RIFF 2018: Bjórþambandi Dani og Hollywood-ungstirni

Ásgeir H. Ingólfsson skrifar um RIFF hátíðina og helstu gesti hennar á vef sinn Menningarsmygl. RIFF stendur frá 27. september til 7. október.

Ásgeir skrifar meðal annars:

Þegar gengið er um Kastrup-flugvöll í Kaupmannahöfn blasir þar við manni flennistór mynd af Mads Mikkelsen, svolgrandi Carlsberg-bjór. Stærsti leikari Norðurlanda og þekktasti bjórinn á sömu mynd. En þótt Mads hafi mögulega frekar vafasaman smekk á bjór (eða hafi fengið svívirðlega vel borgað fyrir myndatökuna) þá hefur hann góðan smekk á hlutverkum – að minnsta kosti þegar myndirnar eru Evrópskar.

Stjarna hans skein hvað skærast í upphafi áratugar, þegar mynd með honum í aðalhlutverki var tilnefnd sem besta erlenda myndin á óskarnum tvö ár í röð – og fyrir þá seinni var hann valinn besti leikarinn á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Og eftir að hafa séð þessar tvær með stuttu millibili þá íhugaði ég alvarlega hvort Mikkelsen væri að stimpla sig inn sem besti leikari samtímans.

RoyalAffairFyrri myndin var Kóngaglenna (En kongelige affære), þar sem hann leikur þýskan lækni Danakonungs, Struensee, sem er þó öllu uppteknari af ástarsambandi sínu við óhamingjusama drottninguna. Þau trúa bæði á upplýsinguna, þótt sú Danmörk sem þau byggja virðist rækilega föst í neti myrkra miðalda. Þrátt fyrir ástarmálin þá verður hann á endanum bandamaður konungs, sem hefur í raun hvorki vilja né burði til að sinna skyldum sínum, og þannig verður Struense í raun skuggakonungur Danmerkur og kemur á ýmsum framförum.

Þetta er afskaplega góður aldarspegill á Danmörku átjándu aldarinnar og myndin sýnir líka vel bæði breiskni og gæsku allra aðalpersónanna þriggja. Hún forðast auk þess að falla í flestar gryfjur kóngafólksmyndanna á borð við The Queen og The King‘s Speech, andlausrar kvikmyndagreinar sem ég oftast hata eins og allir alvöru lýðræðissinnar.

Það var svo lítt þekkt sænsk leikkona sem lék drottninguna, Alicia Vikander, sem síðar meir hefur hlotið óskarsverðlaun og er nú mögulega frægasta leikkona Norðurlanda.

Jagten.jpgSeinni myndin var var Veiðin (Jagten), ein magnaðasta mynd síðari ára og hátindur ferils Mikkelsens hingað til. Hann leikur þar leikskólakennara sem er ranglega ásakaður um að hafa misnotað eitt barnið – og verður í kjölfarið brennimerktur í litla smábænum sem hann býr í. Myndin sýnir vel hvernig mistök í meðferð svona mála getur undið upp á sig og hvernig smábæjarmenning getur orðið þegar hún er hvað eitruðust. Thomas Vinterberg leikstýrir myndinni, en hann hafði áratug fyrr gert Festen, sem fjallaði um sekan kynferðisbrotamann sem kemst ekki upp um fyrr en áratugum síðar. Þannig eru myndirnar á einkennilegan hátt sama hliðin á sama pening – en það sem situr þó mest í manni er magnaður Mikkelsen, sem sýnir okkur hvernig jafnvel sterkustu menn geta brotnað þegar mannorði þeirra er rústað.

Ungstirni í leit að rétta hlutverkinu

Mikkelsen er meðal verðlaunahafa RIFF og þangað mætir leikkonan Shailene Woodley til að vera í einni af dómnefndum hátíðarinnar, auk þess að vera með masterclass á hátíðinni.

DescendantsWoodley er ein efnilegasta leikkona Hollywood – en satt best að segja gæti Mikkelsen kennt henni ýmislegt um hlutverkaval. Henni skaut hratt upp  á stjörnuhimininn – og enn sem komið er þá eru tvö fyrstu bíóhlutverkin hennar þau langbestu. Hún var mögnuð sem unglingsdóttir George Clooney í The Descendantsog ekki síðri í einni bestu og vanmetnustu unglingamynd þessa áratugar, The Spectacular Now. Hún er töluvert frægari fyrir aðra unglingamynd sem kom seinna, The Fault in Our Stars, sem er svosem ágæt en engan veginn jafn mögnuð og sú fyrrnefnda og óþarflega væmin á köflum.

SpectacularNowÞegar þarna var komið sögu var hún ósjaldan útnefnd arftaki Jennifer Lawrence, sem efnilegasta unga leikkona Bandaríkjanna, og það var í sjálfu sér alveg verðskuldað – en þó einkennilegt að því leyti að það er bara eitt ár á milli þeirra. En eftir nokkur áhugaverð hlutverk í byrjun ferilsins varð Lawrence súperstjarna með unglingafantasíuseríunni The Hunger Games, sem þrátt fyrir ýmsa galla þegar á leið voru heilt yfir fínustu fantasíur. Woodley virtist ætla að feta sömu braut með Divergent – en því miður reyndist sú mynd alveg skelfileg, eins og dauft ljósrit af Hungurleikjunum – og þrátt fyrir að fáir hafi verið uppnumdir yfir fyrstu myndinni var hún búinn að skrifa upp á að leika í hinum tveimur líka.

Sjá nánar hér: Bjórþambandi Dani og Hollywood-ungstirni – Menningarsmygl

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR