Lestin um SÍÐUSTU VEIÐIFERÐINA: Farsakennd fyllirísferð sem fjarar út þegar á líður

„Síðasta veiðiferðin á sína spretti. Brandararnir eru þó misgóðir og þegar upp er staðið er það einvalalið leikara sem heldur henni uppi,“ segir Gunnar Theodór Eggertsson á Lestinni um kvikmynd Þorkels Harðarsonar og Arnar Marinós Arnarsonar.

Gunnar segir:

Síðasta veiðiferðin er ný íslensk gamanmynd eftir Örn Marinó Arnarson og Þorkel Harðarson, sem skrifa handrit og leikstýra saman. Þar segir frá karlahópi sem fer í fjögurra daga veiðiferð með tilheyrandi drykkju, rifrildum, metingi, gleði og vináttuhótum. Mennirnir eru ólíkir á ýmsa vegu, ekki síst hvað varðar stöðu og samfélagsstétt, en vinahópurinn brúar bilið frá fátækum félögum í mínus hjá bankanum sem þurfa að rusla í matinn, yfir til ríkisbubbans sem kaupir nýjan jeppa sérstaklega fyrir þessa ferð – því ekki gengur að konan sé á porschinum – og gerir lítið úr því þegar hann brýtur óvart vínkassa sem er hálfrar milljónar króna virði. Túrinn er ekki fyrr hafinn þegar drykkjan byrjar og hún heldur áfram og stigmagnast út í gegn, eftir því sem ferðin leysist jafnt og þétt upp í óreiðu og reyna tekur á vinaböndin.

Síðasta veiðiferðin er karlamynd, því verður ekki neitað, og virkar eins og hálfgerð tímaskekkja hvað það varðar. Auðvitað er hægt að gera mynd um vinahóp miðaldra karla en ég var alltaf hálfpartinn að vonast til þess að myndin krafsaði aðeins undir yfirborð karlmennskunnar hjá þeim félögum, sýndi fram á meiri dýpt en bara fyllerí og almenn dólgslæti. Það eru nefnilega alls konar áhugaverðir undirtónar til staðar í sögunni sem hefði mátt vinna betur með, þótt það sé vissulega vísir að þeim í nokkrum atriðum og aðallega hjá ákveðnum karakter. Sagan forðast að mestu leyti að velta fyrir sér afleiðingum eða víðari tengslaheimi sem þessir menn tilheyra og gott og vel, það má vera að það sé hugmyndin, að láta þessa míkróveröld standa eina og sér og fá að njóta sín sem slík, en fyrir mér sem áhorfanda var það ekki nóg efni í heilsteypta bíóupplifun, því mér þótti vanta meira upp á dýptina í annars ágætlega vel heppnuðum fylleríisfarsa.

Kvenpersónur eru fjarverandi í sögunni og óbein viðvera þeirra ristir ekki mikið dýpra en svo að þær eru einhvers konar fjarlæg ógn sem þarf að fela sukk og framhjáhald fyrir. Áhugaverðir þræðir sem ná út fyrir veiðikofann eru kynntir til leiks snemma í myndinni en ekki teknir upp aftur, s.s. barneignir fjárfestisins, en hann á von á barni og á að halda símanum opnum sama hvað, efni sem hverfur síðan alveg úr sögunni, og einnig má nefna persónu Halldóru Geirharðs, lögreglukonu sem stoppar þá á leiðinni norður. Ég beið þess með eftirvæntingu að hún sneri aftur inn í söguna, enda virtist hún hafa alla burði til þess að banka upp á hjá körlunum – en hún gufar upp að sama skapi. Engar kvennanna fá nógu mikinn tíma eða pláss til að vera meira og annað en frásagnartól umfram sögupersónur, enda sendir myndin skýr skilaboð í upphafi þegar karlarnir kveðja konurnar sínar – og við áhorfendur gerum slíkt hið sama. Annar undirtónn sem ég saknaði að finna meira fyrir var stéttaskiptingin sem er fyrir miðju í vinahópnum, því þar er efni sem hefði mátt kafa betur ofan í til að gera myndina bitastæðari.

En Síðasta veiðiferðin á sína spretti og ég hló nokkuð reglulega, þótt brandararnir væru misgóðir, og grínefnið oft fyrirsjáanlegt (glíma og samkynhneigð, ofbeldi gegn dýrum, hlaupið um á adamsklæðunum) – en það er fyrst og fremst leikaraliðið sem heldur myndinni uppi, því þetta er einvala lið og allir skína þeir í hlutverkum sínum. Það skiptir öllu máli í svona mynd að áhorfendur nenni að hanga með aðalpersónunum og hér er vel raðað í hlutverk. Sérstaklega hafði ég gaman af Jóhanni Sigurðarsyni, sem á líklega besta atriði myndarinnar þegar hann segir baksögu sína við matarborðið, og Hjálmari Hjálmars og Þresti Leó í glettnum rónahlutverkum innan um allt snobbið í Þorsteini Bachman. Hilmir Snær er líklega venjulegasti náunginn í hópnum, en Halldór Gylfason er í mikilvægu hlutverki sem undirlægjan sem fylgir fjárfestinum hvert fótmál.

Myndin er sögð byggja á sannsögulegum veiðiferðum og eflaust sækir margt þarna í raunveruleikann, en ég átti þó von á að myndin gengi töluvert lengra í ruglinu en hún gerir, miðað við hvað skriðþunginn er góður fyrri hluta myndar. Sá skriðþungi hreif mig með inn í ferðalagið, mann sem hefur forðast veiðiferðir eins og heitan eldinn allt mitt líf, og það tengist held ég fyrst og fremst hvað leikararnir eru góður félagsskapur. En svo missir partíið og fylleríið einhvern veginn dampinn þegar líða tekur á og tilraunir myndarinnar til að verða absúrd eða yfirgengileg ná ekki sérstöku flugi. Líklega hefði þurft að fá meiri anarkíu í kvikmyndagerðina sjálfa til að halda dampi partísins, eða ganga lengra með dramað sem kraumar undir yfirborðinu og fær aldrei almennilega útrás. Fyrir vikið þótti mér ferðalagið fjara dálítið út eftir því sem á leið, en það er kannski bara raunsæisleg túlkun á veiðiferð þegar uppi er staðið.

Sjá nánar hér: Farsakennd fyllirísferð sem fjarar út þegar á líður

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR