„Héraðið“ og „Flateyjargáta“ fá stuðning Norræna sjóðsins

Arndís Hrönn Egilsdóttir fer með aðalhlutverkið í Héraðinu (Mynd: Vísir)

Héraðið, kvikmynd Gríms Hákonarsonar og Flateyjargáta, þáttaröð Björns B. Björnssonar hlutu í dag styrk frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum. Verkin fara í tökur á næsta ári.

Héraðið fékk rúmlega 20 milljónir íslenskra króna (1,6 milljón norskar). Arndís Hrönn Egilsdóttir mun fara með aðalhlutverkið, miðaldra konu sem missir mann sinn og verður að berjast fyrir tilveru sinni. Grímar Jónsson framleiðir fyrir Netop Films en Profile Pictures í Danmörku og Haut et Court í Frakklandi meðframleiða. Kvikmyndamiðstöð Íslands styrkir einnig verkefnið. New Europe Film Sales selur á heimsvísu. Tökur hefjast síðla febrúar 2018. 

Þáttaröðin Flateyjargáta (4×52’) er framleidd af Sagafilm og Reykjavík Films en handrit skrifar Margrét Örnólfsdóttir. Verkið hlaut rúmlega 25 milljónir króna (2 milljónir norskra) í styrk. Sagan hefst vorið 1971 þegar Jóhanna, prófessor í norrænum fræðum er ásökuð um morð. Til að sanna sakleysi sitt þarf Jóhanna að leysa ráðgátu Flateyjarbókar. RÚV, DR, SVT, YLE og NRK koma að fjármögnun ásamt Kvikmyndamiðstöð Íslands og Creative Media Europe. Sky Vision fer með sölu á heimsvísu. Tilkynnt verður um leikarahópinn í janúar en tökur fara fram næsta sumar.

Sjá nánar hér: Women run the show in Icelandic projects backed by the Fund

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR