Árni Ólafur Ásgeirsson: Geimskipið sem opnar fyrir sköpunarkraftinn

Árni Ólafur Ásgeirsson (Mynd: Vísir/Ernir)

Árni Ólafur Ásgeirsson leikstjóri ræðir við Fréttablaðið í tilefni frumsýningar teiknimyndarinnar Lói – þú flýgur aldrei einn.

Úr viðtalinu:

„Ég áttaði mig fljótlega á því að þetta er ekkert svo ólíkt því að leikstýra hverri annarri kvikmynd. Ef þú ímyndar þér senu og í henni eru tvær manneskjur sem sitja við borð og eru að tala saman eins og við núna, þá þarf myndavélin að vera einhvers staðar. Síðan þarf á ákveðnum tímapunkti að ákveða hvenær við klippum úr víða skotinu og yfir í nærmyndina og hina nærmyndina og svo framvegis. Það þarf að útfæra þessa senu listrænt og það er hlutverk leikstjórans.

En auðvitað eru þetta mjög mörg þrep. Við handteiknum hvern einasta ramma áður en við förum með þetta í tölvurnar en áður en að því kemur tökum við upp allar raddirnar og gerum bara útvarpsleikrit. Við gerðum það fyrir tveimur árum úti í London með breskum leikurum vegna þess að frumútgáfan er á ensku. Þetta er gert svona vegna þess að talið og hreyfingarnar á munnunum, eða öllu heldur goggunum í þessu tilviki, þurfa að passa saman. Hreyfast í takt við orðin.

Tvær sekúndur á dag

Þannig að mjög stór hluti af minni vinnu fór fram á fyrstu stigum vinnslunnar. Að leggja alla myndina og taka ákvarðanir sem átti síðan eftir að teikna. Þegar þetta er komið í tölvuna sit ég með kvikurunum, eins og animators eru kallaðir á íslensku, og við setjum tilfinningarnar í andlitsdrættina og hreyfingarnar og í raun tala ég við kvikarana eins og ég sé að tala við leikara. Þessir teiknarar eru ótrúlega hæfileikaríkir og magnað að sjá hvernig þeir ná að fanga tilfinningar. Ég veit ekki hvort fólk gerir sér grein fyrir því hvað það er mikil vinna á bak við þetta vegna þess að með fullkomnasta tölvubúnaði og bestu forritum sem er hægt að fá, svona eins og við erum að vinna þetta í, þá er góður kvikari að skila af sér tveimur sekúndum á dag.

Góð vika er 10 sekúndur og við vorum að gera 90 mínútna mynd,“ segir Árni Ólafur og getur ekki annað en hlegið við tilhugsunina áður en hann bætir við: „Þess vegna fær maður bara eitt tækifæri og enga aðra töku og verður að sjá þetta fyrir sér og það ferli felur í sér heilmikla listræna ákvörðun. Þannig að maður verður bara að rækta búdda­munkinn í sér.“

Gríðarleg tækifæri

Þó að hér sé unnið með erlendum framleiðendum þá er þetta gríðarlega stórt verkefni hvernig sem á það er litið. En skyldi Árni Ólafur hallast að því að það felist tækifæri í alþjóðlega teiknimyndageiranum fyrir íslenska kvikmyndagerð? „Málið er að þetta er fyrst og fremst fjölskylduskemmtun. Myndin sem slík er fyrst og fremst fyrir börn en vonandi geta foreldrarnir komið með og skemmt sér ágætlega. En ef við hugsum aðeins um hvað það eru mörg börn í heiminum sem eru bara að bíða eftir næstu teiknimynd hvort sem hún er í sjónvarpi eða kvikmyndahúsi, þá kemur í ljós að það er í raun ekki búið að rækta þennan markað ýkja mikið og að þarna er fullt af tækifærum.

Það sýnir sig vel á því að þetta er í fyrsta skipti sem ég geri teiknimynd og það er búið að selja hana til 55 landa í kvikmyndahús og það áður en hún kemur út. Hún verður sýnd í bíó í öllum þessum löndum en kaupendurnir hafa ekki einu sinni séð hana, eftirspurnin er svo gríðarleg. Í kjölfar frumsýningar hérna heima sýnum við hana fullkláraða í Berlín eftir mánuð og hver veit hvað gerist þá? En þetta segir okkur hversu stórt tækifæri er í þessum bransa.“

Blóð, sviti og milljarður

Árni Ólafur segir að sagan sem Friðrik hafi skrifað sé tímalaust ævintýri sem geti líka farið auðveldlega á milli ólíkra menningarheima. „Við myndfærum það á nútímalegan hátt en hann er samt að vinna með þessi klassísku minni. Þetta er mynd um vináttu, ástina, það að missa trúna á sjálfum sér og öðlast hana aftur – allt svona klassísk falleg þemu sem eiga alltaf erindi og þá sérstaklega við svona ungar sálir. Þetta er alþjóðlegt.

En síðan gerist það að myndin er talsett á 55 tungumál og þannig að hún er óháð tungumálinu. Ef þú nærð þessu, að vera með góða sögu sem er ekki gísl tungumálsins, þá opnast einhverjar dyr, einhver markaður sem ég hef aldrei kynnst áður. Það var meiriháttar mál að selja mínar fyrri myndir eins og Brim eða Blóðbönd í sjónvarp í útlöndum en þetta er eitthvað allt annað. Eitthvað sem er alveg meira en þess virði að rækta.“

Sjá nánar hér: visir.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR