn og hvernig hann byggist upp. Og í öllum vinahópum er stéttaskipting. Mér finnst það svo fallegt. Jú, hún gerist í veiðikofa í veiðiferð – en hún er miklu stærri en það þessi mynd.“

Lokaniðurstaða hópsins er að þó Síðasta veiðiferðin bjóði ekki endilega upp á bestu myndatökuna eða fallegustu myndirnar þá séu það persónurnar sem mynda hryggjarstykkið í henni, og það sem þær snertir sé vel leyst. Stemningin sé góð, handritið vel skrifað og leikurinn framúrskarandi.

Sjá nánar hér: Aldrei séð svona nekt í íslenskri kvikmynd

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR