Ólafur de Fleur Jóhannesson um „Malevolent“ og Netflix: Þetta er nýi völlurinn

Ólaf­ur með leik­ur­un­um Ben Lloyd-Hug­hes, Florence Pugh, Georg­ina Bev­an og Scott Cham­bers (Ljós­mynd/​Gra­eme Hun­ter).

Hrollvekjan Malevolent, í leikstjórn Ólafs de Fleur Jóhannessonar, verður frumsýnd á streymisveitunni Netflix á morgun, föstudag. Morgunblaðið ræddi við hann í tilefni þessa.

Úr viðtalinu:

Ansi langt er um liðið frá því síðast spurðist til Ólafs og engu lík­ara en hann hafi lagst í híði. Blaðamaður ræddi síðast við hann í maí árið 2015 og þá um sömu kvik­mynd sem reynd­ar hét þá Hush og átti að vera með ann­arri leik­konu í aðal­hlut­verki, Sophie Cook­son. Eins eins og geng­ur í kvik­mynda­brans­an­um breytt­ust áætlan­ir, Cook­son reynd­ist of upp­tek­in fyr­ir verk­efnið og önn­ur leik­kona var því fund­in í henn­ar stað og titli kvik­mynd­ar­inn­ar var líka breytt. Tök­ur hóf­ust svo árið 2016.

En hvar hef­ur Ólaf­ur eig­in­lega verið?

„Ég þaggaði aðeins niður í mér og lærði að lesa og skrifa upp á nýtt,“ svar­ar hann, kát­ur að vanda. Hvað á hann við með því? „Það er búið að vera mikið álag á mér, eins og geng­ur og sér­stak­lega eft­ir að ég skaut þessa mynd. Ég ákvað því að fara bara að æfa mig í að skrifa kvik­mynda­hand­rit.

Ég var bú­inn að gera mikið af því en langaði til að end­ur­ræsa mig og tók mér góðan tíma í að hreinsa pall­ett­una og læra þetta upp á nýtt. Þetta hef­ur verið rosa­lega gef­andi og ég hef verið að skrifa mikið,“ svar­ar Ólaf­ur. Bæði hafi hann skrifað fyr­ir sjálf­an sig og fengið góð verk­efni er­lend­is frá sem hann sé að vinna í þessa dag­ana.

Mar­in­er­ing­in er mik­il­væg

Ólaf­ur seg­ir langt ferli að baki Malevo­lent, nýir leik­ar­ar hafi m.a. verið fundn­ir og hand­ritið betr­um­bætt áður en ráðist var í tök­ur. Að þeim lokn­um tók svo klipp­ing­in við og stóð yfir í eina 18 mánuði með hlé­um. „Þessi mar­in­er­ing­ar­tími ger­ir oft gæfumun­inn,“ seg­ir Ólaf­ur um þenn­an langa tíma sem mynd­in var í klippi­her­berg­inu.

– Mar­in­er­ing­in er líka lyk­il­atriði þegar maður er að grilla …

„Jú, jú, ná­kvæm­lega og það er ekki oft sem það er hægt en þarna var það bless­un­ar­lega hægt,“ seg­ir Ólaf­ur. All­ur gang­ur sé á því hversu lang­an tíma klipp­ing taki í kvik­mynda­gerðarferl­inu. „Yf­ir­leitt eru þetta þrír mánuðir sem maður fær í leik­stjóraklippið og svo tek­ur ann­ar klipp­ari við. Svo kem ég inn aft­ur og sá þriðji og svo geng­ur þetta bara hægt og ró­lega,“ út­skýr­ir hann.

Ólaf­ur seg­ir það hafa verið áhuga­verða reynslu að vinna í banda­rísku kvik­mynda­batte­ríi og geta ein­beitt sér al­farið að leik­stjórn­inni. Hann hafi oft­ast fram­leitt sjálf­ur sín­ar kvik­mynd­ir og bless­un­ar­lega getað sleppt þeim hluta kvik­mynda­gerðar­inn­ar að þessu sinni.

[…]

Nýi völl­ur­inn

„Þetta er bara nýi völl­ur­inn,“ seg­ir Ólaf­ur um sýn­ing­ar­vett­vang kvik­mynd­ar­inn­ar, hina gríðar­vin­sælu streym­isveitu Net­flix. „Aðgengi er orðið svo rosa­lega gott að þetta verður varla mikið betra, að kom­ast upp á svona svið,“ bæt­ir hann við.

– Hef­urðu fengið fleiri verk­efni út á þessa kvik­mynd?

„Það á bara eft­ir að koma í ljós,“ svar­ar Ólaf­ur sem er að vanda með nokk­ur verk­efni á teikni­borðinu. „Ég hef verið að skrifa og líka kenna svo­lítið hand­rita­skrif. Svo hef ég verið að æfa fólk í kvik­mynda­leik, litla hópa,“ seg­ir hann.

En hvert er næsta leik­stjórn­ar­verk­efni Ólafs de Fle­ur Jó­hann­es­son­ar? „Ég er að fara að gera heim­ild­ar­mynd í Los Ang­eles á næsta ári og svo er ég bara að skoða nokk­ur verk­efni,“ seg­ir Ólaf­ur. Um heim­ild­ar­mynd­ina vill hann sem minnst segja að svo stöddu.

Sjá nánar hér: „Verður varla mikið betra“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR