spot_img

“Happy End” eftir Haneke og níu aðrar á Frönsku kvikmyndahátíðinni 2018

Úr Happy End eftir Michael Haneke.

Franska kvikmyndahátíðin er nú haldin í 18. skipti og stendur frá 26. janúar til 4. febrúar í Háskólabíói í Reykjavík. Á Akureyri stendur hún 28. janúar til 3. febrúar. Tíu myndir eru á boðstólum, þar af ein kanadísk. Á hátíðinni er sýndur þverskurður af nýjum frönskum myndum og myndum frá hinum frönskumælandi heimi, en Frakkar framleiða um 300 kvikmyndir á ári.

Opnunarmyndin er Svona er lífið (Le Sens de la fête) og hún er eftir sömu höfunda og gerðu Intouchable sem sló mjög eftirminnilega í gegn á Íslandi og um allan heim árið 2012.

Fréttir og upplýsingar um kvikmyndahátíðina eru birtar jafnt og þétt á kvikmyndasíðu Franska sendiráðsins (www.facebook.com/franskabio/) og á Facebooksíðu Háskólabíós (www.facebook.com/haskolabio/). Sýningartímar eru á www.smarabio.is/fff þar sem líka er hægt að kaupa aðgöngumiða.

Í tengslum við hátíðina verða fjórir skipulagðir atburðir:

  1. Kanadíski leikarinn Natar Ungalaaq, sem leikur eitt aðalhlutverkið í Iqaluit, verður viðstaddur á frumsýningunni 27. janúar og situr fyrir svörum í sýningarlok. Ungalaaq er ínúíti, fæddur í þorpinu Igloolik í norðausturhéraði Kanada. Hann er leikari, kvikmyndagerðarmaður og útskurðarmeistari. Verk eftir hann er að finna á listasöfnum víða um heim. Þá hefur hann hlotið verðlaun fyrir kvikmyndaleik.
  2. Eftir frumsýningu á Lífs eða liðinn (Réparer les vivants), 29. janúar verður pallborð. Þar skiptast á skoðunum Kjartan Birgisson, hjartaþegi, Runólfur Pálsson, læknir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður, Steinunn Rósa Einarsdóttir, móðir líffæragjafa, og Vilhjálmur Árnason, heimspekingur. Þau taka einnig við spurningum úr sal. Allur ágóði af sýningunni rennur til Hjartaheilla.
  3. Heimildamyndin Endurfæðingin fjallar um Benjamin Millepied, lengi aðaldansara New York City Ballet sem varð heimsfrægur fyrir hlutverk sitt í Óskarsverðlaunamyndinni Svarta svaninum. Hann stýrði Óperuballettinum í París 2014-2016 og sýnir myndin hvernig hann setur á svið fyrsta ballettinn sinn þar og fór ekki hefðbundnar leiðir. Eftir sýninguna 31. janúar koma fram dansarar úr Íslenska dansflokkinum og tala um heim ballettsins. Að því búnu verður sýnd leikna myndin Polina. Hún fjallar um dansmey sem nær miklum frama á sviði klassísks balletts en snýr sér að nútímadansi. Sérstök athygli er vakin á því að myndirnar eru sýndar í þetta eina skipti.
  4. Sólveigar Anspach verðlaunin fyrir stuttmyndir verða veitt 1. febrúar. Efnt var til verðlaunanna í minningu fransk-íslenska leikstjórans Sólveigar Anspach sem lést árið 2016. Þetta er í annað skipti sem verðlaunin verða veitt en þau eru ætluð kvenleikstjórum sem starfa á Íslandi eða í frönskumælandi landi. Sýndar verða þær þrjár myndir sem þóttu bera af í samkeppninni og verða verðlaunin síðan afhent. Að því loknu verður sýnd heimildamynd um Alice Guy, fyrsta kvenleikstjórann sem starfaði bæði í París og í Hollywood.

Myndirnar tíu sem sýndar verða á Frönsku kvikmyndahátíðinni eru:

Opnunarmyndin er Svona er lífið (Le Sens de la fête]. Max Angély hefur langa reynslu að baki við skipulagningu á alls kyns gleðskap. Í þetta sinn hefur hann tekið að sér að sjá um veisluna í brúðkaupi Pierres og Héléne en hana á að halda á 17. aldar óðalssetri og skal ekkert til sparað til að gera hana eins veglega og skemmtilega og kostur er. Max undirbýr veisluna í þaula með hjálparkokkum sínum en að sjálfsögðu fer ýmislegt úrskeiðis, Max og hans fólki til mikillar mæðu en áhorfendur hlæja sig máttlausa. Myndin er í hópi þriggja best sóttu mynda ársins 2017 í Frakklandi. Leikstjórar og höfundar handrits eru þeir Olivier Nakache og Éric Toledano, hinir sömu og stóðu á bak við myndina „Intouchable“ sem sló eftirminnilega í gegn á Íslandi og um allan heim árið 2012.

Myrkviði (Dans la forêt). Tom og Benjamin, eldri bróðir hans, fara í sumarfrí til Svíþjóðar þar sem faðir þeirra býr. Tom kvíðir samfundunum við föður sinn, sem er einrænn og sérkennilegur maður. Og það er eins og faðirinn sé fullviss um að Tom hafi einhvern hæfileika til að sjá það sem öðrum er hulið. Hann býður drengjunum að dveljast í nokkra daga í kofa á vatnsbakka norður í landi og þeir verða himinlifandi. En staðurinn er langt frá mannabyggð, umlukinn þéttum skógi og Tom líst ekki á blikuna. Dagarnir líða og faðirinn er hættur að tala um heimferðina…

Happy End eftir leikstjórann Michael Haneke er ein myndanna á Frönsku kvikmyndahátíðinni. Meðal leikara eru Jean-Louis Trintignant og Isabelle Huppert. Laurent-fjölskyldan í Calais, þar sem ólöglegir innflytjendur hafa slegið upp búðum, hefur auðgast á verktöku í opinberum framkvæmdum. Á einu vinnusvæðinu verður slys og samheldnin í fjölskyldunni, sem brestir voru komnir í, brotnar smám saman upp.

Kanadíska myndin Iqaluit segir frá Carmen sem starfar í viðskiptaheiminum í Montreal. Gilles, eiginmaður hennar, vinnur við framkvæmdir í norðausturhéruðum Kanada. Hann slasast alvarlega og ekki alveg ljóst hvernig það vildi til. Hún flýgur til bæjarins Iqaluit á Baffinslandi, þar sem Gilles liggur á spítala og kynnist vini hans, Noah, innfæddum ínúíta. Hún leitar svara við spurningum sínum, Noah leitar að syni sínum til að koma í veg fyrir óhæfuverk og leið þeirra liggur út á Frobisherflóa…

Polina (Polina, danser sa vie) er rússnesk stúlka sem verður hugfangin af ballett. Hún leggur hart að sér allt frá barnæsku, tekst að komast í fremstu röð og hlýtur inngöngu í Bolsjoj-ballettinn. Vinur hennar fer með henni á sýningu á nútímadansi, hún heillast af þessu dansformi og fer til Frakklands í leit að frama á þessu sviði. Myndin verður bara sýnd einu sinni, 31. janúar.

Endurfæðingin (Relève – histoire d’une création). Benjamin Millepied var aðaldansari New York City Ballet og varð heimsfrægur fyrir ballettana í Óskarsverðlaunamyndinni Svarti Svanurinn. Millepied tók árið 2014 við stjórnartaumunum í ballett Parísaróperunnar, þeim elsta í heimi, stofnaður 1714. Fyrsta verkið sem hann setti upp í hinu nýja starfi var Clear, Loud, Bright, Forward sem markaði þáttaskil. Þessi heimildamynd sýnir lífið á bak við tjöldin meðan Millepied undirbýr og æfir dansverkið. Myndin verður bara sýnd einu sinni, 31. janúar.

Hvítu riddararnir (Les Chevaliers blancs) segir frá Arnault, forseta félagsins „Move for kids“. Hann telur franskar fjölskyldur, sem þrá að ættleiða barn, á að kosta aðgerðir til að sækja munaðarlaus smábörn til stríðshrjáðs Afríkulands svo lítið beri á. Hann hefur einn mánuð til að finna 300 börn og flytja þau til Frakklands en ekki er allt sem sýnist og mörg ljón í veginum.

Lífs eða liðinn (Réparer les vivants). Þrír ungir og hraustir vinir eru á heimleið eftir að hafa tekist á við öldur Atlantshafsins á brimbrettum. Bíllinn fer út af og einn vinanna slasast alvarlega. Miðaldra kona, með tvo fullvaxna syni, þjáist af hjartahrörnun og það er augljóst hvert stefnir. Getur ólán eins orðið gæfa annars og hvernig snerta þessir atburðir alla þá sem í kringum standa?

Viktoría (Victoria) er gamandrama um Viktoríu Spick, ungan lögmann í miklu basli með einkalífið. Hún er stödd í brúðkaupi þegar ungri konu er veittur hættulegur áverki sem vinur hennar, kærasti konunnar, er sakaður um. Hún tekur að sér að verja manninn en ekki gengur allt þrautalaust.

Teiknimyndin Hæst í heimi (Tout en haut du monde) byrjar í Sankti-Pétursborg í Rússlandi seint á 19. öld. Sacha er ung aðalsmær. Hana dreymir um norðurslóðirnar og veltir fyrir sér örlögum Úlúkíns, afa síns. Hann var frægur vísindamaður og landkönnuður sem sneri ekki aftur úr ferð á norðurpólinn. Sacha er ævintýragjörn og þráir að verða landkönnuður eins og afinn, en foreldrar hennar eru ekki beinlínis hlynntir þeim ráðagerðum. Sacha flýr að heiman og undirbýr leit að afanum og skipinu hans.

Dagskrá sýninganna er á smarabio.is/fff og þar er líka hægt að kaupa aðgöngumiða.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR