Þjóðfélag án ástar, spjall við Andrey Zvyagintsev um „Loveless“

Andrey Zvyagintzev.

Ásgeir H. Ingólfsson ræddi við rússneska leikstjórann Andrey Zvyagintsev á dögunum, en mynd hans Loveless (Ástlaus) er sýnd á Stockfish hátíðinni sem nú stendur yfir í Bíó Paradís.

Við erum stödd í Rússlandi. Nánar tiltekið einhvers staðar í úthverfum Moskvu. Ungur drengur er týndur og foreldrarnir tala við lögregluþjón sem virðist ekkert geta gert – fyrr en lögreglumaðurinn játar að í raun sé lögreglan gagnslaus í svona málum. Ef þau vilja finna barnið sitt borgi sig að hafa samband við sjálfboðaliðasamtök sem sérhæfa sig í að finna týnd börn.

Þetta reynast ekki vera einhver lítil samtök amatöra, þvert á móti eru þetta heilar björgunarsveitir mannaðar miklu fagfólki. En þarna birtist manni þjóðfélag þar sem hið opinbera hefur algerlega brugðist skyldum sínum við þegnana – og lögreglan veit það meira að segja sjálf. Hún þarf að treysta á aðra. Við fáum aldrei að vita almennilega hvort það sé vegna þess að hún sé undirmönnuð eða hvort kröftum hennar sé eytt í of mikla vitleysu, sem koma þegnunum ekkert endilega vel. Líklega sitt lítið af hvoru.

„Ég sá grein um þessa sjálfboðaliða, og ég hafði verið að hugsa dálítið um brotnar fjölskyldur – og einhvern veginn smullu þessar tvær hugmyndir saman,“ segir Zvyagintsev mér.

Þessi hugmynd um brotnar fjölskyldur kemur upphaflega frá Ingmar Bergman, en leikstjórinn skoðaði það á sínum tíma að endurgera stutta sjónvarpsþáttaröð Bergmans, Senur úr hjónabandi (Scener ur ett äktenskap). „Okkur tókst ekki að verða okkur úti um réttinn, en hugmyndin leitaði áfram á mig.“ Hugmyndin hefur þó breyst mikið síðan þá og núna er engin Bergman eftir að sögn Zvyagintsev.

Foreldrar týnda drengsins standa í skilnaði og eru bæði komin með nýja maka. Hans vandamál er þó ekki beinlínis að þurfa að velja á milli foreldra sinna, miklu frekar að hvorugt þeirra sýnir honum mikinn áhuga, mann grunar jafnvel að þau hati barnið innst inni. Hann er barnið sem enginn vildi – og foreldrar hans hafa brugðist honum ekkert síður en kerfið, með öðrum orðum, allir sem ættu að bera ábyrgð á honum. Hans eina von eru sjálfboðaliðarnir – og það er dálítið eins og skilaboð myndarinnar séu að eina von Rússlands sé þessi hliðarheimur – þeir sem grípa til aðgerða þegar bæði þjóðfélagið og fjölskyldan bregst. Þegar enginn gerir það sem hann á að gera eru sjálfboðaliðar eina vonin.

Þaðan kemur nafn myndarinnar – þetta er samfélag þar sem ástin virðist í útrýmingarhættu. Нелюбовь er þýtt sem Ástlaus á íslensku, Loveless á ensku – en er það nákvæm þýðing? „Þetta er orð sem er erfitt að þýða, ekki-ást væri kannski nákvæmasta þýðingin. Þetta er afskaplega sjaldgæft orð í rússnesku, þú rekst nánast aldrei á það, sem gerir það einstakt. Þetta er nýtt skref í mannlegum samskiptum. Titillinn „Vígvöllur“ kom einnig til greina, en eftir því sem leið á vinnslu myndarinnar varð ég sannfærðari og sannfærðari um að Ástlaus væri rétti titillinn.“

Kynslóðasaga Rússlands og yfirgefin hótel

Þetta ástleysi er þó ekki alveg nýtt af nálinni, þegar við hittum ömmu drengsins fyrir áttum við okkur á að ástleysið hefur erfst á milli kynslóða. Eða mögulega frekar heift, sem breytist svo í skort af ást. Þannig speglast saga Rússlands í þessum þremur kynslóðum – eða kannski trámað sem þyrnum stráð saga landsins hefur ollið þeim.

Mest heillandi hluti myndarinnar þótti mér þó leitin sjálf. Bæði sjáum við í miklum smáatriðum hvernig svona leit fer fram, um skóglendi og yfirgefnar byggingar – og þessar yfirgefnu byggingar öðlast líf á tjaldinu. Ein yfirgefin hótelbygging var forðum leynistaður stráksins og besta vinar hans og þegar leitarsveitin kembir húsið þá snýst þetta ekki bara um leitina, heldur líka innsýn myndavélarinnar í þennan heillandi heim sem yfirgefin og niðurnídd stórhýsi geta verið.

„Við ræddum mikið við þessar sjálfboðaliðssveitir til að finna rétta húsið. Þessi hús eru oft mjög hættuleg, sem og skóglendið. Þetta húsnæði var síðast notað árið 2007 fyrir brúðkaup – það eru ennþá veggspjöld fyrir brúðkaupið í húsinu,“ segir Zvyagintsev og tekur fram að svona hús megi finna í öllum stærri borgum. En mann grunar samt að myndlíkingin risti dýpra en það, enda Rússland eitt fárra Evrópulanda þar sem fólkinu er beinlínis að fækka og yfirgefnum húsum mun þar af leiðandi sjálfsagt fjölga.

Við ræðum svo aðeins um fjármögnun myndarinnar. Ég vissi að hún hafði ekki hlotið neina styrki frá rússneska ríkinu, enda eru myndir hans iðullega mjög gagnrýnar á rússneskt samfélag. En þá kemur upp úr dúrnum að þess þurfti ekki og þeir reyndu ekki einu sinni að fá slíka styrki. Myndin sem Zvyagintsev gerði á undan þessari, Leviathan, gekk nefnilega svo vel að það var framleiðendunum auðvelt að fá erlenda fjárfesta og vera þar með að engu leyti upp á rússnesk stjórnvöld kominn. Meðal þeirra er belgískt framleiðslufyrirtæki, sem kætti leikstjórann mjög – „því þeir framleiða myndir Dardenne-bræðra,“ segir hann mér og er greinilega afar kátur með þann félagsskap.

Viðtalið er tekið á rússnesku og ensku í gegnum túlk og vont símasamband – og leikstjórinn er á köflum dulur, vill ekkert alltaf fara of djúpt í þá heimspeki eða samfélagsrýni sem sannarlega má finna í myndinni, það er ákveðin fjarlægð eins og í myndinni sjálfri, þótt hún sé af öðrum toga; hann vill halda dulúðinni og leyfa áhorfendum að geta sem mest sjálfir í eyðurnar. Og það geta íslenskir áhorfendur gert núna, myndin er frumsýnd núna í kvöld, sunnudagskvöld, á Stockfish kvikmyndahátíðinni í Bíó Paradís og á svo möguleika á að vinna óskarsverðlaun í nótt. En það er óvíst hvort stjórnvöld í Kreml fagni því ef það gerist.

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR