DV um „Stellu Blómkvist“: Heiða Rún frábær

Björn Þorfinnsson skrifar í DV um þáttaröðina Stellu Blómkvist og segir leikstjórann ná að gera ótrúlega hluti úr fátæklegu hráefni.

Björn segir meðal annars:

Það var því með hnút í maganum sem undirritaður hóf áhorfið en áhyggjurnar reyndust óþarfar með öllu. Heiða Reed gjörsamlega neglir hlutverk lögfræðingsins og sýnir að það býr mikið í henni sem leikkonu. Ef gagnrýna á eitthvað þá má segja að hún ofleiki á köflum en það kemur ekki að sök þar sem augljóst er frá fyrstu mínútu að þættirnir taka sig mátulega alvarlega. Af viðbrögðum á samfélagsmiðlum má ráða að sögumannshlutverk Stellu fari í taugarnar á mörgum. Í fyrstu virkar vissulega frekar kjánalegt að heyra kaldhæðnar athugasemdir Stellu um gang mála og forsögu þeirra persóna sem kynntar eru til leiks. Að loknum fyrsta þætti var þessi frásagnaraðferð farin að venjast ágætlega og hún gerir atburðarásina hraðari og oftar en ekki skemmtilegri.

Fjölmargir íslenskir leikarar koma við sögu í þáttunum og vakti frammistaða Söru Daggar Ásgeirsdóttur og Kristínar Þóru Haraldsdóttur mesta athygli undirritaðs. Sara Dögg er mjög sannfærandi í hlutverki útsmogins en aðlaðandi innanríkisráðherra. Kristín Þóra leikur tölvunördinn Gunnu, besta vin og nánasta samstarfsmann Stellu. Karakterinn er sennilega ein mesta klisja í sögu sjónvarpsþátta á Íslandi en Kristín Þóra er frábær í sínu hlutverki.

Þá er rétt að minnast á myndatökuna í þættinum sem ykkar einlægum þótti afar vel heppnuð, sérstaklega stutt drónamyndskeið sem gerðu mikið fyrir áhorfandann.

Helsti galli þáttanna er handritið sem er frekar þunnt. Málin sem Stella þarf að glíma við eru fyrirsjáanleg í meira lagi. Með hraðanum, myndatökunni og sjarma aðalpersónunnar nær leikstjórinn, Óskar Þór Axelsson, samt að gera ótrúlega hluti úr fátæklegu hráefni. Það ber að lofa og vonandi verður framhald á gerð íslenskra sjónvarpsþátta fyrir efnisveitur eins og Sjónvarp Símans. Eftirspurnin er til staðar og greinilega hæfileikarnir hjá íslenskum listamönnum.

Sjá nánar hér: Heiða Rún er frábær sem Stella Blómkvist – DV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR