Heim Bransinn Er myndin þín varðveitt á Kvikmyndasafninu eða á leið í glatkistuna?

Er myndin þín varðveitt á Kvikmyndasafninu eða á leið í glatkistuna?

-

Hér er sáttmálsörkinni komið fyrir á öruggum stað í lok Raiders of the Lost Ark. Kvikmyndasafnið hvetur kvikmyndagerðarmenn til að koma verkum sínum til safnsins hið snarasta.

Kvikmyndasafnið er þessa dagana að minna kvikmyndagerðarmenn á að skila verkum sínum til safnsins – eins og þeim reyndar ber samkvæmt lögum. Ester Bíbí Ásgeirsdóttir, sem hefur umsjón með átakinu fyrir hönd safnsins, hvetur framleiðendur og leikstjóra til að sýna frumkvæði að skilum en vandinn snúi sérstaklega að stafræna tímabilinu sem hófst fyrir áratug eða svo.

Ester bendir á að safnið hafi ekki verið tilbúið að taka við stafrænu efni fyrr en nýlega, en það gangi erfiðlega að fá það inn.

„Fólk er auðvitað upptekið við næstu verkefni eins og skiljanlegt er, en þetta er einnig geysilega mikilvægt. Það væri frábært ef allir sem gert hafa kvikmyndir á síðustu 10-15 árum eða svo tækju frumkvæðið og skiluðu efninu inn, hafi það ekki þegar verið gert,“ segir Ester og bætir við að þetta eigi ekki aðeins við um bíómyndir heldur einnig stuttmyndir, heimildamyndir, leikið sjónvarpsefni og annað.

Hún beinir máli sínu sérstaklega til leikstjóra. „Framleiðendur hafa margir hverjir mörg svona verk í farteskinu eftir ýmsa leikstjóra, en leikstjórarnir sjálfir þurfa aðeins að sjá til þess að þeirra eigin verk séu varðveitt fyrir framtíðina.“

Ester vill einnig benda á að hún hafi orðið vör við þann misskilning hjá sumum að skil til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands á gögnum og efni jafngildi skilum til Kvikmyndasafnsins. Svo sé ekki, skil til Kvikmyndasafnsins þarf að gera sérstaklega.

Ester er nú að senda skeyti og hringja til að ýta við fólki en hvetur einnig mannskapinn til að slá á þráðinn (sími 565 5993) eða senda henni skeyti á ester@kvikmyndasafn.is.

Á dögunum birti safnið svohljóðandi auglýsingu:

Ágæti kvikmyndaframleiðandi og kvikmyndagerðarmaður.

Við skulum huga í sameiningu að langtímavarðveislu, skráningu og utanumhaldi kvikmyndaverka þinna svo framtíð þeirra sé tryggð.

Kvikmyndasafn Íslands sinnir lögbundnu hlutverki á sviði langtímavarðveislu allra tegunda útgefinna íslenskra kvikmynda sem og samstarfsverkefna við erlenda starfsbræður.

Við hvetjum þig til að hafa samband við okkur til að fá allar frekari upplýsingar um tilhögun skila. Kvikmyndasafnið er í Hafnarfirði á Hvaleyrarbraut 13 og símanúmerið er 565 5993.

Við tökum vel á móti þér.

Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri og ábyrgðarmaður er Ásgrímur Sverrisson.

NÝJUSTU FÆRSLUR

AGNES JOY framlag Íslands til Óskarsverðlauna

Kvikmyndin Agnes Joy verður framlag Íslands til Óskarsverðlauna 2021. Myndin var valin af dómnefnd Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, en í henni í sátu fulltrúar helstu fagfélaga íslenska kvikmyndaiðnaðarins, auk fulltrúa kvikmyndahúsa, gagnrýnenda og Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Framsókn vill hækka endurgreiðslur í 35% og tífalda veltu

Stór tæki­færi fel­ast í því að styðja enn frek­ar við kvik­mynda­gerð í land­inu og hækka end­ur­greiðslur af fram­leiðslu­kostnaði í 35% líkt og gert er í lönd­um sem keppa við Ísland um verk­efni, segir Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, sam­gönguráðherra og formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Íslendingar að verða undir í samkeppni um þjónustuverkefni

Leifur B. Dagfinnsson hjá Truenorth segir í viðtali við Fréttablaðið að mörg stór verkefni hafi runnið Íslandi úr greipum undanfarið og að stjórnvöld hafi ekki gert nauðsynlegar breytingar til þess að tryggja samkeppnishæfni landsins. Íslendingar séu að verða undir í alþjóðlegri samkeppni um stór kvikmyndaverkefni út af lágri endurgreiðslu íslenskra stjórnvalda til kvikmyndaframleiðenda.