RÚV gerir „Jól í lífi þjóðar“

Dagana 17.-25. desember 2017 mun RÚV bjóða öllum á Íslandi, sem og Íslendingum erlendis, að mynda það sem gerist um jólin og í aðdraganda þeirra og hlaða myndefninu upp á vef RÚV. Úr innsendu efni verður síðan gerð heimildamynd, Jól í lífi þjóðar, sem sýnd verður á RÚV að ári.

Þetta verkefni er óbeint framhald heimildamyndarinnar Dagur í lífi þjóðar, sem sýnd var á 50 ára afmæli RÚV í fyrra.

Segir svo á vef RÚV um Jól í lífi þjóðar:

Allir geta verið með

Allir geta verið með, líka þau sem ekki tala íslensku. Notaðu myndavélina í símanum þínum til dæmis – en mundu að snúa símanum helst lárétt en ekki lóðrétt svo að ramminn fylli útí skjáinn.

Hvenær á að mynda?

Tökutímabilið stendur frá sunnudeginum 17. desember – þriðja í aðventu – til og með mánudeginum 25. desember – jóladegi. Við viljum fá sem fjölbreyttasta mynd af því sem fram fer hjá fólkinu í landinu í aðdraganda jóla sem og yfir hátíðarnar.

Hvað á ég að mynda?

Myndefnið verður að tengjast jólunum og undirbúningi þeirra en þú ræður hvernig það er gert. Þetta geta verið stuttar sögur um eitthvað afmarkað – eða lengri frásögn þar sem undirbúningi og hátíðahöldum eru gerð ítarleg skil. Viðfangsefnin geta verið þú, fjölskyldan eða vinir – allt eftir því sem þér hentar. Við leitum að persónulegu efni – sögum um eitthvað sem skiptir þig máli. Gleði, sorgir og allt þar á milli.

Upptökurnar þurfa að vera að lágmarki 2ja mínútna langar hver. Engin efri tímamörk eru á efninu, hver og einn tekur upp eftir getu og áhuga. Senda má eins margar klippur og fólk vill og hefur tíma til.

Nokkrar hugmyndir

Við viljum fá allskonar myndefni, stórt eða smátt – þitt er valið. Þú og/eða þið getið verið að pakka inn jólagjöfum, dansa á jólaballi, sækja trúarathafnir, kaupa gjafir, fara í jólaklippinguna, vitja um leiði náinna ættingja, borða jólamatinn, taka upp gjafirnar, elda hangikjötið eða rjúpurnar, baka laufabrauðið eða smákökurnar – og svo ótal margt fleira. Sértu að gera eitthvað stórkostlegt eða æsispennandi viljum við endilega sjá það, en hvetjum þig að sjálfsögðu til að fara varlega.

Hér eru nokkur dæmi um það sem þú gætir tekið fyrir – en annars hefurðu þetta bara eins og þér sýnist.

  • Hvað gerist í aðdraganda jóla – í vinnunni, skólanum, hjá fjölskyldunni – eða bara hjá þér?
  • Hvað eru jólin fyrir þér? Hver er kjarninn?
  • Hvað gera þú og þínir á aðfangadag og jóladag?
  • Hvað er erfiðast við jólin? Hvað er skemmtilegast?
  • Til hverra hugsar þú um jólin?

Vertu með!

Eina sem þú þarft að gera eftir að hafa tekið upp efnið þitt er að hlaða því upp hér á vefnum. Úr þessu efni verður gerð heimildamynd sem sýnd verður í RÚV að ári – svipmynd af jólahaldi Íslendinga árið 2017. Vertu með okkur í þessu skemmtilega verkefni.

Jól í lífi þjóðar verður gerð undir stjórn Ásgríms Sverrissonar og framleidd af RÚV.

Sjá nánar um verkefnið hér: Jól í lífi þjóðar | RÚV

Rétt er að taka fram að ritstjóri Klapptrés er jafnframt stjórnandi þessa verkefnis.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR