Fréttablaðið um „Fulla vasa“: Ungæðislegt strákaflipp

Rammi úr Fullum vösum.

„Hressileg „strákamynd“ sem virkar einhvern veginn betur en maður reiknaði með. Margt gott í gangi og fínn húmor á köflum en sagan er full þvæld,“ segir Þórarinn Þórarinsson í Fréttablaðinu um Fulla vasa Antons Sigurðssonar.

Úr umsögninni:

Sagan er í grunninn sáraeinföld. Arnar Thor er ansi kunnugleg manngerð. Hinn dæmigerði, drjúgi, tungulipri, íslenski athafnamaður og lukkuriddari. Alltaf með stórkostleg plön í gangi, alveg við það að „meikaða“ og græða „böns af monní.“ En er að sjálfsögðu bara greindarskertur apaheili með snert af siðblindu.

Sennilega hefur þessari óþolandi og því miður allt of raunverulegu og algengu staðalímynd ekki verið gerð betri skil en í Íslenska draumnum, eftir Róbert Douglas, og Fullir vasar eru stundum eins og bergmál þeirrar ágætu myndar.

[…]

Tilraunir til þess að stæla frásagnarmáta Tarantinos í Reservoir Dogs og Pulp Fiction eru vandræðalega augljósar og kannski ekki alveg málið fyrir reynslulítinn leikstjóra að fikta við slíkt. Handritinu hefði heldur ekki veitt af því að reyndur yfirlesari hefði kennt höfundinum að beita slípirokknum á verk sitt áður en tökur hófust.

Fullir vasar er alger strákamynd og þótt margt sé vel gert og sniðugt yfirgnæfa karlalæti ungra manna það með bílahasar, byssuleikjum og töffarastælum. Þá er skorturinn á kvenpersónum frekar óþægilegur og þær fáu konur sem fá að vera memm eru allt of staðlaðar fyrir krimma sem gerist á vorum tímum.

Myndin er dálítið bernskt byrjendaverk sem sýnir þó svo ekki verður um villst að þarna eru samankomnir hæfileikamenn sem eiga eftir að slípast, eldast og þroskast. Fjórmenningarnir mega engu að síður vel við una og þeir halda sínu vel í atriðum á móti þungavigtarleikurum sem virðast skemmta sér hið besta í myndinni.

Sjá nánar hér: Fréttablaðið – Ungæðislegt strákaflipp

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR