„Andið eðlilega“: Algjör kvennasprengja

Frá vinstri: Pat­rik Nökkvi Pét­urs­son, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Ísold Uggadóttir og Babetida Sa­djo við tökur á Andið eðlilega.

Morgunblaðið birtir viðtal við Ísold Uggadóttur leikstjóra og handritshöfund kvikmyndarinnar Andið eðlilega, sem frumsýnd verður á Sundance hátíðinni í janúar. Einnig er rætt við Kristínu Þóru Haraldsdóttur, aðra aðalleikkonu myndarinnar.

Úr viðtalinu:

Hvað þýðingu hef­ur það fyr­ir kvik­mynd að kom­ast á Sund­ance?

Ísold: Mynd­in fær mun meiri at­hygli en hún hefði nokk­urn tím­ann ann­ars fengið, sér­stak­lega frá banda­rísku press­unni. Þetta er tæki­færi til að koma list sinni á fram­færi en einnig markaður fyr­ir mynd­irn­ar. Eitt af stóru mark­miðum kvik­mynda­gerðarfólks er að bíó­mynd­irn­ar kom­ist í bíó­hús því kvik­mynda­gerð er auðvitað líka viðskipti. Mynd­ir sem fara á Sund­ance eiga miklu meiri mögu­leika á slíku en þarna er sam­an­komið fólk sem er að velja titla sem það sér fyr­ir sér að muni ganga vel í bíó.“

Segja má að Andið eðli­lega sé al­gjör kvenna­sprengja. Kona skrifaði hand­ritið, leik­stýrði, sá um kvik­mynda­tök­ur, var fram­kvæmda­stjóri, voru aðstoðarleik­stjór­ar, kona valdi í hlut­verk, kon­ur leika tvö aðal­hlut­verk­in, kona sá um leik­mynd, bún­inga, gervi og meðfram­leiðend­ur voru kon­ur. Þannig mætti enda­laust áfram telja.

Var þetta meðvituð ákvörðun að hafa kon­ur á nær öll­um póst­um?

Ísold: „Já og nei. Þegar við fór­um að ráða fólk í vinnu leið mér aldrei öðru­vísi en við vær­um að ráða hæf­asta fólkið sem stóð okk­ur til boða hverju sinni, og það var svo­lítið til­vilj­ana­kennt að það voru kon­ur. Við fór­um ekki út og leituðum sér­stak­lega uppi kon­ur til að vera meðfram­leiðend­ur en vissu­lega höfðaði efniviður­inn til kvenna og þær leituðu til okk­ar. Fyrsti meðfram­leiðand­inn var þannig sænsk kona sem heyrði okk­ur kynna verkið á fram­leiðslu­messu í Nor­egi og varð strax mjög hrif­in. Hvort ástæðan var sú að efniviður­inn er svo­lítið kven­læg­ur veit ég ekki. Ég viður­kenni þó að ég var með það bak við eyrað að mig langaði að vinna með kvik­mynda­töku­mann­eskju sem væri kona. En ég hefði skoðað allt.“

Er öðru­vísi að vera sam­an svona marg­ar kon­ur?

Krist­ín: „Þetta er aðeins öðru­vísi orka jú en ég hugsaði ekki mikið út í það hrein­lega fyrr en eft­ir á, hvað það væri töff að það skyldu vera svona marg­ar kon­ur sam­an­komn­ar í verk­efn­inu. Það var eig­in­lega frek­ar að maður hugsaði: Af hverju er þetta ekki oft­ar svona?“

Ísold: „Í kvik­mynda­gerð er svo rosa­lega mikið álag, hver dag­ur er pakkaður og press­an þannig að maður hef­ur eig­in­lega ekki tíma til að staldra við og átta sig á sér­stöðunni eða róm­an­tík­inni. Við vor­um úti í öll­um veðrum, með börn og dýr og mörg tungu­mál á setti, á venju­leg­um degi gat heyrst ís­lenska, enska, sænska, pólska og franska á tökustað. Creole og ar­ab­íska jafn­vel. Þetta var því mik­il áskor­un og tvö­föld leik­stjórn oft þegar gefa þurfti fyr­ir­mæli bæði á ensku og ís­lensku.“

40 manns biðu eft­ir ketti

Andið eðli­lega fjall­ar um hæl­is­leit­and­ann Adja frá Gín­eu-Bis­sá sem belg­íska leik­kon­an Babetida Sa­djo leik­ur og hvernig ör­lög henn­ar flétt­ast sam­an við ör­lög ís­lenskr­ar konu, Láru, sem Krist­ín Þóra leik­ur. Leiðir þeirra liggja sam­an við vega­bréfa­skoðun á Kefla­vík­ur­flug­velli þar sem Adja er stöðvuð í vega­bréfa­eft­ir­liti af Láru, sem hef­ur nýhafið störf á Kefla­vík­ur­flug­velli. Þær tengj­ast óvænt­um bönd­um en með stórt hlut­verk fer líka Pat­rik Nökkvi Pét­urs­son, sem leik­ur ung­an son Láru. Mynd­in var tek­in upp á Suður­nesj­um og var verk­efnið gíf­ur­lega flókið í af­leitu veðri þar sem stund­um var ekki stætt úti.

Sjá nánar hér: Algjör kvennasprengja – mbl.is

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR