spot_img

Ísold Uggadóttir: Maður er alltaf að berjast við sjálfan sig

Ísold Uggadóttir (Mynd: Fréttablaðið).

Ísold Uggadóttir ræðir við Fréttablaðið um kvikmynd sína Andið eðlilega sem tekur á hitamálum samtímans, fátækt, flóttamannavandanum og veruleika hinsegin fólks. Myndin verður frumsýnd á Íslandi í mars.

Örstutt brot úr viðtalinu:

Umfjöllunarefni fyrstu kvikmyndar Ísoldar í fullri lengd, Andið eðlilega, eru hitamál samtímans, fátækt, flóttamannavandinn og veruleiki hinsegin fólks. Í myndinni er fléttað saman lífi tveggja kvenna. Íslenskrar, einstæðrar móður sem Kristín Þóra Haraldsdóttir leikur, og flóttakonu frá Gíneu-Bissá, sem er leikin af hinni belgísku Babetida Sadjo. Sögusviðið er Reykjanes.

„Eftir að ég hafði lokið námi mínu hugsaði ég með mér: Nú skrifa ég handrit að kvikmynd í fullri lengd. Þá var ég mikið að leiða hugann að fátækt. Ég var með hugann við hrunið. Ég las um mæður í erfiðum aðstæðum sem enduðu jafnvel á því að búa í bíl. Um fjölskyldur sem misstu heimili sín. Ég var byrjuð að skrifa sögu af konu í þessari stöðu. Móður með barn sem átti kött. Þau neyðast til að búa í bíl.

Á meðan ég er að þróa þennan efnivið verð ég vör við mikla umræðu um flóttafólk. Á þessum tíma var umræðan ný og hún var mjög eldfim. Það fóru að heyrast átakanlegar sögur fólks á flótta sem gerði allt það sem það gat í þeirri aðstöðu sem það var komið í hér, á afskekktri eyju norður í hafi. Fólk lenti hér í eins konar fangelsisdvöl. Á stað sem það vildi kannski ekkert vera á. Eða, ef það vildi á annað borð vera hér, þá fékk það ekki tækifæri til að hefja eðlilegt líf. Það hafði engin réttindi til þess.

Eftir að hafa lesið um þetta í blöðunum fór ég á stúfana og ræddi við fólk í þessari stöðu,“ segir Ísold og segist þá hafa komist að því að sumir hafi ekkert endilega verið á leiðinni til Íslands. Þeir hafi verið á leiðinni af meginlandi Evrópu en millilent hér fyrir hálfgerða tilviljun. Sumir hafi til dæmis verið á leið til Kanada þar sem kerfið þótti betra en víðast annars staðar.

„Um svipað leyti ákvað ég að gerast félagsvinur hjá Rauða krossinum og kynntist þannig konu sem var hælisleitandi frá Úganda. Við urðum vinkonur. Hún flúði heimaland sitt vegna kynhneigðar sinnar. Þetta var á þeim tíma þegar miklar fréttir bárust af fyrirhugaðri lagasetningu þar í landi sem gekk undir nafninu „Kill the gays“,“ segir Ísold en þeir sem voru grunaðir um samkynhneigð gátu átt von á dauðadómi fyrir.

„Þessi mál voru afar eldfim á þessum árum, 2012-2013. Þau eru það enn. En við erum samt orðin vanari þessari erfiðu umræðu. Aðeins ónæmari. Sem er leiðinlegt. En þarna var ég alls ekki orðin ónæm og skynjaði allt mjög sterkt. Þá vissi ég að þetta myndi verða eitthvað sem ég vildi skrifa um.“

Sjá nánar hér: Fréttablaðið – Hafnað í fyrstu tilraun

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR